• Kakasus_House-rescue-a

Kákasuslöndin

Margvíslegar hamfarir

Um nokkurra ára skeið hefur Rauði krossinn á Íslandi, í samstarfi við danska, austurríska og svissneska Rauða krossinn, Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans aðstoðað Rauða krossinn í Armeníu og Georgíu við að styrkja neyðarviðbrögð og varnir en bæði löndin eru þekkt jarðskjálfta-, skriðu- og flóðasvæði.

Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu og utanríkisráðuneytinu.

Neyðarvarnir

Almannavarnir beggja landa hafa fram að þessu verið fremur bágbornar og löndin hafa átt erfitt með að takast á við afleiðingar náttúruhamfara. Í Armeníu og Georgíu er komið á fót teymum til að sinna neyðarvörnum og neyðaraðstoð. Gerðar eru neyðarvarnaáætlanir fyrir hvert sveitarfélag, viðbragðsáætlanir fyrir heimili og rýmingaráætlanir fyrir skóla. Haldnar eru neyðarvarnaæfingar og loks fá íbúarnir fé og stuðning til smáverkefna sem eiga að draga úr hættu á hamförum eða slysum. Heimamenn kortleggja þau svæði í nærsamfélaginu sem viðkvæmust eru fyrir hamförum til að draga úr líkamstjóni og skemmdum á mannvirkjum þegar hamfarir eiga sér stað. Sjálfboðaliðahópar eru þjálfaðir í skyndihjálp og sálrænum stuðningi.

Þekking frá Íslandi

Rauði krossinn á Íslandi hefur tekið þátt í þessu samstarfi síðan árið 2010. Íslenskir sérfræðingar hafa séð um nokkur námskeið fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða systurfélaganna í Armeníu og Georgíu, m.a. um sálrænan stuðning vegna áfalla og um samskipti og samstarf við fjölmiðla þegar hamfarir verða.