• _SOS7277--1-

Konukot

Næturathvarf fyrir heimilislausar konur

Konukot er opið allan sólahringinn á meðan Covid-19 faraldurinn gengur yfir.

Konukot er neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur og er ætlað að sinna grunnþörfum hvað varðar húsnæði, hreinlæti og mat. Athvarfið er opið frá kl. 17:00 til kl. 10:00 daginn eftir og eru rúm fyrir tólf konur. Allar þær konur sem á þurfa að halda eru boðnar velkomnar í Konukot.

Boðið er upp á heita kvöldmáltíð og léttan morgunverð. Einstaklingar geta þvegið af sér og farið í sturtu. Að auki geta gestir fengið fatnað, sem Fataflokkun Rauða krossins útvegar ef á þarf að halda.

Í Konukoti er reynt að skapa þægilegt og heimilislegt andrúmsloft þar sem grundvallarmarkmið Rauða krossins eru höfð að leiðarljósi. Starfsfólk reynir að mæta hverjum og einum gesti á þeim stað sem hann er staddur og veitir þannig einstaklingsmiðaða þjónustu. Starfsfólk aðstoðar einnig gesti við að hafa samband við lækni, meðferðaraðila, geðdeild eða aðra sambærilega aðila ef á þarf að halda og alltaf er reynt að vinna í málefnum gesta.

Ef þú vilt gerast sjálfboðaliði fylltu þá út formið hér og haft verður samband við þig von bráðar. Í umsókninni skaltu taka fram í athugasemdum að þú hafir áhuga á að starfa í Konukoti. 

_28A2876

Í Konukoti er unnið eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði (harm reduction). Flestir af gestum Konukots eiga við vímuefnavanda og/eða geðrænan vanda að stríða. Skaðaminnkandi hugmyndafræði beinir sjónum sínum að afleiðingum og áhættu fíknihegðunar, en ekki á notkunina sem slíka, og er markmiðið fyrst og fremst að auka lífsgæði og heilsu notenda.

Boðið er upp á hreinan sprautubúnað, smokka og skaðaminnkandi ráðgjöf um örugga sprautunotkun og blóðborna sjúkdóma eins og HIV og lifrarbólgu C í samstarfi við Frú Ragnheiði.

Á hverri vakt eru tveir starfsmenn og/eða sjálfboðaliðar. 

Saga Konukots

Reykjavíkurdeild Rauða krossins setti Konukot á fót og opnaði formlega þann 10. desember 2004. Forsaga athvarfsins er sú að gerðar höfðu verið þarfagreiningar og rannsóknir sem leiddu í ljós að fjöldi heimilislausra kvenna væri á vergangi í Reykjavík og ákvað stjórn Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á fundi vorið 2004 eftir tveggja ára undirbúningstímabil og viðræður við marga aðra aðila um samstarf að opna athvarfið hið fyrsta.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar útvegaði húsnæðið að Eskihlíð 4 haustið 2004 og var það samkomulag milli borgarinnar og Rauða krossins í Reykjavík að um yrði að ræða tveggja ára tilraunaverkefni og aðkoma borgarinnar eða yfirtaka yrði skoðuð að þeim tíma loknum. Rauði krossinn rekur athvarfið enn í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg.

Konukot er í Eskihlíð 4, sími, 511-5150.

Sendu verkefnastjóra tölvupóst eða fylltu út formið hér til að gerast sjálfboðaliði og taktu fram í athugasemdum að þú hafir áhuga á að starfa í Konukoti. 

Föt, snyrtivörur og matur til styrktar Konukoti
Konukot tekur á móti öllum fatnaði og snyrtivörum. Gámur er við hlið hússins sem hægt er að skila fötum í. Snyrtivörur og annað er hægt að koma með á opnunartímar athvarfsins.

Flóamarkaður er rekinn til styrktar starfseminni og þjónar hann einnig sem stór lager fyrir starfsemi Konukots. Þar geta gestir Konukots nálgast það sem vantar hverju sinni. 
Flóamarkaðurinn er opinn alla laugardaga frá 12:00-16:00.
Allur ágóði af sölunni á flóamarkaðinum rennur beint í starfsemi Konukots.

Matargjafir er hægt að koma með á opnunartíma athvarfsins, alla daga frá kl 17:00-10:00.