• 127_2715

Líbanon

Í Líbanon, landi litlu stærra en Vatnajökulsþjóðgarði, er að finna yfir milljón sýrlenskra flóttamanna og landið hýsir hæsta hlutfall flóttamanna miðað við höfðatölu í heiminum, um fjórðung allra íbúa. Þrátt fyrir lítið bolmagn hafa Líbanir hleypt flóttamönnunum óhindrað inn í landið, minnugir þess að sjálfir leituðu þeir skjóls í Sýrlandi þegar hatrömm borgarastyrjöld geisaði í Líbanon fyrir 20 árum. Viðkvæmt jafnvægi hefur ríkt í líbönskum stjórnmálum frá því að borgarastyrjöldin tvístraði landinu og eykst spennan nú dag frá degi. Þrátt fyrir að hafa enn ekki jafnað sig að fullu eftir eigin borgarastyrjöld hefur líbanska þjóðin sýnt flóttamönnunum gífurlega gestrisni og hafa margar fjölskyldur hleypt flóttamönnum inn á eigið heimili. Þessi gríðarlegi fjöldi flóttamanna hefur lagt þungar fjárhagslegar byrðar á líbönsku þjóðina. Stór hópur Líbana, sem þegar bjó við bág kjör, upplifir nú sára fátækt og sömu örlög blasa því miður við mörgum. Mikilvægt er að veita Líbönum aukna aðstoð við að hýsa þennan fjölda flóttamanna.

Rauði krossinn vinnur gríðarlega mikilvægt starf á þessum ákaflega erfiðu tímum. Deildir líbanska Rauða krossins hafa um árabil rekið heilsugæslur vítt og breitt um landið sem sinnt hafa þeim þjóðfélagshópum sem engan aðgang hafa að einkareknu heilbrigðiskerfi landsins. Með tilkomu flóttamannanna hefur álag á þessar heilsugæslur rokið upp úr öllu valdi og eru Líbanir nú aðeins lítill hluti þeirra sem sækja þessa lífsnauðsynlegu þjónustu. Þúsundir sýrlenskra flóttamanna koma á heilsugæslurnar daglega. Erfiðlega hefur reynst að ná til stórra hópa flóttamanna sem halda til á afskekktum svæðum. Því hefur Rauði krossinn á Íslandi, í samstarfi við norska og líbanska Rauða krossinn, starfrækt svokallaðar færanlegar heilsugæslur frá því haustið 2013. Ljóst er að miklu munar um þessa aðstoð.

Læknar, hjúkrunarfræðingar og sjálfboðaliðar fara daglega um afskekkt svæði á sérútbúnum bíl og veita margvíslega nauðsynlega læknisþjónustu, auk þess sem gefinn er sérstakur gaumur að leiðum til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum sem því miður fylgir oft aðstæðum sem þessum.

Nú, þegar átökin hafa staðið á fimmta ár, eru bjargir flóttafólksins afar bágbornar. Þörfin fyrir aukna aðstoð, ekki hvað síst í formi bættrar aðstöðu í flóttamannabúðum og menntunar barna, er yfirþyrmandi. Rauði krossinn í Líbanon hóf árið 2015 að dreifa hjálpargögnum til flóttafólks, en hafði áður ekki lagt mikla áherslu á slíkar dreifingar. Mikill metnaður er meðal starfsmanna til að auka þá aðstoð verulega.

Árið 2014 beitti Fatímusjóðurinn sér fyrir fatasöfnun í samvinnu við Rauða krossinn og voru um 5 tonn af hlýjum vetrarfatnaði sendar til flóttafólks i Líbanon, þ.e. alls um 20 þúsund flíkur.