• IMG_1161

Malaví

 

Rauði krossinn á Íslandi hefur starfað náið með systurfélagi sínu í Malaví frá árinu 2002. 

Malaví er eitt þéttbýlasta land Afríku og eitt það fátækasta í heiminum. Samgöngur eru víða lélegar og rafmagn óstöðugt. Heilbrigðisþjónusta er af skornum skammti og hverri heilsugæslu er oft gert að sinna mjög stórum og strjálbýlum svæðum. Heilsugæslustöðvar eru margar í lélegu ástandi, illa mannaðar og oft lyfjalausar. Alnæmi og malaría herja á berskjölduð samfélög og ein alvarlegasta afleiðing þess er mikill fjöldi munaðarlausra barna. Hnattræn hlýnun orsakar reglulega mikla þurrka og flóð sem valda uppskerubresti og viðvarandi matavælaskorti. Þá er mikill skortur á hreinu vatni og almennu hreinlæti sem veldur sjúkdómum.

Hátt brottfall stúlkna úr skólum er mikið áhyggjuefni. Vel hefur til tekist að fá foreldra til þess að skrá börn sín í skóla við sex ára aldur, bæði stúlkur og drengi. En heimilið og fjölskyldan er talin meginábyrgð kvenna og því telja margir foreldrar til lítils að útvega stúlkum menntun. Malavískar stúlkur hætta því skólagöngu oft fljótt og talið er að allt að 32% stúlkna séu hættar skólagöngu á tólfta aldursári. Þær eru gjarnan giftar barnungar og verða fljótt þungaðar. Áhersla er lögð á að bæta til frambúðar heilbrigði, aðgang að hreinu vatni, auka hreinlæti og efla stúlkur til skólagöngu og bæta þekkingu þeirra á eigin réttindum og trú á eigin getu.

Stúlkur og konur þurfa að ganga langar leiðir til að sækja sér vatn eða notast við óhreint vatn úr pollum og lækjum. Á verkefnasvæðunum er borað eftir vatni sem yfirleitt finnst á um 20 metra dýpi en til að tryggja að nægilegt vatn sé til að endast næstu tíu ár þá er farið niður á 45 metra dýpi. Handknúnar dælur eru svo settar í holurnar þegar gengið hefur verið frá þeim og hópar þorpsbúa þjálfaðir í meðferð þeirra og viðhaldi. Víða eru vatnsdælur settar upp við skóla til þess að hvetja foreldra til að senda börn sín í skóla.

Verkefni Rauða krossins í Malaví hafa verið dyggilega studd af Mannvinum Rauða krossins.