• _SOS8776

Námskeið

Hægt er að nálgast yfirlit yfir námskeið á vegum Rauða krossins hér sem haldin eru á næstunni. 

Rauði krossinn sinnir viðamiklu starfi á sviði neyðarvarna og skyndihjálpar. Því fylgir mikil þjálfun sem sjálfboðaliðar og almenningur þarf að undirgangast. Dagskrá fyrir skyndihjálparnámskeið fyrir almenning er hægt að nálgast á www.skyndihjalp.is.

Vefnámskeið Rauða krossins má finna hér. 

Skyndihjálp

Námskeið fyrir fyrirtæki

Í boði eru margs konar skyndihjálparnámskeið sniðin að þörfum hópa og fyrirtækja. Sendu okkur fyrirspurn á [email protected]  eða hafðu samband við Rauða krossinn á þínu svæði og fáðu verðtilboð. 

Námskeið fyrir almenning

Um allt land heldur Rauði krossinn reglulega skyndihjálparnámskeið fyrir almenning. Ef þú vilt frekari upplýsingar hafðu þá samband við Rauða krossinn á þínu svæði, sendu fyrirspurn á [email protected] eða hringdu í síma 570-4000.

Almenn námskeið

Grunnnámskeið Rauða krossins
Allir sem starfa fyrir Rauða kross hreyfinguna ættu að sækja grunnnámskeið. Á námskeiðinu er farið yfir upphaf Rauða krossins og ágrip úr sögu hreyfingarinnar, grundvallarhugsjónir hans og alþjóðleg mannúðarlög, stefnu félagsins og helstu áherslur í starfi félagsins innanlands og utan. Hér er hægt að taka grunnnámskeið .

Sálrænn stuðningur
Námskeiðið hentar vel fyrirtækjum, starfsmannahópum og almenningi sem vilja öðlast þekkingu og færni í sálrænum stuðningi.

Almenn skyndihjálp og sálrænn stuðningur fyrir starfsfólk grunnskóla
Námskeið ætlað starfsfólki grunnskóla sem vill auka þekkingu sína í almennri skyndihjálp og sálrænum stuðningi. 

Leiðbeinendanámskeið í sálrænum stuðningi
Skilyrði fyrir þátttöku í námskeiðinu er fagmenntun á sviði heilbrigðismála, sálfræði, félags- eða uppeldisfræði og reynsla af áfallavinnu. Á námskeiðinu er leitast við að dýpka þekkingu og skilning þátttakenda á eðli áfalla og viðbrögðum einstaklinga við þeim.

Inngangur að neyðarvörnum
Sjálfboðaliðar stjórna starfi í fjöldahjálp og félagslegri aðstoð á neyðarstundu. Á námskeiðinu er farið yfir helstu atriði í neyðarvörnum og hlutverki Rauða krossins, en í því felst m.a. að setja upp móttökustaði (fjöldahjálparstöðvar). Námskeiðið er opið öllum þeim sem hafa áhuga á og vilja starfa með Rauða krossinum í þessum málaflokki.

Deildanámskeið Rauða krossins
Þessi námskeið eru haldin á svæðavísu og eru nauðsynleg öllum sem starfa í stjórnum deilda og/eða hafa umsjón með verkefnum á vegum félagsins. Markmið námskeiðanna er að styrkja deildafólk í störfum sínum og gera það hæfara til að takast á við verkefni sín og skyldur. Farið er yfir hugsjónir Rauða krossins, störf og hlutverk deilda, sjálfboðið starf og ræðumennsku. 

Námskeið fyrir heimsóknavini
Á námskeiðunum er meðal annars greint frá tilgangi heimsóknavina og farið yfir leiðbeiningar og reglur sem þarf að hafa í huga í heimsóknum. Námskeiðin eru ætluð þeim sem hafa hug á að heimsækja félagslega einangrað fólk. 

Námskeið fyrir sjálfboðaliða Hjálparsímans 1717 og netspjallsins
Sjálfboðaliðar Hjálparsímans taka allir 40 stunda undirbúningsnámskeið. Þar fræðast þeir um þunglyndi, kvíða og aðrar geðraskanir og fá æfingu í sálrænum stuðningi og viðtalstækni. 

Sendifulltrúanámskeið
Rauði krossinn á Íslandi sendir einungis út vel þjálfaða og hæfileikaríka starfsmenn. Þeir sem sækjast eftir því að verða sendifulltrúar hjá félaginu þurfa að sækja sendifulltrúanámskeið Rauða krossins. Sendifulltrúar þurfa að hafa skilning á grundvallarhugmyndum og skipulagi Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Á námskeiðinu eru rædd málefni, vandamál og ögrandi viðfangsefni sem þátttakendur þurfa að takast á við í þróunarvinnu, neyðaraðstoð eða á stríðstímum og þeim hjálpað að þróa færni sína í vinnu við þær aðstæður. Hér má nálgast frekari upplýsingar um námskeið sendifulltrúa. 


Öryggisnámskeið fyrir sendifulltrúa
Sendifulltrúar eru oft við störf á átakasvæðum þar sem öryggismál eru mjög mikilvæg. Á námskeiðinu er farið yfir hvernig eigi að haga sér við hinar ýmsu aðstæður til að tryggja sem best öryggi á vettvangi.