Neyðarvarnir

Í COVID-19 faraldri  gegnir Rauði krossinn á Íslandi ákveðum skyldum og tekur þátt í viðbragðsáætlun almannavarna vegna heimsfaraldsins. Rauði krossinn hefur umsjá með farsóttarhúsi og gegnir Hjálparsíminn 1717 mikilvægu hlutverki. 

Vilt þú leggja Rauða krossinum lið á tímum COVID-19 með því að gerast sjálfboðaliði eða Mannvinur?

Farsóttarhús

Eitt af verkefnum Rauða krossins vegna COVID-19 er umsjá farsóttarhúsanna. Farsóttarhúsin eru hugsuð  fyrir þá einstaklinga sem þurfa að vera í einangrun en geta ekki dvalið heima hjá sér.  

Í farsóttarhúsinu starfa sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins, þau sinna gestum húsanna, veita sálrænan stuðning og hafa fengið sérstaka þjálfun vegna vinnu sinnar með fólki sem dvelur í sóttkví og einangrun. Slíkur stuðningur getur skipt sköpum á tímum sem þessum.

Hjálparsíminn 1717

Hjálparsímann 1717 og netspjallið veitir sálrænan stuðning og stendur almenningi til boða allan sólahringinn. Ef þú finnur fyrir kvíða vegna COVID-19 þá er alltaf einhver til þess að svara á Hjálparsímanum eða netspjallinu. 

Símavinir

Hér er hægt að sækja um Símavin sem hringir tvisvar í viku.

Fréttir af starfinu

Fréttir af starfinu eru reglulega settar inn á Facebook , Twitter og Instagram.

_________________________________________________________________________

Rauði krossinn bregst á hverju ári við fjölda alvarlegra atburða svo sem náttúruhamförum, samgönguslysum, húsbrunum og vinnuslysum.

Rauði krossinn er með hundruðir sjálfboðaliða sem eru til taks allan sólarhringinn ef hamfarir eða önnur áföll dynja yfir. Sjálfboðaliðar og starfsfólk eru með mismunandi sérþekkingu, m.a. í stjórnun aðgerða, uppsetningu fjöldahjálparstöðva og í að veita sálrænan stuðning og skyndihjálp þegar mikið liggur við.

Þegar hættuástand skapast vegna náttúruhamfara eða annarra stórslysa fer neyðarvarnarkerfi Rauða krossins í gang. Hlutverk Rauða krossins í almannavörnum ríkisins er fjöldahjálp og félagslegt hjálparstarf sem felst einkum í því að útvega fæði, klæði og húsaskjól og veita upplýsingar til fólks á neyðarstundu. Fjöldahjálparstöðvar eru opnaðar þegar koma þarf stórum hópum fólks í skjól, svo sem vegna rýminga hverfa eða landssvæða og í kjölfar náttúruhamfara.

Í húsi Rauða krossins að Efstaleiti 9 er starfrækt Neyðarmiðstöð. Henni er ætlað að samhæfa betur neyðarviðbrögð félagsins á tímum áfalla. Þar eru sameinuð undir einum hatti verkefni Rauða krossins í neyðarvörnum, skyndihjálp, áfallahjálp og sálrænum stuðningi. Megináherslur Neyðarmiðstöðvar eru öflug samhæfing, vöktun á náttúruvá og öðrum ógnum, áfallahjálp, símsvörun allan sólarhringinn, þjálfun viðbragðsliðs og samskiptabúnaður sem mætir nútímakröfum.

Ef þú vilt gerast sjálfboðaliði skráðu þig þá hér og fulltrúi frá okkur mun hafa samband við þig.

_SOS8819

Neyðaraðstoð

Neyðaraðstoð er aðstoð vegna óvæntra atburða eða áfalla sem raska daglegu lífi fólks svo mikið að það getur ekki ráðið fram úr þeim sjálft.  Rauði krossinn virkjar skipulag sitt innan almannavarna þegar óvæntir atburðir eiga sér stað. Um er að ræða tímabundna aðstoð og skal viðmiðið vera tveir sólarhringar. 

Leiðarljós og áhersla Rauða krossins 

Rauði krossinn bregst við neyð jafnt innanlands sem utan og veitir aðstoð er gerir fólk hæfara til að takast á við erfiðleika og bregðast við áföllum. Félagið stendur vörð um mannréttindi og virðingu einstaklinga.

Rauði krossinn virkjar það skipulag, sem komin er reynsla á í kerfi almannavarna, til þess að bregðast við annarri skyndilegri neyð, svo sem vegna húsbruna, umferðarslysa eða dauðsfalla af öðrum orsökum.

Deildir Rauða krossins á Íslandi um allt land, veita einstaklingum í erfiðleikum aðstoð. Stór hluti þeirrar aðstoðar er veittur í desembermánuði, gjarnan í samvinnu við önnur félög á hverjum stað. Í nær öllum tilvikum er neyðaraðstoð veitt í samstarfi við félagsþjónustu, prest eða önnur líknarfélög og samkvæmt ábendingum frá þessum aðilum.