• Palestina_2014-2

Palestína

Sálrænn stuðningur

Rauði krossinn á Íslandi, í samstarfi við systurfélög sín í Danmörku og á Ítalíu, styður palestínska Rauða hálfmánann sem rekur verkefni sem miða að því að auka áfallaþol palestínska samfélagsins og bæta sálræna og andlega líðan íbúanna. Rauði hálfmáninn hefur þjálfað hundruð sjálfboðaliða til að veita fólki sálrænan stuðning með stuttum fyrirvara þegar áföll dynja yfir. Þá er í boði ýmis konar dagleg þjónusta við fólk sem þjáist vegna stríðsátakanna. Börn fá aðstoð í hópum með jafnöldrum sínum þar sem þau leika sér saman og ræða líðan sína. Ungmenni geta einnig starfað sem sjálfboðaliðar og fá þá margvíslega þjálfun til að geta stutt þá sem líður illa. Fullorðnum býðst að taka þátt í sjálfshjálparhópum eða fá einstaklingsbundna ráðgjöf fagfólks.

Félagsmiðstöð í Betlehem

Með stuðningi utanríkisráðuneytisins hefur Rauði krossinn á Íslandi gert deild Rauða hálfmánans í Betlehem kleift að byggja félagsmiðstöð. Sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans fá þjálfun sem gerir þeim kleift að standa að rekstri félagsmiðstöðvarinnar. Miðstöðin er opin síðdegis alla daga og á kvöldin. Þar er veitt fræðsla og einnig staðið að ýmis konar menningar- og félagsstarfi fyrir börn, konur og aldraða.

Þjálfun sjúkraflutningamanna

Rauði hálfmáninn í Palestínu sér um stóran hluta sjúkraflutninga á Vesturbakkanum og Gasa-ströndinni. Félagið hefur ekki haft bolmagn til að veita sjúkraflutningamönnum þjálfun skv. stöðlum Evrópska endurlífgunarráðsins (European Resuscitation Council). Með aðstoð íslenskra lækna og sjúkraflutningamanna hafa palestínskir sjúkraflutningamenn fengið þjálfun sem gerir þá hæfari til að flytja sjúklinga við erfiðar aðstæður.