• Haiti_erlasvava_IMG_8035

Sendifulltrúar

Athugið: Næsta sendifulltrúanámskeið verður haldið í 4. - 15. október 2021. Umsóknarfrestur er til 12. júlí. Nánari upplýsingar og skráningu má finna hér.

Sendifulltrúar Rauða krossins

Á hverju ári sendir Rauði krossinn á Íslandi á milli 10 og 30 sendifulltrúa til hjálparstarfs erlendis. Verkefni sendifulltrúa, sem oft eru unnin við erfiðar aðstæður, taka mislangan tíma en eru oftast til sex til tólf mánaða. Reyndir sendifulltrúar starfa við neyðaraðstoð í kjölfar náttúruhamfara og á átakasvæðum í styttri tíma og halda til starfa með mjög skömmum fyrirvara. 

Sendifulltrúar Rauða krossins starfa sem hlutlausir aðilar á vettvangi átaka og hamfara við neyðaraðstoð. Sendifulltrúar hafa sumir það hlutverk að hafa eftirlit með því að fjármagn og hjálpargögn skili sér til þeirra sem búa við sárustu neyðina ásamt því að þjálfa starfsfólk Rauða kross félaga í löndunum þar sem þeir starfa og stuðla þannig að því að byggja upp starfsgetu viðkomandi landsfélags Rauða krossins eða Rauða hálfmánans. 

Sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi starfa í langflestum tilvikum með Alþjóða Rauða krossinum. Um er að ræða störf með  Alþjóðaráði Rauða krossins (ICRC) annars vegar og  Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) hins vegar.

Sendifulltrúar Rauða krossins hafa menntun sem nýtist í alþjóðlegu hjálparstarfi, minnst 3 ára starfsreynslu eftir lok náms og hafa gott vald á enskri tungu, jafnt töluðu sem rituðu máli. Einnig er leitað að fólki sem hefur að auki gott vald á frönsku eða öðrum tungumálum svo sem rússnesku, arabísku, portúgölsku, spænsku o.fl. Starfsreynsla erlendis, sérstaklega í þróunarlöndum, er kostur.