• Nepal-sendifulltruar--2-

Sendifulltrúanámskeið

Rauði krossinn á Íslandi leitast við að senda vel þjálfað og hæfileikaríkt starfsfólk til hjálparstarfa erlendis. Forsenda þess að vera á Veraldarvakt félagsins og þar með að hafa möguleika á að starfa sem sendifulltrúi er að sækja sendifulltrúanámskeið Rauða krossins sem haldin eru annaðhvert ár. 

Síðasta námskeið var haldið haustið 2018.

Aðalmarkmið námskeiðsins eru:


  • Að auka skilning þátttakenda á grundvallarmarkmiðum og skipulagi Rauða kross hreyfingarinnar
  • Að ræða málefni, vandamál og ögrandi viðfangsefni sem þátttakendur þurft að takast á við í þróunarvinnu, neyðaraðstoð og á átakasvæðum
  • Að veita þátttakendum innsýn í og gefa þeim hagnýt ráð við að vinna á skilvirkan hátt innan sendinefndar
  • Að hjálpa þeim að þróa færni sína í þróunarvinnu og neyðaraðstoð 
  • Að veita Rauða krossinum á Íslandi og þátttakendunum sjálfum tækifæri til að endurmeta hæfni þeirra til að vinna sem sendifulltrúar Rauða krossins.

Rauði krossinn á Íslandi fylgir alþjóðlegri námskrá við skipulagningu námskeiðsins sem er tvíþætt. Fyrri hlutinn sem er fræðilegur fer fram á netinu en seinni hlutinn, sá verklegi, í Munaðarnesi. Leiðbeinendur og fyrirlesarar koma frá Rauða krossinum á Íslandi, Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) og Alþjóðaráði Rauða krossins (ICRC).

Námsefnið er tekið fyrir á fjölbreyttan hátt. Það er byggt á persónulegri reynslu, raunhæfum verkefnum, hópavinnu, umræðum, framsöguerindum og myndasýningum.

Gert er ráð fyrir að þátttakendur taki virkan þátt í námskeiðinu allan tímann og sérstök áhersla er lögð á hópavinnu og hlutverk hvers og eins innan hópsins. Námskeiðið er miðað við raunhæfar aðstæður sem sendifulltrúar geta lent í. Meginmarkmiðið er fyrst og fremst að byggja upp vitund og skilning á undirstöðuþáttunum en ekki að þjálfa þátttakendur í verklegri færni. Þess er vænst að þátttakendur hafi þá þegar öðlast færni á hinum ýmsu sviðum í gegnum nám og störf enda hafi þeir verið valdir á námskeiðið á þeim forsendum.

Námskeiðið stendur í 6 daga. Gert er ráð fyrir því að þátttakendur dvelji á námskeiðsstaðnum allan tímann. 

Hvað þarf sendifulltrúi að hafa til að bera?

Rauði krossinn á Íslandi leggur áherslu á að laða til sín áhugasamt, metnaðarfullt og traust starfsfólk til að framfylgja stefnumálum félagsins og veita þeim sem unnið er með og fyrir skjóta og góða þjónustu. Rauði krossinn leggur áherslu á jafnræði, mannvirðingu og tillitssemi í samskiptum. Störf sendifulltrúa eru launuð.

Starfsvettvangur sendifulltrúa er margvíslegur. Þar má nefna almenn stjórnunarstörf, fjármálastjórnun, upplýsingaveitu- og kynningarstörf, heilbrigðisstörf, störf við upplýsingatækni, flutning og dreifingu hjálpargagna, byggingastörf og störf við vatnsöflun og frárennslisveitur. Sendifulltrúar félagsins starfa einnig að vernd almennings á átakasvæðum í samræmi við Genfarsamningana.