• CAR-MOYAMBA-SEPT-DEC.-096

Sierra Leóne

Nám og starfsþjálfun í Moyamba-athvarfinu

Rauði krossinn á Íslandi styður árlega um 150 ungmenni, á aldrinum 12-18 ára, til náms- og starfsþjálfunar í Moyamba-athvarfinu í suðvestur Sierra Leóne. Ungmennin læra að lesa og skrifa en stunda einnig iðnnám í valinni grein. Við útskrift fær hver nemandi áhöld fyrir sitt sérsvið sem hann fær til eignar. Þannig fá nemendur í trésmíðanámi sagir, hamra og hefla en klæðskeranemarnir fá meðal annars saumavélar.

Margar einstæðar mæður fá menntun og starfsþjálfun í athvarfinu en þeim fylgja yfir eitt hundrað börn undir fimm ára aldri. Íbúar þorpsins þar sem athvarfið er starfrækt njóta einnig góðs af starfinu þar sem þeir fá aðstoð við grænmetisrækt og ýmis konar fræðslu, m.a. um heilsufar.

Þann 7. nóvember 2015 var Síerra Leóne yfirlíst ebólufrítt land þar sem ekkert smit hafði greinst í 42 daga. Þó faraldurinn sé nú á enda hefur hann haft veruleg og víðtæk áhrif á samfélagið í heild sinni. Hátt í 9.000 einstaklingar sýktust af ebólu og tæplega 3.600 einstaklingar létu lífið. Þar af létust 221 heilbrigðisstarfsmaður og yfir átta þúsund börn misstu foreldra sína eða forráðamenn. Faraldurinn hefur því minnkað getu og afköst heilbrigðiskerfisins verulega en einnig aukið fjölda munaðarlausra barna í landinu. Ásamt þeim 80 kennurum sem létust af ebólu, lá allt skólahald niðri um langan tíma og því hefur menntakerfi landsins einnig borið töluverðan skaða vegna faraldursins.

Ebóla

Tveir af reyndustu heilbrigðisstarfsmönnum Rauða krossins á Íslandi, þær Magna Björk Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur og Elín Jónasóttir sálfræðingur, fóru til Sierra Leóne í lok sumars 2014 þar sem þær störfuðu um tíma í teymi Alþjóða Rauða krossins sem sá m.a. um að fræða almenning um smitleiðir ebólu. Elín sá einnig um að styðja við hjálparstarfsmenn á svæðinu þar sem aðstæður þeirra voru óvenju erfiðar.

Fjarskiptakerfi

Rauði krossinn á Íslandi hefur verið í nánum tengslum við Rauða krossinn í Síerra Leone um árabil. Árið 2014 kom Rauði krossinn í Síerra Leóne upp fjarskiptakerfi með aðstoð Rauða krossins á Íslandi, sem fékk til þess framlag frá utanríkisráðuneytinu. Fjarskiptakerfið gerði Rauða krossinum kleift að senda fræðandi sms-skilaboð til almennings en kerfið kom að góðum notum í ebólufaraldrinum þar sem sms-skilaboð voru mikið notuð til að fræða fólk um varnir gegn ebólusmiti.