• _28A3469

Skaðaminnkun - Frú Ragnheiður

- á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri


Rauði krossinn starfrækir verkefni sem byggja á hugmyndafræði skaðaminnkunar í vinnu með einstaklingum sem eiga við vímuefnavanda að stríða en skaðaminnkun er einmitt ein af stefnumiðuðum áherslum Rauða krossins 2020-2030. Skaðaminnkun (Harm Reduction) miðar fyrst og fremst að því að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar löglegra og ólöglegra vímuefna án þess endilega að draga úr vímuefnanotkun. 

Frú Ragnheiður var sett á laggirnar árið 2009 á höfuðborgarsvæðinu og byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar. Verkefnið hefur þann tilgang að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu eins og húsnæðislausra einstaklinga og einstaklinga sem nota vímuefni um æð og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu í formi heilbrigðisþjónustu og nálaskiptiþjónustu. Heilbrigðisþjónusta Frú Ragnheiðar veitir meðal annars aðhlynningu sára, sýklalyfjameðferð, umbúðaskipti, saumatöku og almenna heilsufarsskoðun og ráðgjöf. Á hverri vakt starfar hjúkrunarfræðingur og læknir sem sinnir bakvakt.

Frú Ragnheiður lofar 100% trúnaði og nafnleynd. Við leggjum mikla áherslu á að koma fram við fólk af virðingu, skilningi og væntumþykju. Verið velkomin að hringja og líta inn til okkar.

 

Nánar um Frú Ragnheiði á höfuðborgarsvæðinu

Frú Ragnheiðar bíllinn er sérinnréttaður til að veita slíka þjónustu á vettvangi og þjónustar einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu sunnudaga til föstudaga (öll kvöld nema laugardaga) klukkan 18:00-21:00. Til að hitta bílinn er hægt að hringja í síma 7887123 eða senda skilaboð á Facebooksíðu Frú Ragnheiðar. Frú Ragnheiður getur hitt einstaklinga hvar sem er á höfuðborgarsvæðinu.

Á dagtíma sinna starfskonur eftirfylgd með málum skjólstæðinga. Þær aðstoða skjólstæðinga við að koma málum sínum í réttan farveg og veita aðstoð við að komast í sértækari heilbrigðisþjónustu, í vímuefnameðferðir og í félagslega þjónustu.

Í Frú Ragnheiði á höfuðborgarsvæðinu starfa um 100 sjálfboðaliðar og tvær starfskonur (verkefnastýra sem er jafnframt hjúkrunarfræðingur ásamt starfskonu sem er sérfræðingur í skaðaminnkun). Verkefnið byggir á sjálfboðnu starfi fjölbreytts hóps einstaklinga sem standa að meðaltali tvær vaktir í mánuði og skuldbinda sig í að lágmarki eitt ár. Stærsti einstaki faghópurinn eru hjúkrunarfræðingar, jafnframt eru læknar, félagsráðgjafar, lyfjafræðingar, sálfræðingar og aðrir reynslumiklir einstaklingar hluti af verkefninu. Allir sjálfboðaliðar sækja námskeið og fara í gegnum þjálfum til að geta veitt þjónustu í Frú Ragnheiðar bílnum. 

Nánar um Frú Ragnheiði á Suðurnesjum

 

Á Suðurnesjum er þjónusta Frú Ragnheiður í boði á mánudögum og fimmtudögum klukkan 20:00-22:00. Síminn er 783 4747.

Nánar um Frú Ragnheiði á Akureyri

Frú Ragnheiður á Akureyri er á ferðinni á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum klukkan 20:00-22:00. Síminn er 800-1150  en einnig er hægt að hafa samband á Facebooksíðu Frú Ragnheiðar á Akureyri. Sjálfboðaliðar verkefnisins tala íslensku og ensku.

Frú Ragnheiður í tölum

  • Árið 2020 fargaði Frú Ragnheiður á höfuðborgarsvæðinu 3.880 lítrum af notuðum sprautubúnaði
  • Í notendahópi Frú Ragnheiðar eru karlar í miklum meirihlutan en árið 2020 urðu konur í fyrsta sinn þriðjungur af notendahópnum á höfuðborgarsvæðinu
  • Á Akureyri eru notendur Frú Ragnheiðar á aldrinum 21 - 50 ára en flestir eru á aldrinum 31 - 40 ára
  • Árið 2020 voru ungmenni á aldrinum 18-25 ára 20% af notendahópnum á höfuðborgarsvæðinu

Markmið Frú Ragnheiðar

Markmið Frú Ragnheiðar er að aðstoða einstaklinga við að halda lífi, lágmarka óafturkræfan skaða, draga úr sýkingum og útbreiðslu á lifrarbólgu C og HIV. Með því að veita jaðarsettum einstaklingum gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu og nálaskiptaþjónustu, ásamt almennri fræðslu um skaðaminnkun á vettvangi er hægt með einföldum og ódýrum hætti að draga verulega úr líkum á að einstaklingar þurfi í framtíðinni á kostnaðarsamri heilbrigðisþjónustu að halda. Það eykur að auki heilsu og lífsgæði einstaklinga miðað við aðstæður. 

Frú Ragnheiður tekur jafnframt við notuðum sprautubúnaði til förgunar í samstarfi við Landspítalann, sem er hluti af samfélagslegri skaðaminnkun til að draga úr notuðum sprautubúnaði sem verður eftir á götum borgarinnar eða í ruslinu. Að auki fá skjólstæðingar hlý föt, næringu, svefnpoka, tjalddýnur, sálrænan stuðning og ráðgjöf.

Viltu gerast sjálfboðaliði?

 Ef þú vilt gerast sjálfboðaliði í Frú Ragnheiði þá getur þú fyllt út þetta form og við höfum samband.

Athugið: Vegna mikils áhuga á verkefninu er sem stendur biðlisti af áhugasömum sjálfboðaliðum.

IMG_3623_1