• Somali_distribution3

Sómalía

Heilsugæsla á hjólum

Í Sómalíu er opinber heilsugæsla bágborin og þess vegna hefur Rauði krossinn veitt íbúum landsins grunnheilbrigðisþjónustu um langt skeið.

Með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu hefur Rauði krossinn á Íslandi fjármagnað heilsugæslu á hjólum frá árinu 2012, þar sem læknar og hjúkrunarfólk Rauða hálfmánans í Sómalíu fara um á bílum á milli hirðingjasamfélaga í Hargeisa í Ghalbeed-héraði. Þetta er eina heilsugæslan sem íbúar svæðisins eiga völ á en alls búa rúmlega 30 þúsund manns á svæðinu.

Heilsugæslan leggur áherslu á að veita konum og börnum heilbrigðisþjónustu en í Sómalíu er barnadauði meðal þess sem mest gerist í heiminum, eitt af hverjum tíu börnum deyr áður en það nær eins árs aldri og ein af hverjum tólf konum látast af barnsförum. Heilsugæslan leggur því áherslu á að veita barnshafandi konum og mæðrum þjónustu og fræðslu. Börn undir fimm ára aldri fá bólusetningar og foreldrar með vannærð börn fá aðstoð til að tryggja heilbrigði barna sinna með réttri næringu. Heilsugæslan bætir því verulega heilsufar og lífslíkur barna og kvenna en einnig annarra íbúa á svæðinu.

Framlög frá Mannvinum Rauða krossins á Íslandi hafa runnið til þessa verkefnis en einnig fékk Rauði krossinn styrk frá utanríkisráðuneytinu til að standa straum af kostnaðinum.