• Syrie_homs_destruction_web1

Sýrland

Sýrlenska þjóðin hefur verið á flótta síðan blóðug borgarastyrjöld braust út á fyrri hluta árs 2011. Hóflega má áætla að sex og hálf milljón Sýrlendinga séu á vergangi innan stríðshrjáðs heimalands síns. Tugþúsundir fjölskyldna búa við gríðarlega neyð á svæðum sem hafa lengi verið umsetin. Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn sinna gífurlega erfiðu hjálparstarfi við mjög hættulegar aðstæður innan landsins. Starfsfólk, sjálfboðaliðar og sjúkrabílar Rauða hálfmánans eru skotmörk og hafa tugir verið myrtir við störf sín báðum megin víglínunnar síðan átökin hófust. Í Sýrlandi ríkir neyðarástand.

Neyðaraðgerðirnar eru með þeim viðamestu og flóknustu sem hjálparsamtök hafa staðið að í áraraðir. Rauði krossinn á Íslandi og utanríkisráðuneytið hafa veitt fjárframlög til hjálparstarfs Alþjóðaráðs Rauða krossins sem hafa komið milljónum manna til góða. Þrátt fyrir afar erfið skilyrði hafa um 15 milljónir manna fengið aðgang að vatni og bættri hreinlætisaðstöðu, tæplega 6 milljónir matvæli og 1,4 milljónir nauðsynleg heimilisáhöld. Í langflestum tilvikum dreifa sjálfboðaliðar og starfsmenn sýrlenska Rauða hálfmánans hjálpargögnunum.

Læknisþjónusta á átakasvæðum er enn miklum takmörkunum háð. Erfitt reynist að koma sjúkragögnum yfir víglínur og oft er ómögulegt að veita skurðþjónustu á svæðum sem uppreisnarmenn halda. Aðstoð Alþjóðaráðsins á því sviði getur því að mestu verið bundin við stuðning við heilbrigðisstofnanir sem sýrlenski Rauði hálfmáninn rekur.

Rauði krossinn á Íslandi starfar einnig með norska systurfélaginu sínu í Sýrlandi m.a. við að útvega hreint neysluvatn og nauðsynlegar hreinlætisvörur til um þúsunda fjölskyldna sem sérsniðnar eru að þörfum ungbarna og kvenna.

Því miður er ekki líklegt að þessi illskeytta borgarastyrjöld endi brátt og hefur hún áhrif langt út fyrir landamæri Sýrlands. Aðstæður á vettvangi fara versnandi með uppgangi öfgahópa og sífellt erfiðara er að halda úti hjálparstarfi til almennings. Síhækkandi tölur um fjölda flóttamanna bera vitni um þetta.