• 20151117_094119

Mannvinir

Mannvinir Rauða krossins er þeir kallaðir sem styðja mannúðar- og hjálparstarf félagsins innanlands sem utan með mánaðarlegum framlögum og eru framlögin valfrjáls.

Gerast Mannvinur

Mannvinir láta sitt ekki eftir liggja

Rauði krossinn á Íslandi starfar bæði innanlands og utan og um þrjú þúsund sjálfboðaliðar halda uppi hjálparstarfi innanlands.

Helstu verkefni okkar innanlands eru:

Heimsóknarvinir

Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar, sem heimsækja fólk á heimili þess, á stofnanir, sambýli og dvalar- og hjúkrunarheimili. Á hverju ári heimsækjum  við 900 aldraða og sjúka.

Hjálparsími og netspjall Rauða krossins - 1717

Ekkert vandamál er of stórt eða lítið fyrir Hjálparsíma- og netspjall Rauða krossins 1717. Við svörum rúmlega 15 þúsund símtölum og netspjöllum árlega.

Athvörf fyrir fólk með geðraskanir

Við rekum tvö athvörf  fyrir fólk með geðraskanir á höfuðborgarsvæðinu, eitt á Akureyri og kemur að rekstri þriggja annarra athvarfa um landið.

Ýmislegur stuðningur við innflytjendur

Við styðjum við innflytjendur á ýmsan máta, m.a. er opið hús hjá okkur þar sem hægt er að fá aðstoð við ýmislegt s.s. húsnæðis- og atvinnuleit. Einnig viljum við fá innflytjendur til liðs við okkur og hjálpa þeim að fóta sig í íslensku samfélagi.

Stuðningur við hælisleitendur og flóttamenn

Hlutverk Rauða krossins á Íslandi í málefnum hælisleitenda er að gæta þess að hælisleitendur fái réttláta málsmeðferð og mannúðlega meðferð og geti lifað mannsæmandi lífi.

Fatakort

Fólk sem býr við þrengingar getur fengið ókeypis fatnað  hjá Rauða krossinum. 

Neyðarmiðstöð

Þá rekur Rauði krossinn  neyðarmiðstöð  sem samræmir aðgerðir við náttúruhamfarir, slys og aðra alvarlega atburði og veitir þolendum sálrænan stuðning og áfallahjálp . 

Fræðsluhlutverk

Ungt fólk sækir hjá okkur námskeið um börn og umhverfi þeirra, kynnist aðstæðum flóttafólks og fær hjá Rauða krossinum fræðslu sem miðar að því að minnka fordóma í samfélaginu.

Hvar leggja Mannvinir sitt af mörkum?

Auk allra verkefna innanlands sem talin eru upp hér að ofan þá koma framlög Mannvina að góðum notum við ýmis verkefni erlendis. 

Frá Veraldarvakt Rauða krossins eru 200 sendifulltrúar , reiðubúnir að bregðast við þegar hamfarir og áföll verða.

Afríka

Í Sómalíu  og Líbanon styðjum við heilsugæslu á hjólum og veitum þannig fólki læknisþjónustu í sínu nærumhverfi. Í Síerra Leone  styðjum við ungmenni til mennta og vinnum gegn farsóttum. Í Malaví  styðjum við sjálfboðaliða Rauða krossins til að veita heilbrigðisaðstoð og flytja sjúka á spítala.

Asía

Í Kákasusfjöllunum  hjálpum við heimamönnum að byggja upp neyðarvarnir sínar svo þeir geti brugðist við þegar jarðskjálftar og ofanflóð valda usla. Við veitum börnum og unglingum í Palestínu  sálrænan stuðning og þjálfum sjúkraflutningamenn. Í Líbanon sinnum við heilsugæslu meðal flóttafólks frá Sýrlandi .

Evrópa

Í Hvíta-Rússlandi  vinnum við gegn mansali og hjálpum fólki með geðraskanir að takast á við sína veiki.

https://www.youtube.com/watch?v=XIGbfSWOk2g&feature=youtu.be