• _SOS9066--1-

Sjálfboðaliðar

Ýmislegt er hægt að gera sem sjálfboðaliði

Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Íslandi eru um 3.000 talsins. Allir starfa þeir að innlendum verkefnum og hjálparstarfi sem stýrt er af 42  deildum hringinn í kringum landið, með dyggum stuðningi skrifstofu Rauða krossins a Íslandi. Allt starf Rauða krossins er fyrst og fremst drifið áfram af sjálfboðaliðum sem sinna ótal verkefnum. Án sjálfboðaliða verður hjálparstarf Rauða krossins fábrotið. 

Það eru ótal leiðir til sem bjóðast þeim sem að gerast sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum. Allt fer þetta eftir tíma, þekkingu og reynslu viðkomandi. Sjálfboðaliðar fá viðeigandi þjálfun fyrir þau verkefni sem þeir kjósa að sinna en þjálfunin er mis ítarleg eftir því hvaða verkefni er valið að sinna. 

Að starfa sem sjálfboðaliði getur í senn verið gefandi og erfitt. Virkir sjálfboðaliðar auka við þekkingu sína og reynslu sem getur svo aftur verið nytsamlegt í öðru reglubundnu starfi þeirra eða námi. 

Verkefni Rauða krossins eru um mörg og mismikil. Að starfa sem sjálfboðaliði fer því mikið eftir áhugasvið viðkomandi. Heimsóknavinir eru vinsæl leið og þarf ekki að vera tímafrek. Að sinna neyðarvörnum er annað verkefni sem að getur tekið meiri tíma frá viðkomandi en því fylgir einnig reglulegur félagskapur sem leiðir oft af sér áralanga vináttu. Að starfa sem sjálfboðaliði er því ekki síður félagslegt fyrir þá sjálfa sem og skjólstæðingana. 

Hér má kynna sér nánar þau verkefni sem sjálfboðaliðar sinna:

 • Félagsstarf fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd - Rauði krossinn sinnir félagsstarfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, með opnu húsi eða "social house" og stendur einnig fyrir ýmsum viðburðum. Sjálfboðaliðar sjá um starfið. [email protected]
 • Leiðsöguvinir,Tölum saman og fleiri störf með flóttafólki – Sjálfboðaliðar kynnast og aðstoða nýkomna einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi.

 • Aðstoð eftir afplánun - Sjálfboðaliðar styðja einn einstakling sem nýlokið hefur afplánun í fangelsi. Sjálfboðaliða er ætlað að aðstoða við ýmislegt er varðar daglegt líf og þær breytingar sem verða við það að ljúka afplánun.
 • Hjálparsíminn 1717 - Sjálfboðaliðar svara símtölum og netspjöllum sem berast Hjálparsímanum, en fólk hefur samband vegna ýmissa aðstæðna. Ekkert vandamál er of stórt eða lítið fyrir Hjálparsíma og netspjall Rauða krossins.
 • Neyðarvarnir - Rauði krossinn bregst við alvarlegum atburðum oft á ári; náttúruhamförum, samgögnuslysum, húsbrunum, vinnuslysum o.fl. Aðstoðin felst í opnun fjöldahjálparmiðstöðva, sálrænum stuðningi og jafnvel skyndihjálp.
 • Fatasöfnun - Rauði krossinn safnar fatnaði um allt land og er hann allur flokkaður í fatasöfnuninni okkar að Skútuvogi 1 í Reykjavík, sumt fer í búðirnar, annað er sent þar sem þörf er á erlendis eða selt til útlanda.
 • Rauða kross búðirnar - Í verslunum okkar sem staðsettar eru víðsvegar um land starfa sjálfboðaliðar árið um kring við hefðbundin verslunarstörf.
 • Vinaverkefni - Heimsóknavinir heimsækja fólk á heimili þess, stofnanir, sambýli og dvalar- og hjúkrunarheimili. Hlutverk heimsóknavina er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju. Það á einnig við um símavini og hundavini.
 • Stuðningur við innflytjendur - Rauði krossinn styður innflytjendur á margvíslegan hátt, en m.a. er opið hús tvisvar í viku í Efstaleiti 9 þar sem sjálfboðaliðar veita innflytjendum upplýsingar og aðstoð við ýmislegt s.s. gerð ferilskrár, atvinnu- og húsnæðisleit og margt fleira.
 • Námsaðstoð - Krakkanám Námsaðstoð er í boði víðsvegar um land en þar aðstoða sjálfboðaliðar nemendur á ýmsum aldri við námið.
 • Skaðaminnkunarverkefni - Frú Ragnheiður & Ungfrú Ragnheiður - Frú Ragnheiður er skaðaminnkunarverkefni sem hefur það markmið að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu, eins og heimilislausra og fólks með fíknivanda. Einstaklingar geta fengið heilbrigðisaðstoð en einnig er boðið upp á nálaskiptaþjónustu. Athugið að að jafnaði er biðlisti eftir því að gerast sjálfboðaliði hjá Frú Ragnheiði. Ungfrú Ragnheiður er starfrækt á Akureyri.

Kynningarmyndband um sjálfboðaliða

Hér má sjá kynningarmyndband um Rauða krossinn á Íslandi


Kynningarmyndband