• Haiti_erlasvava_IMG_8035

Alþjóða­hreyfing

Ein mesta orrusta í styrjöldinni milli Austurríkismanna og Frakka um miðbik 19. aldar átti sér stað á völlunum við Solferino á Norður-Ítalíu árið 1859. Þar börðust liðlega 300 þúsund manns og undir lokin lágu um 40 þúsund í valnum fallnir eða særðir.

Ungur svissneskur kaupsýslumaður, Henry Dunant að nafni, átti leið um héraðið á sama tíma og það sem hann sá fékk mikið á hann. Hann tókst á hendur að skipuleggja hjálparstarf á vígvellinum með aðstoð kvenna úr nærliggjandi þorpum en hjúkrunarsveitir hersins voru óskipulagðar og réðu engan veginn við verkefnið. Hjálparstarfið fór fram undir kjörorðinu "Tutti fratelli" eða „allir eru bræður." Þetta þýddi að hjálparliðið kom öllum særðum hermönnum á vígvellinum til hjálpar án tillits til þess hvaða liði þeir tilheyrðu. Þarna birtist í hnotskurn það hlutleysi sem alla tíð síðan hefur einkennt starfsemi Rauða krossins.

Þremur árum eftir þessa atburði kom út bók eftir Dunant sem hann nefndi „Minningar frá Solferino." Þar lýsir hann framgangi orrustunnar og stingur upp á því í kjölfarið að reynt verði að stemma stigu við hörmulegum afleiðingum styrjalda með því annars vegar að þjálfaðar yrðu hjálparsveitir sem hægt yrði að send á vettvang komi til styrjaldar og hins vegar að ríki heims skuldbindi sig til þess að veita sveitunum friðhelgi á vígvellinum gegn því að þær starfi fullkomlega hlutlaust og liðsmenn þeirra beri ekki vopn.

20151117_094319

Á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var árið 1864 að tilhlutan Dunants og fjögurra samlanda hans voru tillögur Dunants samþykktar og fyrsti Genfarsamningurinn um vernd særðra og sjúkra hermanna gerður í framhaldi. Jafnframt var ákveðið að hjálparsveitirnar yrðu sérstaklega merktar rauðum krossi á hvítum grunni og skyldi það vera tákn friðhelgi þeirra. Þá stofnuðu þeir „Alþjóðanefnd til hjálpar særðum hermönnum" sem hafði það að markmiði að stuðla að hjálparstarfi á vígvelli og er nefndin fyrsti vísir að Alþjóðaráði Rauða krossins.

Á árunum eftir stofnun Alþjóðaráðsins voru mynduð landsfélög Rauða krossins, eitt í hverju landi. Fljótlega kom í ljós að ríki þar sem íslam var ríkjandi trú gátu ekki sætt sig við að nota rauðan kross sem sitt merki og þau tóku flest upp rauðan hálfmána. Bæði merki hafa notið viðurkenningar síðan 1876.

https://www.youtube.com/watch?v=ZtDgtt40XuM

Rauði krossinn nú á dögum

Árið 1919 mynduðu félög Rauða krossins og Rauða hálfmánans með sér samtök, Alþjóðasamband félaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans, sem í daglegu máli eru oftast kölluð Alþjóðasamband Rauðakrossfélaga. Nú eru landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans orðin 192. Landsfélögin mynda saman Alþjóðaráðið og Alþjóðasamband Rauða krossins. Fjórða hvert ár koma aðilar hreyfingarinnar saman ásamt fulltrúum ríkisstjórna sem hafa undirritað Genfarsamningana á alþjóðlegri ráðstefnu þar sem fjallað er um alþjóðleg mannúðarmál og þróun mannúðarlaga.     

Munurinn á starfsemi Alþjóðaráðsins og Alþjóðasambandsins er sá að Alþjóðaráðið er sjálfstæð stofnun sem einbeitir sér að hjálparstarfi á stríðssvæðum, auk þess sem það vinnur öflugt starf við útbreiðslu á þekkingu um Genfarsamninganna, en Alþjóðasambandið er samband aðildarfélaganna og vinnur að hjálparstarfi utan vígvalla, einkum í kjölfar náttúruhamfara. Þá hefur það ákveðnu hlutverki að gegna við þróun og uppbyggingu landsfélaga.