• 12715678_753280924802808_47

1-1-2 dagurinn er í dag

11. febrúar 2016

 

112-dagurinn hefur verið haldinn hér á landi samfleytt frá árinu 2005. Að þessu sinni er áhersla lögð á umfjöllun um almannavarnir. Sjónum er ekki aðeins beint að hlutverki 112 og viðbragðsaðila heldur einnig að því hvernig allur almenningur tekur þátt í almannavörnum með viðbúnaði og viðbrögðum við vá.

 

112-dagurinn er ævinlega haldinn 11. febrúar (11.2.). Hann er samstarfsverkefni Neyðarlínunnar og fjölda aðila sem tengjast neyðarnúmerinu með ýmsum hætti. Þeir eru: Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslan, Landspítalinn, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Vegagerðin.

 

112 í 20 ár
112-dagurinn hefur sérstaka þýðingu að þessu sinni því 1. janúar síðastliðinn voru liðin 20 ár síðan neyðarnúmerið 112 var tekið í notkun. Það leysti af hólmi 146 mismunandi neyðarnúmer viðbragðsaðila. 112 er samræmt neyðarnúmer Evrópu og er dagurinn haldinn víða um álfuna til að minna á að aðeins þarf að kunna þetta einfalda númer til þess að fá aðstoð í neyð.

 

Markmiðið með 112-deginum er að kynna neyðarnúmerið 112 og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund fólks um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Markmið dagsins er enn fremur að efla samstöðu og samkennd þeirra sem starfa að forvörnum, björgun og almannavörnum og undirstrika mikilvægi samstarfs samhæfingar.

 

Í tilefni dagsins var gefið út blað sem nálgast má hér.