29. september 2004 : Hjálparstarf í kapphlaupi við tímann



Gunnar Hersveinn er blaðamaður á Morgunblaðinu og birtist grein þessi í blaðinu 19. september 2004.

27. september 2004 : 2.500 sjálfboðaliðar óskast!

Þorkell Þorkelsson ljósmyndari, Kristján Sturluson varaformaður Rauða krossins, Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Ellert Schram forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands opnuðu ljósmyndasýningu sem er tileinkuð börnum í stríði í dag og hófu um leið átak til að safna 2.500 sjálfboðaliðum til að ganga til góðs.

Rauði kross Íslands ætlar að freista þess að fá 2.500 sjálfboðaliða til að safna fé til styrktar stríðshrjáðum börnum í landssöfnun félagsins Göngum til góðs, sem fram fer laugardaginn 2. október. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson er verndari söfnunarinnar og kynnti hana við opnun ljósmyndasýningar Þorkels Þorkelssonar tileinkaðri börnum í stríði í Smáralind í dag.

Á fundinum í dag minnti Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins á að tvær milljónir barna hefðu látið lífið í stríðsátökum á síðastliðnum tíu árum og að áður en dagurinn liði væri líklegt að 25 börn hefðu stigið á jarðsprengju. Mikil þörf væri á aðstoð við yngstu fórnarlömb stríðs.

22. september 2004 : Flugslysaundirbúningur í hámarki

Fulltrúar Rauða kross Íslands á undirbúningsfundi vegna flugslysaæfingarinnar.
Næstkomandi laugardag 25. september verður æft eftir nýrri flugslysaáætlun fyrir Reykjavíkurflugvöll.

Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu hafa staðið í undirbúningi undanfarnar vikur og kemur stór hópur sjálfboðaliða til með að æfa viðbrögð sín á laugardaginn.

Fjöldahjálparstjórn sem skipuð verður fulltrúum úr neyðarnefnd Reykjavíkurdeildar Rauða krossins stýrir aðgerð fjöldahjálparinnar og verður hún staðsett í húsnæði deildarinnar að Laugavegi 120.

19. september 2004 : Þögn áfallsins víkur fyrir hamarshöggum

Sólveig Ólafsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins við störf sín í Grenada.
Grenada-búar hafa orðið fyrir miklu áfalli. Áður var þess friðsæla eyja í Karabíska hafinu paradís á jörðu. Fellibylur hafði ekki herjað á eyjuna í tæplega hálfa öld og því var fólk alls ekki búið undir þær hrikalegu hamfarir sem dundu þar yfir 7. september.

Fellibylurinn Ivan, sem hefur einnig gengið undir nafninu Ivan grimmi, þaut yfir eyjuna með gríðarlegum látum og eyrði engu. Níu af hverjum tíu byggingum eyjarinnar hafa orðið fyrir skemmdum, rafmagnið er farið og vatnsbirgðir voru af mjög skornum skammti fyrstu dagana eftir að ósköpin dundu yfir. Flest samskiptakerfi liggja niðri, allar símalínur og flestar farsímastöðvar eru ónýtar og engir fjölmiðlar ? hvorki útvarp, sjónvarp né dagblöð ? hafa starfað í landinu síðan bylurinn gekk yfir.

17. september 2004 : Veglegar gjafir til hjálparstarfs

9. september 2004 : Samstarfsverkefni Kvennaathvarfsins og Urkí

Um miðjan september hefst samstarf Kvennaathvarfsins við Ungmennadeild Reykjavíkurdeildarinnar og Háskóla Íslands um sjálfboðastarf til að sinna þeim börnum sem koma með mæðrum sínum í Kvennaathvarfið. 

Sjálfboðaliðar munu koma á laugardögum í vetur og gera eitthvað skemmtilegt með börnum sem dvelja í athvarfinu eða hafa dvalið þar. Markmiðið er að létta börnum dvölina í athvarfinu með markvissu félagsstarfi og sömuleiðis létta undir með mæðrunum. 

Verkefnið er unnið í samvinnu við félagsráðgjöf við Háskóla Íslands undir handleiðslu Steinunnar Hrafnsdóttur og mun stór hluti sjálfboðaliðanna koma þaðan en sjálfboðastarfið er hluti af námi fólks við deildina.

6. september 2004 : Rætt um börn í stríði á alþjóðlegum sumarbúðum á Snæfellsnesi

 

Um þrjátíu ungmenni taka þátt í sumarbúðunum og ræða þar um málefni barna í stríði.
Um þrjátíu ungmenni frá átta löndum komu saman á Alþjóðlegum sumarbúðum Rauða kross Íslands á Snorrastöðum á Snæfellsnesi um helgina og ræddu um málefni barna í stríði. Fregnir bárust af því að hundruð barna hefðu látið lífið eftir að hafa verið tekin í gíslingu í Norður-Ossetíu í Rússlandi. Undirstrikuðu fréttirnar alvarleika umræðnanna og settu svip sinn á þær.

Á síðasta áratug er talið að tvær milljónir barna hafi látið lífið af völdum styrjaldarátaka. Í umræðunum á Snæfellsnesi var rætt um málefni barnahermanna, barna á flótta og barna sem er misþyrmt í ólgu átaka víða um heim.



2. september 2004 : Rauða kross strákurinn Hjálpfús heimsækir leikskólana

Kamilla Ingibergsdóttir framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar Rauða krossins afhendir Elísabetu Eyjólfsdóttur leikskólastjóra námsefnið „Hjálpfús heimsækir leikskólann."
Deildir Rauða kross Íslands eru þessa dagana að afhenda leikskólum um allt land námsefnið „Hjálpfús heimsækir leikskólann", sem hefur það markmið að kenna leikskólabörnum mikilvægi þess að rétta fólki hjálparhönd þegar eitthvað bjátar á.

Námsefnið inniheldur litla brúðu og kennsluefni fyrir sex sögustundir. Rauða kross strákurinn Hjálpfús er í formi fingurbrúðu sem leikskólakennarar geta notað til að leiða börnin í gegnum námsefnið.

„Þetta efni er eins og sniðið að stefnu okkar í leikskólanum Álfaheiði," sagði Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri þegar fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins afhentu henni námsefnið. „Við leggjum mikla áherslu á lífsmennt, sem byggir á nokkrum grundvallargildum eins og friði, virðingu og umburðarlyndi."

1. september 2004 : Rauða kross strákurinn Hjálpfús heimsækir leikskólana

 
Kamilla Ingibergsdóttir, framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar, afhendir Elísabetu Eyjólfsdóttur fræðslupakkann.  
Deildir Rauða kross Íslands eru þessa dagana að afhenda leikskólum um allt land námsefnið „Hjálpfús heimsækir leikskólann", sem hefur það markmið að kenna leikskólabörnum mikilvægi þess að rétta fólki hjálparhönd þegar eitthvað bjátar á.

Námsefnið inniheldur litla brúðu og kennsluefni fyrir sex sögustundir. Rauða kross strákurinn Hjálpfús er í formi fingurbrúðu sem leikskólakennarar geta notað til að leiða börnin í gegnum námsefnið.