28. apríl 2005 : Rætt um árangursríkt samstarf innan Rauða krossins

David Lynch frá landsskrifstofu Rauða kross Íslands, Hulda Perry úr Reykjavíkurdeild Rauða krossins, Aurelia Balpe starfsmaður Alþjóðasambandsins og Garðar Guðjónsson formaður Kópavogsdeildar.
Kópavogsdeild Rauða krossins fékk í gær heimsókn frá Aureliu Balpe sem starfar á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins í Genf í Sviss. Aurelia er að kynna sér samstarf landsfélaga Rauða krossins, þ.á.m. vinadeilda-samstarf. Í heimsókninni fræddist hún m.a. um samstarf Kópavogsdeildar við deildir innan Rauða krossins í Albaníu en Kópavogsdeild tekur nú þátt í verkefni í Albaníu sem snýr að því að sporna við miklu brottfalli barna úr grunnskóla.
 

28. apríl 2005 : Umræða um árangursríkt samstarf innan Rauða krossins

David Lynch frá landsskrifstofu Rauða kross Íslands, Hulda Perry úr Reykjavíkurdeild Rauða krossins, Aurelia Balpe starfsmaður Alþjóðasambandsins og Garðar Guðjónsson formaður Kópavogsdeildar.
Kópavogsdeild Rauða krossins fékk í gær heimsókn frá Aureliu Balpe sem starfar á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins í Genf í Sviss. Aurelia er að kynna sér samstarf landsfélaga Rauða krossins, þ.á.m. vinadeildasamstarf. Í heimsókninni fræddist hún m.a. um samstarf Kópavogsdeildar við deildir innan Rauða krossins í Albaníu en Kópavogsdeild tekur nú þátt í verkefni í Albaníu sem snýr að því að sporna við miklu brottfalli barna úr grunnskóla.

Fulltrúar Kópavogsdeildar og Reykjavíkurdeildar ræddu við Aureliu um hvernig hægt væri að gera vinadeildasamstarf sem árangursríkast og tryggja að unnið sé að sameiginlegum markmiðum.
 

28. apríl 2005 : Mikið uppbyggingastarf framundan á flóðasvæðum

Þórir Guðmundsson flutti þetta erindi um hjálparstarfið í Asíu á landsþingi Lions á Íslandi þann 23. apríl.

27. apríl 2005 : Upplýsingar um evrópusamstarf komið á vefinn


Í maí nk. verður haldinn samstarfsfundur meðal ungmennahreyfinga Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Evrópu, European Cooperation Meeting, ECM. Þessi fundur hefur verið haldin frá 1992 og höfum við tekið þátt nánast frá upphafi.

Fundurinn er til þess að kynnast því hvað er að gerast hjá öðrum og eins að kynna sitt starf. Einnig eru pólitísk mál innan hreyfingarinnar rædd, staða ungmennahreyfingarinnar innan alþjóðasamfélaginu, staða ungmennahreyfingarinnar innan landsfélaga og eins staða ungmennadeildanna innan deilda.

Ýmis mál eru tekin fyrir, á síðasta fundi var rætt um stefnuyfirlýsingu Alþjóðasambandsins 2010, sem er hægt að nálgast á Landsskrifstofu og stefnuna um ungmennamál sem var samþykkt 1999 sem hægt er að nálgast hér.

Hópavinna er algeng á svona fundum, en henni hefur verið skipt upp á tvo vegu, annarsvegar er verið að ræða verkefni, hinsvegar önnur mál eins og samstarf, hlutverk, aukin samskipti á milli ungmennahreyfinga og fleira.

23. apríl 2005 : Vorfundur deilda á Norðurlandi

Sjálfboðaliðarnir sem fóru út til   Mósambik í fyrra mánuði sögðu frá ferð sinni í máli og myndum og lögð var fyrir fundinn  viljayfirlýsing, sem svæðisfulltrúi undirritaði úti í Mósambik ásamt formanni Rauða kross deildarinnar í Mapútó. Í henni kemur fram tillaga að samskiptium og markmiðum sem deildirnar setja sér í náinni framtíð, ásamt næstu skrefum. Voru fundarmenn samþykkir henni og til viðbótar settu menn sér þau markmið að fjölga virkum sjálfboðaliðum um 2-4 hjá hverri deild á norðurlandi næsta árið, en deildin í Mapútó er með það markmið að fjölga virkum sjálfboðaliðum hjá sér úr 500 í 700.

22. apríl 2005 : Aukin aðsókn í Dvöl

Sólrún starfsmaður í Dvöl og fleiri í föstudagskaffi.

Undanfarnar vikur hefur verið mjög gestkvæmt í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða í Kópavogi. Aðsóknin í athvarfið hefur verið stigvaxandi frá áramótum þó svo að munur sé á fjölda gesta milli daga.
-Það er alltaf töluverður fjöldi af fastagestum en upp á síðkastið hafa nýir gestir bankað upp á í auknum mæli. Auk þess hafa einstaklingar verið að koma aftur eftir nokkra fjarveru, segir Sólrún Helga Ingibergsdóttir, starfsmaður í Dvöl.


-Sjaldgæft er að fólk komi í Dvöl upp á eigin spýtur, heldur er það oftast fyrir tilstilli og með stuðningi aðila innan heilbrigðiskerfisins. Aðilar í stuðningsteymi fyrir geðfatlaða, sem sett var saman í fyrra, hafa til að mynda verið iðnir við að benda fólki á Dvöl og aðstoða einstaklinga við að stíga þangað fyrstu skrefin. Það er mjög mikilvægt að fólki sé fylgt nokkrum sinnum í Dvöl til að gera einstaklingum auðveldara með að aðlagast, annars er hætta á að þeir komi aldrei aftur, segir Sólrún.

14. apríl 2005 : Rokktónlist notuð til að hefta útbreiðslu alnæmis í Ekvador

Hugo Ferro, söngvari hljómsveitarinnar Cacería de lagartos hittir aðdáendur sína þegar geisladiskur sveitarinnar kom formlega út.
„Þú heldur kannski að það komi ekki fyrir þig
að það komi aðeins fyrir þá sem eru ekki hreinir.
Finnst þér þú vera öruggur? Hver getur fullvissað þig um það?
Það deyr alltaf einhver í rússneskri rúllettu.
Og ef prófið reynist jákvætt? Hvað um það?
Hvað muntu þá gera við líf þitt?”

Svona dægurlagatextar eru sláandi. Þeir segja ungu fólki að það getur orðið fyrir beinum áhrifum af þessu vandamáli. Þetta er kannski fjarlægt, en á hverjum degi verður ný fjölskylda fyrir þessu.

Rauði krossinn í Ekvador notar tónlist í forvarnir fyrir ungt fólk, og textunum er ætlað að svara tveimur spurningum sem brennur á öllum unglingum; hvaða upplýsingar hefurðu og hvernig get ég nálgast þær? „Það er erfitt að ræða þessi mál en við verðum að vera með áróður sem höfðar til ungs fólks, en sá hópur er í mestri hættu á að smitast af alnæmi. Ungu fólki finnst ekkert illt geta hent sig og að framtíðin sé björt,” segir Guillermo Yánes, svæðisstjóri hjá ungliðahreyfingu Rauða krossins í Ekvador.

14. apríl 2005 : Pistlar frá Serbíu

Deildir á Suðurlandi og Suðurnesjum eru í Serbíu að hitta vinadeild í Sremski Karvovci. Njörður Helgason svæðisfulltrúi er einn þeirra og sendir pistla frá ferðinni. Nýjasta bréfið er efst.  Neðst er myndasýning frá Nirði. Hægt er að sjá myndirnar í stærri útgáfu með því að smella á þær.


16.05.2005
Sæl öll sömul. Héðan frá Seríu er allt gott að frétta. Hitinn um 20 stig, sól og blíða og allir hinir hressustu.

Fórum í gær til Novisad. Komum á skrifstofu deildarinnar og áttum fund með deildinni. Áttum fund með lögreglustjóranum í Sremski Karlovci eða SK. Hann fór yfir málefni lögreglunnar og hvernig deildin í SK hefur komið á forvörnum og hjálpað til við að vinna á vandamálum svo sem vegna eiturlyfja. Í eftirmiðdaginn komum við aftur til Sremski Karlovci. Áttum fund með deildarfólkinu þar sem hver sagði frá sínum verkefnum. Okkur var kynnt áætlun deildarinnar hér í bænum. Fjögur áhugaverð verkefni. Fórum yfir þau á vorfundinum í Keflavík 30. apríl.

Í dag höfum við átt fund með bæjarstjóra SK.Við snæddum með honum hádegisverð á fallegum stað, útivistarsvæði héraðsins. Nú eftir hádegi fórum við aftur til SK í heimsókn í húsnæði deildarinnar. Þar var allt fullt út úr dyrum af ungu fólki frá um 10 ára til 18 ára að vinna i listsköpunarverkefnum.

Við eigum eftir að funda með deildarfólkinu frekar i dag og fara i ferð um bæinn.
Við hlökkum til að koma heim og segja ykkur fra ferðinni.
Vonandi hafa það allir gott heima.


14.05.2005
Höfum það gott hér í Serbíu.
Byrjuðum daginn á að skoða blóðsöfnunina í Sremski Karvovci. Íbúar bæjarins eru í þriðja sæti í Serbíu yfir blóðgjafa. Sjálfboðaliðar deildarinnar eru öflugir að hjálpa til, skrá og gefa veitingar. Athyglivert að blóðgjafar hér eiga rétt á tveggja daga fríi eftir blóðgjöf. Það dregur fólk að. Þetta var afnumið tímabundið en þá dróst blóðgjöf saman um 20% en fór í sama farið þegar fríið var gefið aftur.

Skoðuðum síðan stað þar sem sígaunar búa. Þar býr fólk við vægast sagt ömurlegar aðstæður. Í kofum sem við mundum ekki bjóða uppá sem útihús á Íslandi. Það mátti einnig marka togstreitu á milli sígaunanna og flóttamanna sem búa orðið í fínum húsum í brekkunni á móti sígaunabyggðinni.

Fórum í skoðunarferð um nágrenni bæjarins í dag. Skoðuðum tvö klaustur rétttrúnaðarkirkjunnar. Falleg hús og kirkjurnar eru hrein listaverk.

Áttum seinni partinn fund með deildarfólkinu í SK. Farið var yfir verkefni deildanna heima og verkefni deildarinnar hér í SK. Þau eru þó nokkur og almennt öflugt starf hjá deildinni. Talsverðan kvíða mátti merkja fyrir framtíðinni. Bæði vegna aðstæðna hér í landi og samfélagi. Nánar verður rætt um lok vinadeildasamstarfsins við deildafólkið á morgun. Allir eru þó upplýstir um lokin en kvíða því.

Á morgun verður farið til Novri Sad og fundað með fulltrúum Rauða krossins og seinni partinn í SK.

13. 04. 2005.
Sælt veri fólkið.
Sendum ykkur bestu kveðjur héðan frá Serbíu.
Við byrjuðum í morgun á að hitta fulltrúa Rauða krossins í Serbíu og Svartfjallalandi, Serbneska Rauða krossins og Alþjóða Rauða krossins. Áttum með þeim góða fundi þar sem farið var yfir stöðu landsfélagsins út frá hliðum heimamanna og augum utanaðkomandi frá Alþjóða Rauða krossinum. Fórum eftir fundina til Sremski Karlovci þar sem við verðum fram á sunnudag.

Í dag erum við búin að hitta fólkið frá Rauða kross deildinni og skoða aðstöðu deildarinnar. Hún er hin fínasta. Gott fundarherbergi, eldhús og aðstaðan fyrir ungmennastarfið er orðin flott. Við fórum í súpueldhúsið en þar er hafin starfsemi á ný. Alls eru afgreiddar um 150 máltíðir á dag til einstaklinga. Þau hjá deildinni sögðu að hægt væri að afgreiða um helming af þörfinni á staðnum. Þá má ekki gleyma Íslandsherberginu í húsinu. Þar eru hlutir og myndir frá Íslandi.

Við höfum farið í skoðunarferð um bæinn og séð marga áhugaverða staði. Næstu daga höldum við áfram að funda og ferðast um nágrennið með deildarfólkinu hér í Sremski Karlovci.

Hér er skýjað og ekki heitt. Verst að inni á gistiheimilinu sem við erum á er hitinn lítið hærri en úti.

12. apríl 2005 : Feiknagóð fjársöfnun sex stúlkna

Dagbjört Rós, Harpa Hrönn og Dagbjört Silja.

Sex stúlkur í Kópavogi hafa á undanförnum dögum safnað samtals 18.781 kr. fyrir hjálparstarfi. Stúlkurnar afhentu Kópavogsdeild Rauða krossins ágóðann af söfnun sinni sem deildin hefur komið áleiðis í hjálparsjóð Rauða kross Íslands til styrktar hjálparstarfi erlendis. Eins og greint var frá hér á vefnum í síðustu viku byrjuðu vinkonurnar Dagbjört Silja og Harpa Hrönn að safna fé fyrir hjálparstarfi í tóma öskju sem varð á vegi þeirra. Þær fengu síðan til liðs við sig vinkonu sína, Dagbjörtu Rós Jónsdóttur, og söfnuðu samtals 10.976 kr. Stelpurnar eru allar í 5. bekk Kársnesskóla. Þrjár aðrar vinkonur sáu til stelpnanna og ákváðu að feta í fótspor þeirra. Það voru þær Álfrún Kolbrúnardóttir, Helga Jóna Gylfadóttir Hansen og Stefanía Ósk Hjálmarsdóttir, 9 og 10 ára nemendur í Kópavogsskóla. Þær söfnuðu alls 7.805 kr.
Stefanía Ósk, Álfrún og Helga Jóna.

11. apríl 2005 : Kamilla kveður sem framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar

Garðar Guðjónsson formaður kveður Kamillu.
Kamilla Ingibergsdóttir hefur lokið störfum sem framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar Rauða krossins. Kamilla hóf störf í febrúar 2004 og leysti af Fanneyju Karlsdóttur sem fór í leyfi. Fanney hefur nú snúið aftur til starfa eftir dvöl í Kína og fæðingarorlof.

11. apríl 2005 : Íslenskur sendifulltrúi tekur við starfi yfirmanns spítalaþjónustu Alþjóða Rauða krossins

Pálína að störfum í Austur Tímor þar sem hún stjórnaði spítala á árunum 2000 og 2001.
Pálína Ásgeirsdóttir sendifulltrúi tekur við starfi yfirmanns spítalahjúkrunarþjónustu Alþjóða Rauða krossins í Genf um næstu mánaðarmót.

Pálína mun starfa að uppbyggingu Rauða krossins í þeim löndum þar sem félagið aðstoðar sjúkrahús. Pálína hefur langa reynslu af störfum fyrir Rauða krossinn en síðan 1985 hefur hún unnið sem almennur hjúkrunarfræðingur, svæfingarhjúkrunarfræðingur og stjórnandi. 

6. apríl 2005 : Skyndihjálparnámskeið á Stöðvarfirði

Stöðvarfjarðardeild hélt upprifjunarnámskeið í skyndihjálp fyrir starfsfólk grunnskóla, leikskóla og heimaþjónustu á Stöðvarfirði þann 5. apríl.  Námskeiðið var haldið í Grunnskólanum á Stöðvarfirði og var þátttaka mjög góð.  Leiðbeinandi var Óskar Þór Guðmundsson lögreglumaður á Fáskrúðsfirði.

6. apríl 2005 : Skyndihjálparnámskeið á Stöðvarfirði

Stöðvarfjarðardeild hélt upprifjunarnámskeið í skyndihjálp fyrir starfsfólk grunnskóla, leikskóla og heimaþjónustu á Stöðvarfirði þann 5. apríl.  Námskeiðið var haldið í Grunnskólanum á Stöðvarfirði og var þátttaka mjög góð.  Leiðbeinandi var Óskar Þór Guðmundsson lögreglumaður á Fáskrúðsfirði.

6. apríl 2005 : Vinadeildarsamstarf Reykjavíkurdeildar

Í apríl 2003 var undirritaður samningur milli Reykjavíkurdeildar og gambíska Rauða krossins um að hefja vinadeildarsamstarf. Í framhaldi af þeim samningi gerðu samstarfsaðilarnir viljayfirlýsingu í nóvember sl. um að gengið yrði til samninga við tvær gambískar deildir, Banjul og Kanifing Municipality (KM) og var viljayfirlýsingin staðfest með undirritun samnings þann 14. febrúar sl.

5. apríl 2005 : Duglegar Kópavogsstelpur safna fyrir hjálparstarfi

Dagbjört Silja og Harpa Hrönn.

Það var ekkert aprílgabb þegar tvær hressar stelpur, Dagbjört Silja Bjarnadóttir og Harpa Hrönn Stefánsdóttir, bönkuðu upp á 1. apríl og færðu Kópavogsdeild Rauða kross Íslands 6.363 kr. til styrktar hjálparstarfi í Asíu. Stelpurnar höfðu verið að safna að undanförnu eftir skóla og um helgar með góðum árangri. Fólk sem varð á vegi þeirra var duglegt að gefa þótt ekki hefðu allir verið með reiðufé á sér.

- Sumir tæmdu veski sín og vasa af smápeningum og afhentu okkur. Við fengum hugmyndina að þessari söfnun þegar við fundum tóma öskju úti á götu og ákváðum að safna í hana peningum til styrktar hjálparstarfi. Við horfum alltaf á fréttir og höfum þannig fylgst með ástandinu í Asíu vegna flóðbylgjunnar á annan í jólum. Við heyrðum líka um þetta í skólanum okkar sem tók þátt í söfnuninni Neyðarhjálp úr norðri, sögðu þær Dagbjört Silja og Harpa Hrönn sem eru nemendur í 5. bekk Kársnesskóla.

4. apríl 2005 : Neyðarvarnadagur starfsmanna landsskrifstofu

Starfsmenn landskrifstofunnar kynna sér hlutverk Neyðarlínunnar í Björgunarmiðstöðinni.
Neyðarvarnadagur landsskrifstofu Rauða kross Íslands 2005 var haldinn 1. apríl sl. Þessi dagur er nýttur í fræðslu til starfsmanna til að fara yfir hlutverk landsskrifstofu og starfsmanna í fjöldahjálp og félagslegu hjálparstarfi sem er hlutverk Rauða kross Íslands í almannavarnakerfinu. Í því felst m.a. að styðja Rauða kross deildir í þeirra starfi á neyðartímum sem og í undirbúningi neyðarvarna.

Á landsskrifstofu fer einnig fram úrvinnsla skráningar og upplýsingargjöf til aðstandenda á neyðartímum, aðstoð við húsnæðismál, fjársafnanir og félagslega uppbyggingu eftir áfall.