30. júní 2005 : Sumarlokun

Skrifstofa og sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar er lokuð vegna sumarleyfa en opnar aftur mánudaginn 15. ágúst. Opnunartíminn verður þá sem fyrr alla virka daga kl. 11-15. Ef nauðsyn krefur er hægt að hafa samband við formann deildarinnar, Garðar H. Guðjónsson á [email protected].

30. júní 2005 : Námsvist við alþjóðlegan menntaskóla

Auglýst er eftir umsóknum um skólavist við alþjóðlegan menntaskóli í Fjaler í Noregi. Nám við skólann tekur tvö ár og því lýkur með viðurkenndu alþjóðlegu stúdentsprófi, International Baccalaureat Diploma (IB). Kennsla fer fram á ensku.

Alþjóðlegi menntaskólinn í Fjaler í Noregi er rekinn af Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Íslensk stjórnvöld eiga aðild að rekstri skólans og býðst árlega skólavist fyrir einn nemanda. Nemandi þarf sjálfur að greiða uppihaldskostnað sem nemur um það bil 20.000 norskum krónum á ári og auk þess ferðakostnað. Nánari upplýsingar um skólann má finna á heimasíðu skólans: http://www.rcnuwc.uwc.org

27. júní 2005 : Gestir athvarfa grilla saman

Pylsurnar runnu ljúflega niður í viðstadda í Guðmundarlundi.

Gestir í athvörfunum Dvöl, Vin og Læk, sem eru athvörf Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu, grilluðu saman í Guðmundarlundi í Kópavogi 21. júní síðastliðinn. Gestirnir mættust á miðri leið því athvörfin þrjú eru í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Í Guðmundarlundi fengu viðstaddir að heyra sögu lundarins og farin var smá ganga um skóginn. Í grillveislunni voru kosnir pylsukóngar (þeir sem borðuðu flestar pylsur) og sunginn var afmælissöngur fyrir einn gestinn sem átti 44 ára afmæli þennan dag. Ætlunin er að gestir athvarfanna fari aftur í Guðmundarlund 20. júlí og grilli saman.

27. júní 2005 : Alþjóðlegar sumarbúðir

Alþjóðlegar sumarbúðir í Uzbekistan verða haldnar 10. til 17 september 2005.

Áhugasamir hafi samband við Sólveigu á landsskrifstofu en umsóknarfrestur rennur út 30. júlí.

27. júní 2005 : Alþjóðadagur flóttamanna

Ávarp framkvæmdastjóra Sameinuðu Þjóðanna á Alþjóðadegi flóttamanna 20. júní 2005.

26. júní 2005 : Þeir sem eftir lifa þurfa að taka þátt í uppbyggingunni á flóðasvæðum

Johan Schar er yfirmaður hjálparstarfs Alþjóða Rauða krossins á flóðasvæðum.

23. júní 2005 : Sendifulltrúi Alþjóðasamtaka Rauða krossins særðist í Aceh

Starfsmaður Alþjóða Rauða krossins og Rauða hálfmánans varð fyrir skoti í gær, 22. júní, þegar hann var á ferð á vegi skammt frá Lamno á vesturströnd Aceh-héraðs á Súmötru.

Atburður þessi átti sér stað eftir kl. 8 að kvöldi. Eva Young, hjálparstarfsmaður frá Hong Kong, var í fjórhjóladrifnum bíl sem var merktur Rauða krossinum. Hún særðist en hermaður sem var í fylgd með henni slapp ómeiddur. Eva var lögð inn á sjúkrahús á staðnum sem rekið er af samtökunum Læknar án landamæra. Hún særðist á andliti og hálsi en er með meðvitund og ástand hennar er stöðugt. Hún var flutt til Medan í morgun og var flutt þaðan til Singapore.

21. júní 2005 : Fjöldi krakka safnar fyrir hjálparstarfi

Sóldís Birta, Ólöf María og Dagbjört Silja.
Nokkrir hópar af krökkum hafa að undanförnu bankað upp á hjá Kópavogsdeild Rauða kross Íslands og afhent deildinni ágóðann af fjársöfnun sinni sem hefur að mestu farið fram með tombólum og flöskusöfnunum víðs vegar um Kópavog. Í maí söfnuðust samtals 20.871 kr. fyrir tilstilli krakkanna. Fjármagnið fer í að styrkja börn í neyð í gegnum verkefni Rauða krossins erlendis. Kópavogsdeild Rauða krossins þakkar þessum röggsömu Kópavogskrökkum kærlega fyrir dugnaðinn og bæjarbúum fyrir að hafa lagt þeim lið. Myndir af hópunum eru neðar í fréttinni.

21. júní 2005 : Stuðningur við geðsjúka í Gambíu

Í Fataflokkunarstöð Rauða krossins þar sem gengið var frá sendingunni til Gambíu.
Gestir og starfsfólk Vinjar, athvarfs fyrir geðfatlaða, hafa undanfarnar vikur fyllt gám af vörum sem verður síðan sendur á geðsjúkrahús í Banjul í Gambíu. Leitað var til fyrirtækja og fóru í gáminn efnisafgangar, saumavélar og tæki til að nota við saumaskapinn, stílabækur og blýantar. Einnig var laumað með persónulegum gjöfum og bréfum frá Vinjarfólkinu.

Gestir Vinjar hafa verið í bréfasambandi við geðsjúka í Banjul. Á síðastliðnu hausti kom sjálfboðaliði frá gambíska Rauða krossinum í Banjul í heimsókn í Vin og fræddi þau um land og þjóð og aðstæður geðsjúkra á svæðinu. Hann fór síðan heim með bréf, myndir, fræ, tónlist, myndbönd og gjafir handa sjúklingunum á geðsjúkrahúsinu.

20. júní 2005 : Mannúð og menning - námskeið í júlí

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands heldur sumarnámskeiðið „Mannúð og menning“ 4.-8. júlí í Hamraborg 11, 2. hæð. Námskeiðið er fyrir börn á aldrinum 9-11 ára og stendur kl. 9-16 alla dagana.

Á námskeiðinu er lögð áhersla á fræðslu og leiki í tengslum við hugsjónir Rauða krossins um mannúð og óhlutdrægni. Þátttakendur fræðast um starf Rauða krossins, skyndihjálp, mismunandi menningarheima og umhverfið.

Skráning í síma 864 6750 fyrir 29. júní. Verð: 7.500 kr.

20. júní 2005 : Ísland og flóttamenn

Atli Viðar er verkefnisstjóri Rauða kross Íslands

13. júní 2005 : Frábær aðsókn á Börn og umhverfi

Þátttakendur á Börn og umhverfi.

Námskeiðið Börn og umhverfi hefur verið afar vinsælt að undanförnu hjá Kópavogsdeild en þar læra ungmenni á aldrinum 12-15 ára bæði umgengni og fram-komu við börn og slysaforvarnir og skyndihjálp. Þrjú námskeið urðu fljótt fullbókuð og fjöldi skráninga er kominn á fjórða námskeiðið sem hefst 15. júní. Upphaflega stóð til að halda tvö námskeið en sökum mikillar eftirspurnar var fyrst sett á eitt aukanámskeið og svo annað. Enn eru nokkur laus pláss fyrir áhugasama á seinna auka-námskeiðið. Eins eru laus pláss á námskeiðið Mannúð og menning 4.-8. júlí sem miðast við þátttakendur á aldrinum 9-11 ára.

9. júní 2005 : Dvalarfólk í ferðalagi á Suðurlandi

Ferðalangar úr Dvöl og Læk í Skálholti.

Gestir og starfsfólk í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, fóru í ferðalag 7. júní ásamt fólki úr Læk, athvarfi í Hafnarfirði. Í ferðalaginu var áð á merkum stöðum á Suðurlandi. Starfsmaður Árnesingadeildar Rauða kross Íslands, Ragnheiður Ásgeirsdóttir, slóst í för með hópnum og veitti honum leiðsögn. Fyrst var farið í dýragarðinn í Slakka þar sem ferðalangar skoðuðu íslensk húsdýr sem höfðu þó mörg skriðið í skjól í rigningunni. Því næst var ekið að Skálholti þar sem Árnesingadeild bauð hópnum upp á dýrindis súpu og brauð.

8. júní 2005 : Glatt á hjalla í hópefli heimsóknavina

Ingrid og Gróa Margrét fluttu sónötur í hópeflinu.
Glatt var á hjalla í síðasta hópefli heimsóknavina fyrir sumarið sem haldið var 7. júní í sjálfboða-miðstöð Kópavogsdeildar. Þar stigu á stokk tvær ungar Kópavogskonur, Ingrid Karlsdóttir og Gróa Margrét Valdimarsdóttir, sem eru báðar langt komnar með nám í fiðluleik. Þær fluttur nokkrar sónötur og hlutu mikið lof fyrir. Fanney Karlsdóttir, framkvæmda-stjóri Kópavogsdeildar, sagði frá fjölbreyttum verkefnum sem hafa verið ofarlega á baugi hjá deildinni að undanförnu. Að lokum tóku svo heimsóknavinir lagið við undirleik Guðrúnar Lilju Guðmundsdóttur á gítar.

3. júní 2005 : Grillveisla og gleði hjá ungum innflytjendum

María sjálfboðaliði sá um að grilla pylsurnar.
Vetrarstarfi Kópavogsdeildar með ungum innflytjendum lauk 1. júní með grillveislu í blíðskaparveðri. Veislan var haldin í garðinum í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, sem Kópavogsdeild Rauða krossins tekur þátt í að reka. Pylsurnar runnu ljúflega niður í káta krakkana og því næst var farið í vinsæla útileiki. Að lokum kvöddust sjálfboðaliðarnir og krakkarnir og þökkuðu hvert öðru fyrir veturinn. Í haust hefst að nýju viðburðaríkt vetrarstarf með krökkunum og líklegt er að einhverjir nýir nemendur sem og nýir sjálfboðaliðar taki þátt.

2. júní 2005 : Íslenskur sálfræðingur tekur þátt í að veita íbúum Sri Lanka sálfræðiaðstoð

Sjálfboðaliðar Kurchavei deildarinnar taka við hjólum frá Elínu Jónasdóttur og Dr. Gnangunalan formanni Sri Lanka Rauða krossins.
Rauði kross Danmerkur hefur verið virkur í að veita sálfræðilega og félagslega aðstoð til fólks í Trincomalee-héraðinu í Sri Lanka sem á um sárt að binda eftir flóðin í Asíu í desember.

Aðstoðin felst í að hjálpa fólkinu að jafna sig og gera því kleift að sjá fyrir sér sjálft. Danirnir sendu  með fjárhagslegri aðstoð mannréttindasamtakanna ECHO hóp sálfræðinga til Sri Lanka í janúar með það að markmiði að draga úr sálfræðilegum áhrifum þessara hörmunga.

Rauði kross Dana hefur ráðið 47 sjálfboðaliða frá Rauða krossi Sri Lanka til Trincomalee og þjálfað þá til þátttöku í þessari aðstoð. Slíka sjálfboðaliða er nú að finna í 18 miðstöðvum í fjórum héruðum í landinu.