31. október 2005 : Námskeið í skyndihjálp fyrir ungt fólk á Vestfjörðum.

Rauða Kross deildirnar á Vestfjörðum bjóða ungmennum frá 16 ára aldri á námskeið í almennri skyndihjálp þann 20.-22. nóvember n.k.  Farið verður yfir grunnatriði skyndihjálpar sem vissulega er nauðsynlegt fyrir alla að læra. Námskeiðið mun fara fram í Gamla Apótekinu, upplýsinga og menningarmiðstöð ungs fólks, sem Rauða Kross deildirnar á n. verðum vestfjörðum tóku dyggilega þátt í að koma því á laggirnar árið 2000. Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Skráning fer fram í síma 456-5700

31. október 2005 : Sjálfboðaliðar skemmtu sér á Kabarett

Leikhópurinn Á senunni bauð sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar á söngleikinn Kabarett á föstudaginn. Áhorfendur skemmtu sér konunglega enda kraftmikil sýning með úrvals listamönnum. Verkið er sýnt í Íslensku Óperunni og eru fáar sýningar eftir. Kópavogsdeild þakkar kærlega fyrir boðið og hvetur áhugasama til að skella sér á söngleikinn á meðan færi gefst. Upplýsingar um sýninguna fást á vefsíðunni:  www.kabarett.is

28. október 2005 : Héldu tombólu í Salahverfi

Laufey Jörgensdóttir og Karitas Marý Bjarnadóttir.
Þær Karitas Marý Bjarnadóttir og Laufey Jörgensdóttir færðu í dag Kópavogsdeild Rauða krossins 2.267 kr. sem þær söfnuðu með því að halda tombólu fyrir utan Nettó í Salahverfi. Upphæðin mun renna í hjálparsjóð til styrktar börnum í neyð erlendis.

Stelpurnar sögðust hafa selt fullt af dóti og eiga enn nóg í aðra tombólu sem þær stefna á að halda þegar hlýnar aftur í veðri.

28. október 2005 : Rauði kross Íslands styrkir hjálparstarf í Níger

Níger er eitt af fátækustu löndum heims

28. október 2005 : Rauði kross Íslands styrkir hjálparstarf í Níger

Níger er eitt af fátækustu löndum heims

27. október 2005 : Mörg þúsund fórnarlamba jarðskjálftanna í Pakistan gætu dáið úr vosbúð

Það er erfitt fyrir börn að skilja hvað lífið getur breyst á örskotsstundu.
Mörg þúsund fórnarlamba jarðskjálftanna í Pakistan gætu dáið ef þeir sem veikastir eru fyrir fá ekki nauðsynlega hjálp fyrir veturinn, segir í frétt frá Alþjóða Rauða krossinum. Kallað er eftir langtíma fjárframlögum til að gera aðstoðina mögulega.

Talið er að það þurfi allt að átta milljarða króna til að aðstoða Rauða hálfmánann í Pakistan við að veita hjálp á þeim svæðum sem verstu urðu úti, einkum þeim afskektustu. Aðeins tæplega þriðjungur þessarar upphæðar hefur skilað sér en von er á meiru fljótlega. Meira fjármagn er hins vegar bráðnauðsynlegt ef hjálpin á að bera árangur til lengri tíma litið, að því er fram kemur í máli Juan Manuel Suárez del Toro forseta Alþjóða Rauða krossins.

26. október 2005 : Ný stefna Kópavogsdeildar lítur brátt dagsins ljós

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar funduðu í gær um drög að nýrri stefnu og verkefnaáætlun deildarinnar. Á fundinum komu fram gagnlegar ábendingar um áherslur í starfi deildarinnar. „Ég vil þakka sjálfboðaliðum deildarinnar kærlega fyrir að hafa með þessum hætti tekið þátt í að hafa áhrif á stefnu og verkefni deildarinnar“, sagði Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, í lok fundarins.

Ný stefna deildarinnar mun ná yfir starfsárin 2006-2010 og taka við af núverandi stefnu sem hefur verið í gildi árin 2003 til 2005. Hin nýja stefna og verkefnaáætlun byggir á stefnumótun sem hefur staðið yfir undanfarnar vikur þar sem fjórir hópar, sem aðallega voru skipaðir sjálfboðaliðum deildarinnar auk starfsfólks, skiptu með sér endurskoðun á núgildandi stefnu. Öllum sem tóku þátt í stefnumótuninni eru færðar bestu þakkir fyrir.

26. október 2005 : Dagbók hörmunga

Raza vinnur við hjálparstarfið í Pakistan og heldur dagbók.

26. október 2005 : Læknisaðstoð í hjarta neyðarinnar

Spítali Rauða krossins í Muzaffarabad.
Mynd: Alþjóða Rauði krossinn / Jón Björgvinsson
Alþjóða Rauði krossinn hefur nú sett upp spítala sem rúmar 100 manns í Muzaffarabad, Kasmírhéraði í Pakistan. Spítalinn samanstendur af 30 tjöldum og er staðsettur á krikket-velli í miðbæ Muzaffarabad en þar starfa Finnar og Norðmenn eins og er.

?Fólkinu er sinnt hér á staðnum enda gefur staðsetning spítalans fjölskyldum kost á að vera saman. Það hefur reynst mjög erfitt fyrir foreldra að láta börnin sín í læknishendur í Islamabad ef þeir þurfa svo sjálfir að vera eftir í Muzaffarabad,? segir Jón Björgvinsson sem vinnur með Alþjóða Rauða krossinum í Muzaffarabad. ?Á spítalanum geta meðal annars farið fram röntgen-myndatökur og skurðlækningar.?

21. október 2005 : Slys á börnum - námskeið

Námskeiðið er haldið 24. og 26. október.
Kópavogsdeild Rauða krossins heldur námskeiðið Slys á börnum 24. og 26. október kl. 19-22 í Hamraborg 11, 2. hæð.

Á námskeiðinu er fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Leiðbeint er í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna, andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús o.fl. Námskeiðið getur gagnast öllum þeim sem umgangast börn hvort sem er í starfi eða daglegu lífi.

21. október 2005 : Þjáningar í Shamlai

Saga um þjáningar fólksins í þorpinu Shamlai í Pakistan.

21. október 2005 : Rauði krossinn veitir 20 milljónum króna úr neyðarsjóði til Pakistans

Stjórn Rauða kross Íslands ákvað í dag að veita 20 milljónum króna úr neyðarsjóði félagsins til hjálparstarfsins eftir jarðskjálftana í Pakistan. Nú stefnir í að manntjón af kulda og vosbúð verði engu minna en í sjálfum skjálftanum 8. október.

Hundruð þúsunda manna ? karlar, konur og börn - hafa ekkert skjól og vetur er genginn í garð. Eftir því sem á líður verður næturkuldinn meiri í fjallahéruðum á skjálftasvæðunum í Kasmír.

?Fyrir 20 milljónir króna er hægt að kaupa hlý vetrartjöld fyrir næstum fimm þúsund manns,? segir Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri. ?Rauði krossinn skorar á fjölskyldur að hringja í söfnunarsímann 907 2020 og gefa þannig eitt þúsund krónur.?

21. október 2005 : Gríðarleg þörf fyrir læknishjálp

Borgin Balakot varð fyrir gríðarlegum skemmdum í jarðskjálftanum.

20. október 2005 : Fjármagn nauðsynlegt til að tryggja að nauðsynleg aðstoð nái til fórnarlamba jarðskjálftanna

Verið að flytja sært fólk frá Muzaffarabad til Islamabad.
Mynd: Alþjóða Rauði krossinn /Jón Björgvinsson. 
Á meðan ástandið á skjálftasvæðunum versnar dag frá degi hefur Alþjóða Rauði krossinn áhyggjur af litlum viðbrögðum við beiðni samtakanna um stuðning við hjálparstarfið í norðurhluta Pakistan, Indlands og Afghanistan. Aðeins hefur náðst að afla 33,7% af þeim 73 milljónum svissneskra franka (um 3,4 milljarðar íslenskra króna).

Þúsundir fórnarlamba búa enn undir berum himni í miklum næturkulda. Sumir eru alvarlega slasaðir og jafnvel með sár sem drep hefur komist í. Aðgangur að hreinu vatni er takmarkaður. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu Þjóðunum er talið að um 63 þúsund manns séu slasaðir vegna skjálftanna en aðeins 16 þúsund hafa fengið læknisaðstoð. Börn og eldra fólk er í sérstakri hættu vegna ástandsins.

17. október 2005 : Ungum innflytjendum boðið á Annie

Hluti af krökkunum með Annie eftir sýninguna.
Starf Kópavogsdeildar með ungum innflytjendum tók nýja stefnu á sunnudaginn þegar sjálfboðaliðar tóku krakkana með sér á söngleikinn Annie. Krakkarnir höfðu aldrei farið í leikhús áður og forsvarsmenn Annie brugðust vel við og buðu þeim á sýninguna.

Krakkarnir vissu ekki við hverju var að búast en eftir sýninguna ljómuðu andlit þeirra af ánægju. Það vakti síðan enn meiri lukku þegar sýningarstjórinn bauð þeim upp á svið til þess að skoða leikmunina og fór svo með hópinn baksviðs til að spjalla við nokkra af leikurunum. Aðalsöguhetjan, sjálf Annie, áritaði veggspjald fyrir krakkana sem hengt hefur verið upp í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar.

14. október 2005 : Heimsóknavinir óskast!

Kópavogsdeild Rauða krossins óskar eftir sjálfboðaliðum til að sinna heimsóknaþjónustu. Heimsóknavinir rjúfa einsemd og félagslega einangrun fólks með heimsóknum á einkaheimili og stofnanir.

Undirbúningsnámskeið verður haldið 24. október kl. 18-21 í húsakynnum Reykjavíkurdeildar að Laugavegi 120. Áhugasamir hafi samband í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected] Dagskrá námskeiðsins sést hér fyrir neðan.

14. október 2005 : Rauði krossinn safnar þrettán milljónum króna vegna hamfara í Pakistan

Blóðbanki pakistanska Rauða hálfmánans útvegar blóð til spítala og heilsugæslustöðva.
Almenningur hefur tekið vel í söfnun Rauða kross Íslands vegna hörmungarsvæðanna í Pakistan. Rúmlega 3.000 manns hafa hringt í söfnunarsímann 907 2020 og einnig hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að leggja fram rúmlega 9 milljónir króna til hjálparstarfs Rauða krossins.

Alþjóða Rauði krossinn hefur nú sent út neyðarbeiðni upp á um 100 milljónir svissneskra franka, eða um fimm milljarða króna, til hjálparstarfsins. Féð verður notað til að aðstoða 150,000 fjölskyldur (750,000 manns), sem voru fórnarlömb jarðskjálftans síðastliðinn laugardag sem náði til norðurhluta Pakistans, Indlands og Afghanistans. Þannig mun Rauði krossinn útvega matvæli, tjöld, teppi, eldurnaráhöld og læknisaðstoð til þeirra sem lifðu jarðskjálftann af og þurfa á aðhlynningu að halda.

13. október 2005 : Öflugt Rauða kross starf á höfuðborgarsvæðinu

Sigrún Jóhannsdóttir, fráfarandi formaður svæðisráðs á höfuðborgarsvæði, og Jóhann Gunnar Gunnarsson, nýr formaður ráðsins.

Fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins sóttu í gærkvöldi svæðis-fund allra deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu sem haldinn var í Hafnarfirði. Á fundinum urðu formannaskipti í svæðisráði og farið var yfir stöðu nokkurra samstarfsverkefna eins og nýstofnaðrar neyðarnefndar sem hefur umsjón með neyðarvarna-skipulagi Rauða krossins á svæðinu. 

Á fundinum var einnig fjallað um umfangsmikla fatasöfnun og fataflokkun deildanna sem fjölmargir sjálfboðaliðar taka þátt í, svo sem með úthlutun fatnaðar í neyðaraðstoð og afgreiðslustörf í fataverslunum Rauða krossins á Laugavegi 12 í Reykjavík og Strandgötu 24 í Hafnarfirði.

12. október 2005 : Margt góðra gesta í 7 ára afmæli Dvalar

Ljúffengar veitingar voru á boðstólnum í afmælinu.
Mánudaginn 10. október var veisla í Dvöl til að fagna 7 ára afmæli starfseminnar. Um leið var haldið upp á alþjóðlega geðheilbrigðis-daginn sem ber upp á þennan dag árlega. Margir góðir gestir komu í afmælisboðið í Dvöl og gæddu sér á ljúffengum veitingum. Sumir voru að koma í fyrsta skipti, svo sem hópur nemenda í afbrigða-sálfræði í MK sem eru að læra um geðraskanir og fengu fræðslu um Dvöl og Rauða krossinn í kennslustund fyrir skömmu.

Afmælisgestirnir veittu eftirtekt flottum málverkum í listasmiðjunni sem gestir Dvalar hafa unnið við að undanförnu undir leiðsögn sjálfboðaliða frá Svíþjóð sem mun starfa í Dvöl næstu mánuði.

12. október 2005 : Krakkar á Húsavík voru ,,Á flótta"

Krakkarnir voru í hlutverki flóttamanna í einn sólarhring.
Fjörutíu unglingar á Húsavík tóku þátt í „Á flótta" leiknum um sl. helgi í tengslum við Ungmennahúsið Tún á Húsavík og Húsavíkurdeild Rauða kross Íslands.

Á flótta er hlutverkaleikur þar sem unglingar eru í hlutverki flóttamanna í einn sólarhring og fá að reyna á eigin skinni ýmsar dæmigerðar aðstæður sem flóttamenn lenda í. Leiðbeinendur, sem allir hafa sótt þartilgerð námskeið, eru í hlutverkum landamæravarða, lögreglu og þar fram eftir götunum.

12. október 2005 : Frétt RKÍ

11. október 2005 : Geðsjúkir fátækasta fólk á Íslandi

Grein þessi birtist í Blaðinu 10.október 2005.

11. október 2005 : Íslendingar bregðast vel við neyðarkalli frá Pakistan

Kasmírbúar á göngu eftir eyðilögðum götum Sultandaki sem er 80 mílum vestur af Srinager. Reuters/ Danish Ismail, frá www.alertnet.org.
Um 1.500 manns hafa brugðist við neyðarkalli vegna jarðskjálftanna í Pakistan og lagt fram 1.000 krónur hver til hjálparstarfsins með því að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 907 2020. Þannig hefur safnast um ein og hálf milljón króna á þeim sólarhring sem er liðinn síðan söfnunin hófst.

Alþjóða Rauði krossinn hefur einsett sér að aðstoða 50.000 fjölskyldur, eða um 250.000 manns, á næstu fjóru mánuðum. Mikil neyð ríkir á hamfarasvæðinu í fjallahéruðum Pakistans og gífurleg þörf er fyrir matvæli, teppi og skjólefni af ýmsu tagi. Talsverðar birgðir eru á staðnum en það sem ekki er til í vöruhúsum Rauða krossins verður keypt í Pakistan.

10. október 2005 : Aðalfundur Urkí-R

Aðalfundur Urkí í Reykjavík var haldinn í síðustu viku.

Starfsemi Urkí-R var með hefðbundnu sniði síðasta starfsár og flest verkefnin gengu vel.

Stjórn Urkí-R starfsárið 2005-2006 er skipuð...

10. október 2005 : Rauði krossinn safnar til hjálparstarfsins á skjálftasvæðum

Hjálparstarfsmenn flytja birgðir frá tyrkneska Rauða hálfmánanum á hjálparsvæðin í Pakistan. Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans vinnur sameiginlega að hjálparstarfinu. Reuters/Faisal Mahmood, frá www.alertnet.org.

Rauði kross Íslands hefur hafið söfnun til stuðnings fórnarlömbum jarðskjálftans í Pakistan. Þeir sem vilja gefa eitt þúsund krónur til hjálparstarfsins geta hringt í 907 2020. Einnig er hægt að leggja fram fé af greiðslukorti með því að smella hér.

Hjálparsveitir Rauða krossins og Rauða hálfmánans eru við störf á skjálftasvæðinu, bæði í Pakistan og á Indlandi. Aðgerðir Rauða krossins til lengri tíma miða að því að aðstoða 50.000 fjölskyldur, eða um 250.000 manns, til næstu fjögurra mánaða.

Pakistanski Rauði hálfmáninn leiðir hjálparstarfið í Islamabad, þar sem stórhýsi hrundu með skelfilegum afleiðingum.

8. október 2005 : Viðbrögð Rauða krossins vegna jarðskjálftanna í Pakistan

Afleiðingar jarðskjálftanna í Pakistan eru skelfilegar. Mynd: Reuters/Mian Kursheed af www.alertnet.org.
Öflugur jarðskjálfti reið yfir Pakistan í morgun. Fyrstu fréttir herma að upptök skjálftans séu 95 km norðaustur af Islamabad. Skjálftans varð vart á stórum svæðum í Pakistan, Indlandi og Afganistan. 

Rauði kross Íslands er í viðbragðstöðu vegna jarðskjálftanna og starfsmenn félagsins eru í sambandi við höfuðstöðvar Alþjóða Rauða krossins í Genf. Rauði kross Íslands er reiðubúinn að veita þá aðstoð sem leitað er eftir en áherslan er á að nota þann mannafla og birgðir sem eru á staðnum.

Ljóst er að hjálparstarfið verður mjög erfitt þar sem víða er um að ræða afskekkt fjallahéruð þar sem vegir eru lélegir. Fé til fyrstu viðbragða Rauða krossins kemur úr neyðarsjóði Alþjóða Rauða krossins sem Rauði kross Íslands hefur lagt áherslu á að styðja með fjárframlögum.

7. október 2005 : Fjórir vinir safna fyrir bágstöddum börnum

Brynjar, Breki, Harpa og Aníta.
Vinirnir Aníta Sævarsdóttir, Harpa Haraldsdóttir og Breki og Brynjar Arndal héldu nýlega tvær tombólur fyrir utan Nóatún í Hamraborg. Þau söfnuðu alls 3.362 kr. sem þau afhentu Kópavogsdeild Rauða krossins. Þeim var umhugað um að peningarnir færu í að aðstoða veik og bágstödd börn í útlöndum.

Hópurinn boðaði síðan komu sína fljótt aftur í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með annað framlag því þau áttu enn til varning sem þau ætla sér að koma í verð með enn annarri tombólu.

7. október 2005 : Sjálfboðaliðar fræðast um áfallastreitu

Sjálfboðaliðarnir hlýddu áhugasamir á erindi Guðbjargar.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar hittust í hópefli þriðjudaginn 4. október og hlýddu á erindi Guðbjargar Sveinsdóttur, geðhjúkrunarfræðings. Guðbjörg fjallaði um áföll og afleiðingar þeirra. Hún tók sérstaklega fyrir áfallastreitu (post dramatic stress disorder).

Guðbjörg sagði einnig frá för sinni til Palestínu fyrr á árinu þar sem hún lagði mat á verkefni danska Rauða krossins sem felur í sér sálrænan stuðning við börn sem búa við stríðsátök.

7. október 2005 : Ekki fyrir ferðamenn

Áslaug er sendifulltrúi í Úganda.

4. október 2005 : 30 flóttamönnum boðið til landsins

Sendinefndin hitti þessi börn í flóttamannabúðum í Sarajevo. Þar eru nú 200 manns en við stríðslok bjuggu þar rúmlega 20.000 flóttamenn.

Síðastliðið vor ákvað ríkisstjórn Íslands að bjóða til landsins 30 flóttamönnum. Stærsti hluti flóttafólksins er frá Kólumbíu en nokkrir frá Kosovo. Komu þau til landsins í ágúst og september. Börnin hófu strax nám í Austurbæjarskólanum og fullorðna fólkið er í íslenskunámi hjá Mími. Aðlögun að íslensku samfélagi gengur vel.


Rauði krossinn hefur, ásamt móttökusveitarfélagi, haft lykilhlutverki að gegna í móttöku flóttamanna. Skv. samningi við flóttamannaráð annast Rauði kross Íslands móttöku flóttamanna og veitir þeim aðstoð fyrsta dvalarár þeirra, kemur fram sem fulltrúi þeirra og veitir þeim liðveislu. M.a. eru fimm stuðningsfjölskyldur á hverja fjölskyldu flóttamanna starfandi sem sjálfboðaliðar. Að þessu sinni er það Reykjavíkurdeild Rauða krossins og Reykjavíkurborg sem annast móttökuna.