30. nóvember 2006 : Nýtt spennandi verkefni á Austurlandi

Héraðs-og Borgarfjarðardeild Rauða kross Íslands og vegaHÚSIÐ sem er ungmennahúsið á Egilsstöðum eru að byrja með nýtt spennandi verkefni. Markmið verkefnisins er að rjúfa einangrun fólks af erlendum uppruna, sérstaklega erlendra kvenna og kynnast menningu ólíkra landa.

Boðið verður upp á ýmis námskeið, til dæmis að búa til íslenska kjötsúpu, prjóna úr íslensku ullinni og þæfingu. Einnig munu erlendu konurnar koma með eitthvað úr sinni menningu til að deila með öðrum.

30. nóvember 2006 : Alþjóðlegi alnæmisdagurinn: Rauði krossinn segir konum og stúlkum hættara við alnæmissmiti vegna kynbundins ofbeldis

Í yfirlýsingu Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans í tilefni af alþjóðlega alnæmisdeginum 1. desember segir að samtökin hafi vaxandi áhyggjur af aukningu á alnæmissmiti kvenna og stúlkna um allan heim. Ástæðurnar felast einkum í slæmum félagslegum aðstæðum kvenna sem eru fórnarlömb nauðgana, misnotkunar, mansals og vændis.

Rauði kross Íslands styrkir alnæmisverkefni í Malaví, Suður Afríku og Mósambík, en alnæmistíðni er hæst í heimi í löndunum í sunnanverðri Afríku þar sem allt að 40% íbúa eru alnæmissmitaðir. Skjólstæðingar Rauða krossins í þessum löndum eru flestir konur.

„Alnæmissmit vegna kynbundins og kynferðislegs ofbeldis  má líkja við neyðarástand á þessum slóðum,” segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent frá sér neyðarbeiðni vegna alnæmisverkefna í sunnanverðri Afríku þar sem sóst er eftir 21 milljarði íslenskra króna sem verja á til baráttunnar gegn alnæmi næstu árin.

29. nóvember 2006 : Kom til Íslands sem flóttamaður

Árið 1997 kom Nebojsa Zastavnikovic ásamt fjölskyldu sinni til Ísafjarðar sem flóttamaður frá Serbíu. Þá vissi hann ekki hvað að höndum myndi bera. Nú rekur hann eigið byggingafyrirtæki og byggir sumarbústaði á Íslandi. Kristján Guðlaugsson hitti hann að máli.

Nebojsa var lögreglumaður áður en hann fluttist búferlum til Íslands. Meðan hann var í íslenskunámi á Ísafirði vann hann hjá Ágústi Gíslasyni trésmíðameistara og þá vaknaði áhugi hans á húsamíðum og trésmíði.

28. nóvember 2006 : Framhaldsnámskeið fyrir leiðbeinendur í barna- og unglingastarfi

Þann 18. nóvember síðastliðinn var haldinn annar hluti námskeiðs fyrir leiðbeinendur í barna- og ungmennastarfi. Þátttakendur voru 25 víðsvegar að af landinu.

Námskeiðið hófst á því að Eygló Rúnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá ÍTR, talaði um hlutverk leiðbeinenda í félagsstarfi, aga og hegðun. Konráð Kristjánsson kynnti Byggjum betra samfélag, hvað hefur verið gert og hvað væri framundan. Síðan var unnið í hópum. Hóparnir áttu að útskýra hvað felst í hugtökunum félagsleg einangrun, fordómum og mismunun og hvernig hægt væri að vinna með þessi hugtök undir Byggjum betra samfélag og tengt þetta verkefnum í barna- og ungmennastarfi.

27. nóvember 2006 : Haustfögnuður

Sunnudaginn 27. nóvember buðu Rauða kross deildirnar á Stöðvarfirði, Breiðdalsvík og Fáskrúðsfirði, eldri borgurum til kaffisamsætis í Grunnskólanum á Stöðvarfirði.  Fjölmennt var og mikil gleði ríkti; börn sungu og léku, valinkunnir söngvarar brugðu sér í Idol og Jóna Hall þandi nikkuna við góðar umdirtektir.

27. nóvember 2006 : Afmælisgjafir runnu til Rauða krossins

Kópavogsbúinn Bogi Þórir Guðjónsson hélt nýlega upp á áttræðisafmæli sitt og í stað þess að þiggja gjafir hvatti hann vini og vandamenn til þess að styrkja Rauða krossinn. Bogi Þórir fékk að láni söfnunarbauk Kópavogsdeildar Rauða krossins og hafði hann frammi í afmælisveislunni sem hann hélt í félagsheimili eldri borgara í Gjábakka. Alls söfnuðust rúmar 20 þúsund krónur í baukinn sem voru afhentar Kópavogsdeild.

Kópavogsdeild Rauða krossins þakkar Boga Þóri kærlega fyrir framtakið og fólkinu hans fyrir að styðja verkefni félagsins.

Verkefni Kópavogsdeildar Rauða krossins snúa að mannúðarmálum og margvíslegri aðstoð við þá sem búa við þrengingar og mótlæti. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sinna verkefnum á borð við heimsóknir til fólks sem býr við einsemd og einangrun, starf með ungum innflytjendum, stuðning við geðfatlaða, störf að neyðarvörnum, fatasöfnun og fataflokkun. Kópavogsdeild tekur einnig þátt í neyðaraðstoð félagsins erlendis.

24. nóvember 2006 : Ljósmyndasýning Eldhuga opnuð í BYKO

„Vinátta og virðing í Kópavogi“ er yfirskrift ljósmyndasýningar Eldhuga sem opnuð var í BYKO Breiddinni í gær. Ljósmyndir og hugsanir Eldhuga út frá hugtökunum vinátta, Kópavogur, íslenskt og útlenskt prýða anddyri verslunarinnar til áramóta.

Ljósmyndasýningin er afrakstur ljósmyndamaraþons sem Eldhugar þreyttu í haust. Markmiðið með ljósmyndamaraþoninu var að Eldhugar veltu fyrir sér einkennum vináttu, sérkennum síns heimabæjar og hvernig við flokkum oft og tíðum hluti og fólk á mjög staðlaðan hátt. Það var gagnlegt að komast að því að mörkin í slíkri flokkun eru, þegar betur er að gáð, ekki alltaf svo skýr.

23. nóvember 2006 : Framhaldsnámskeið um sálrænan stuðning

Fullt var út úr dyrum á framhaldsnámskeiði um sálrænan stuðning sem haldið var á Ísafirði fyrir fjöldahjálparstjóra Rauða kross deildanna á Vestfjörðum dagana 17. og 18. nóvember. Námskeiðið sem var haldið á vegum deilda á Vestfjörðum stóð yfir í átta klukkustundir. Einnig var boðið fagfólki sem kemur að málefnum er lúta að mannlegum stuðningi úr félagsþjónustunni, heilbrigðisþjónustunni og málefnum fatlaðra.

Á námskeiðinu var fjallað m.a. um áhrif alvarlegra atburða á fólk, hvernig það tekst á við slíka atburði og hvaða stuðningur kemur því best. Þá var fjallað um svokallaða viðrun viðbragðshópa, sem eru stuttir fundir í lok útkalls.

23. nóvember 2006 : Nemendur MK kynntu sér þróunarstarf Rauða krossins

Nemendur í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda í MK komu fyrir stuttu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og fræddust um þróunarstarf Rauða krossins. Gestur Hrólfsson, starfsmaður á alþjóðasviði Rauða kross Íslands, kynnti nemendunum þróunarverkefni Rauða kross Íslands í Afríku.

Gestur sagði frá því viðfangsmikla verkefni sem baráttan gegn alnæmi er orðin í álfunni og áherslur Rauða krossins í þeim efnum. Hann benti á hvernig söfnunarféð í landssöfnuninni Göngum til góðs mun nýtast í verkefni Rauða kross Íslands í Afríku til stuðnings börnum sem eiga um sárt að binda vegna alnæmisvandans.

Gestur sagði mikilvægasta framlag sjálfboðaliða Rauða krossins í Afríku kunna að vera það fræðslu- og forvarnarstarf sem þeir inna af hendi meðal fjölskyldna og þorpssamfélaga um alla álfuna. Það væri starf sem oft fari lítið fyrir en beri ríkulegan ávöxt.

21. nóvember 2006 : Deildanámskeið á Lundi

18. nóvember 2006 : Fjölgun hunda í heimsóknaþjónustu

Fleiri hundar hafa bæst í hóp sjálfboðaliða Kópavogsdeildar Rauða krossins og heimsækja fólk sem óska eftir félagsskap þeirra. Nýjasta viðbótin er hundurinn Pollý sem heimsækir vikulega vistfólk á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð ásamt eiganda sínum Lilju. Þar að auki heimsækja hundar nú öll sambýli aldraðra í Kópavogi, Dvöl sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og Rjóðrið sem er skammtímavistun fyrir langveik börn. Hundar taka einnig þátt í nokkrum heimsóknum sjálfboðaliða í heimahús, þar sem þess er óskað, og eru hundarnir hvatning til þeirra sem vilja fara út að ganga. Hundar í heimsóknaþjónustu Kópavogsdeildar voru áberandi í hundagöngu sem farin var niður Laugaveginn í byrjun nóvember. Hundaræktarfélag Íslands stóð fyrir göngunni og Rauða kross hundarnir voru í forystusveit göngunnar ásamt einum lögregluhundi.

15. nóvember 2006 : Yfirlýsing frá Alþjóða Rauða krossinum á 61. Allsherjaþingi Sameinuðu þjóðanna, New York, 18. október 2006.

Yfirlýsing frá Alþjóða Rauða krossinum á 61. Allsherjaþingi Sameinuðu þjóðanna, New York, 18. október 2006.

Herra forseti.

Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því ályktun 59/39 var samþykkt hefur mikilvæg þróun átt sér stað á sviði alþjóðlegra mannúðarlaga. Alþjóða Rauði krossinn telur stóran áfanga hafa náðst með viðurkenningu allra ríkja heims á Genfarsamningunum fjórum frá 1949. Sú staðreynd að öll ríki heims hafa skuldbundið sig til að fylgja eftir ákvæðum Genfarsamninganna eru sterk rök gegn þeim sem halda því fram að alþjóðleg mannúðarlög séu ekki lengur fullnægjandi til þess að meðhöndla ástand sem skapast í vopnuðum átökum sem eiga sér stað í dag. Viðurkenningin gefur þvert á móti til kynna að alþjóðasamfélagið allt vill að þessir samningar séu virtir í hvívetna.

13. nóvember 2006 : Unnið gegn fordómum í Akranesbæ

Síðustu misserin hefur hópur öryrkja komið saman vikulega í húsi Akranesdeildar Rauða kross Íslands. Í bígerð er að skipuleggja ýmis verkefni undir kjörorðinu „Byggjum betra samfélag.“ Þetta eru sjálfboðaliðar sem hafa valið sér það hlutverk að beita sér gegn hvers kyns fordómum og stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi þess að allir íbúar í þessum annars ágæta bæ fái að njóta sín á eigin forsendum.

11. nóvember 2006 : Héldu tombólu í Salahverfi

Systurnar Erna María, Guðbjörg, Lilja og Rebekka Ósk Svavarsdætur héldu tombólu ásamt vinkonu sinni Örnu Björk Helgadóttur. Ágóðann af tombólunni, 500 kr., afhentu þær Kópavogsdeild Rauða krossins. Tombólan var haldin fyrir utan Nettó í Salahverfi og varningurinn var dót sem stelpurnar höfðu safnað í hverfinu. Stelpurnar vissu að Rauði krossinn starfar í yfir 180 löndum að því að hjálpa fólki þar sem neyðin er mest og mikil fátækt. Söfnunarfé stúlknanna rennur einmitt í verkefni Rauða krossins til styrktar börnum í neyð erlendis. Fyrir tilstilli tombólubarna á Íslandi safnast árlega samtals um hálf milljón króna.

10. nóvember 2006 : Börn og umhverfi

10. nóvember 2006 : Áætlanagerð deilda lokið

3. nóvember 2006 : Fróðlegt erindi um Palestínu

3. nóvember 2006 : Fróðlegt erindi um Palestínu

Í gær fengu félagar í Ungmennahreyfingu Rauða krossins í Hafnarfirði (URKÍ-H) góðan gest. Var þar á ferð Amal Tamimi sem starfar sem fræðslufulltrúi í Alþjóðahúsinu. Tilefni heimsóknarinnar var að fræða URKÍ-H félaga um heimaland Amal, Palestínu, og líf barna og unglinga þar.