27. september 2012 : Landssöfnun 6. október 2012. Hjálpum börnum í neyð!

Rauði krossinn í Kópavogi  tekur þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs laugardaginn 6. október. Stefnt er að því að ganga með söfnunarbauka í hvert hús í bænum. Við þurfum því á liðsinni fjölda sjálfboðaliða að halda. Í ár verður gengið til góðs fyrir börn í neyð. Söfnunarfénu verður því varið í verkefni á vegum Rauða krossins fyrir börn í neyð í nokkrum löndum, svo sem í Sómalíu, Hvíta-Rússlandi, Palestínu, Malaví og á Haíti.

20. september 2012 : Óskað er eftir hljóðfæraleikara til að sinna undirspili í söngstundum

 Óskað er eftir hljóðfæraleikara til að sinna undirspili í  söngstundum á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Söngstundirnar eru vikulega á mánudögum kl. 15-16 og eru hugsaðar sem afþreying fyrir heimilisfólk Sunnuhlíðar. Sjálfboðaliðar sjá um söng og nú vantar píanóleikara eða gítarleikara til að sjá um undirspil. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu verkefni eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða á netfangið [email protected].

19. september 2012 : Mórall 10 ára

Nú eru liðin 10 ár síðan 13-16 ára ungmennastarfi KJósarsýsludeildar var ýtt úr vör. Til að fagna þessum tímamótum komu nokkrir núverandi og fyrrverandi leiðbeinendur saman í Rauðakrosshúsinu Þverholti 7, ásamt velunnurum og fylgifiskum í spjall og dísæta súkkulaðitertu.

Myndir úr afmælinu má finna á Facebooksíðu deildarinnar hér.

17. september 2012 : Námskeið um slys og veikindi barna í næstu viku

26. og 27. september n.k. verður námskeiðið Slys og veikindi barna haldið hjá Rauða krossinum í Kópavogi. Á námskeiðinu er fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Meðal annars er leiðbeint í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna og andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús. Námskeiðið getur gagnast öllum þeim sem umgangast börn, hvort sem er í starfi eða daglegu lífi.

Enn eru nokkur pláss laus. Hægt er að skrá sig með því að smella hér eða hafa samband í síma 554-6626.

*Leiðbeinandi er Sigrún Pétursdóttir, hjúkrunarfræðingur.
*Námskeiðsgjald: 8.000kr. á mann. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fá ókeypis á námskeiðið og félagsmenn sem greitt hafa félagsgjaldið fyrir 2012 fá 10% afslátt.
*Innifalin eru námskeiðsgögn og skírteini sem staðfestir þátttöku.

13. september 2012 : Mikil stemning þegar alþjóðlegir foreldrar hittast vikulega í Kópavogi

Vikulegar samverur alþjóðlegra foreldra eru hafnar á ný og margt spennandi í boði  á haustmánuðum. Alþjóðlegir foreldrar er hópur íslenskra og erlendra foreldra sem hittist alla fimmtudaga kl. 10-12 í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi með börnin sín á aldrinum 0-6 ára. Á samverum er reglulega boðið upp á ýmiss konar fræðslu sem tengist börnum eða innflytjendum á Íslandi. Leikföng fyrir börnin eru á staðnum og léttar veitingar í boði. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun foreldra af erlendum uppruna.

12. september 2012 : Tombóla á Hamraborgarhátíðinni

Alex Kristinsson og Sylvía Þorleifsdóttir tóku þátt í Hamraborgarhátíðinni sem haldin var 1. september s.l. Þau héldu tombólu til styrktar Rauða krossinum fyrir utan Reyni bakara. Afraksturinn var 13.867 sem þau færðu Rauða krossinum til þess að hjálpa börnum. 

11. september 2012 : Rauði krossinn fær öfluga sjálfboðaliða til að standa vaktina í versluninni á Laugavegi 12!

Fyrirtækið Auður Capital telur það góðan sið að fyrirtæki láti eitthvað af hendi rakna til samfélagsaðstoðar og vill það leggja þeim lið sem stuðla að jákvæðri uppbyggingu og framförum.

Dagsverk Auðar er samfélagsverkefni starfsmanna Auðar, sem felst m.a. í því að allir starfsmenn vinna sem nemur einum vinnudegi á ári í þágu góðs málefnis. Starfsmennirnir velja sjálfir verkefni sem hljóta fjár- eða vinnuframlag. Rauði kross Íslands hefur notið góðs af Dagsverki Auðar, því árið 2009 sáu starfsmenn þeirra um að manna eina vakt í heilt ár í einni af verslunum Rauða krossins. Samstarfið var mjög ánægjulegt fyrir alla aðila og nú hafa þau boðist til að endurtaka leikinn. 

5. september 2012 : Duglegar tombólustelpur

Vinkonurnar Bryndís Perla Garðarsdóttir og Kolbrún Lena Rafnsdóttir úr Snælandsskóla héldu tombólu fyrir utan Snælandsvídeó í sumar. Þær söfnuðu 2653kr sem þær færðu  Rauða krossinum í Kópavogi. Rauði krossinn þakkar þessum duglegu stelpum. 

4. september 2012 : Sjálfboðaliðar óskast - Laut

Nú eru sjálfboðaliðar sem sinnt hafa verkefni í Laut að taka til starfa enn eitt árið.  Þeir hafa allt frá stofnun Lautar séð um helgaropnun, þ.e. á laugardögum milli kl. 13 og 16.

Þeir skipta með sér vöktum tveir og tveir í senn eins oft og þeim hentar yfir vetrartímann.

Hlutverk sjálfboðaliða í þessu verkefni er fyrst og fremst viðvera, þ.e.a.s. að opna húsið, taka til kaffi og vera til staðar fyrir gesti.

Nú óskum við sérstaklega eftir sjálfboðaliðum í  þetta verkefni og er áhugasömum bent á að hafa samband við skrifstofu Rauða krossins í síma 461 2374 eða [email protected]

1. september 2012 : Mikil sala á handverki sjálfboðaliða á Hamraborgarhátíð

Rauði krossinn í Kópavogi tók þátt í Hamraborgarhátíðinni sem haldin var í dag, laugardaginn 1.september. Margt var um manninn og  sjálfboðaliðar deildarinnar stóðu vaktina utandyra sem innan og seldu prjóna- og saumavörur sjálfboðaliða. Salan gekk langt framar vonum og ágóðinn, alls 90.000 krónur mun renna til verkefna deildarinnar innanlands.

Gestir fengu einnig tækifæri til að kynna sér starf og verkefni deildarinnar, auk þess sem boðið var upp á kaffi.

Hátíðin var haldin á vegum Kópavogsbæjar í samstarfi við verslanir, fyrirtæki og menningarstofnanir í Hamraborginni. Kópavogsdeild vill þakka sjálfboðaliðum sem unnu í dag, sem og þeim sem vinna allt það fallega handverk sem var til sölu innilega fyrir þeirra störf.

Þeir sem hafa áhuga á að fræðast um verkefni deildarinnar eða taka þátt í því geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða sent tölvupóst á [email protected]