• Atli_styrkur

48 milljónir til hjálparstarfs erlendis

Aðstoð við flóttafólk í forgangi 

22. júní 2016

Íslenska utanríkisráðuneytið úthlutaði í byrjun júní 60 milljónum króna til íslenskra félagasamtaka til að bregðast við flóttamannavanda í Sýrlandi og annarra mannúðarmála. 


Rauði krossinum á Íslandi var úthlutað 47,8 milljónum og verður þeim varið í eftirfarandi verkefni: 

 

  • 25 milljónir - Rauði kross Íslands vegna mannúðaraðstoðar Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) í Sýrlandi.
  • 13,8 milljónir - Rauði kross Íslands vegna stuðnings við innviði Rauða krossins í Líbanon.
  • 9 milljónir - Rauði kross Íslands vegna stuðnings við aukið fæðuöryggi í Malaví. 


Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt við verkefni Alþjóðaráðs Rauða krossins í Sýrlandi sem hefur einstaka stöðu til að koma hjálpargögnum til bágstaddra á átakasvæðum og hefur á sínum snærum starfsfólk og sjálfboðaliða sem leggja líf sitt í hættu á hverjum degi. Heilbrigðisstarfsfólk hefur unnið ótrúlegt starf við mjög erfiðar aðstæður, ekki síst þar sem heilu þorpin og jafnvel borgir eru jafnan í herkví. 


Í Líbanon kemur Rauði krossinn til með að halda áfram að styðja við færanlegar heilsugæslustöðvar (mobile health clinics) sem veita flóttafólki nauðsynlega og oft lífsbjargandi heilsugæslu. Í Líbanon eru um 1,5 milljón sýrlenskra flóttamanna sem hafa flúið átök í heimalandi sínu. Margir þeirra búa nú við erfiðar aðstæður. 


Í Malaví hefur Rauði krossinn starfað síðan 2012 við að auka fæðuöryggi, auka aðgengi almennings að drykkjarvatni og greiða götu ungra kvenna til menntunar. Úthlutun utanríkisráðuneytisins að þessu sinni gerir Rauða krossinum kleift að halda áfram samstarfi við malavíska Rauða krossinn að mannúðarstarfi sem mun skipta sköpum á stórum svæðum. Þau sem koma til með að njóta ágóða verkefnanna eru fyrst of fremst börn og ungmenni, sér í lagi ungar stúlkur.