• 12716139_755125311285036_1963649696766424187_o

49 hælisumsóknir í janúar

15. febrúar 2016

Í janúar bárust 49 umsóknir um hæli á Íslandi frá einstaklingum frá níu löndum. Til samanburðar bárust fjórtán hælisumsóknir í janúar árið 2015 þannig að um er að ræða rúmlega þreföldun umsókna miðað við sama tímabil í fyrra. Sé miðað við þessar tölur má búast við að umtalsvert fleiri sæki um hæli á Íslandi í ár en í fyrra, en árið 2015 bárust fleiri hælisumsóknir en nokkru sinni áður eða 355 umsóknir.

Á tímabilinu var ellefu umsækjendum veitt hæli eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á Íslandi, sex hjá Útlendingastofnun og fimm hjá Kærunefnd útlendingamála.

Flestir umsækjendanna í janúar 2016 komu frá Albaníu, eða alls fimmtán. Næstflestar umsóknir, tólf talsins, bárust frá Írökum auk þess sem átta umsóknir bárust bæði frá Sýrlendingum og Makedóníumönnum. Ein til tvær umsóknir bárust frá hælisleitendum frá fimm löndum til viðbótar, þeirra á meðal Erítreu og Afganistan. Alls sóttu 39 karlmenn og tíu konur um hæli, þar af  40 fullorðnir og níu börn.

Útlendingastofnun veitti fimm einstaklingum hæli og einum dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Stofnunin tók ákvörðun í 48 málum hælisleitenda í janúar, þar sem 20 var synjað um vernd eftir efnismeðferð, 21 synjað um efnismeðferð á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og einum synjað um efnismeðferð þar sem sá hælisleitandi hefur að mati Útlendingastofnunar þegar hlotið einhverskonar vernd í öðru ríki innan Evrópu. Heildarhlutfall hælis- eða dvalarleyfisveitinga hjá Útlendingastofnun var því 12,5% í janúar og meðalmálsmeðferðartími í þeim málum sem ákvarðað var í á tímabilinu að meðaltali 104 dagar.

Á sama tímabili veitti Kærunefnd útlendingamála fimm hælisleitendum dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Nefndin úrskurðaði í samtals nítján málum þar sem átta var synjað um vernd eftir efnismeðferð, fjórum var synjað um efnismeðferð á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og tveimur synjað um efnismeðferð þar sem þeir hælisleitendur hafa að mati Kærunefndar útlendingamála þegar hlotið einhverskonar vernd í öðru ríki innan Evrópu. Heildarhlutfall hælis- eða dvalarleyfisveitinga hjá Kærunefnd útlendingamála var því 26,3% í janúar og málsmeðferðartími í þeim málum sem úrskurðað var í á tímabilinu að meðaltali 191 dagur.

Í janúar var 31 ákvörðun Útlendingastofnunar kærð til Kærunefndar útlendingamála.