• IMG_5446

Aðalfundur Rauða krossins í Reykjavík

9. febrúar 2016

Aðalfundur Rauða krossins í Reykjavík verður haldinn fimmtudaginn 10. mars, 2016, í húsnæði deildarinnar að Efstaleiti 9. Fundurinn hefst kl. 17:30.

Dagskrá aðalfundar er samkvæmt 8. grein starfsreglna Rauða krossins í Reykjavík og 20 gr. 4. kafla laga Rauða krossins á Íslandi. Samkvæmt lögunum hafa þeir félagar atkvæðisrétt og kjörgengi á aðalfundi sem greitt hafa árgjald síðasta árs til deildarinnar fyrir árslok.

Á dagskrá fundarins er meðal annars kjör formanns til eins árs, þriggja aðalmanna til tveggja ára og tveggja varamanna til eins árs.

Sjálfboðaliðar í hinum ýmsu verkefnum deildarinnar eru hvattir til að bjóða sig fram, hafi þeir áhuga á stjórnarsetu. Einnig eru sjálfboðaliðar og aðrir félagsmenn hvattir til að tilnefna aðra aðila sem þeir telja frambærilega til setu í stjórn og mun kjörnefnd hafa samband við þá aðila. Æskilegt er að í tilnefningum komi fram ástæður þess að viðkomandi er tilnefndur.

Upplýsingar um hvað felst í stjórnarsetu veitir starfandi formaður deildarinnar, Ragnar Þorvarðarson, á formadur.reykjavik@redcross.is.

Tilnefningar skulu sendar á kjörnefnd Rauða krossins í Reykjavík á netfangið kjornefnd.reykjavik@redcross.is. Í kjörnefnd, sem skipuð var af stjórn 13. janúar, eru: Sigurveig H. Sigurðardóttir formaður, Baldur Steinn Helgason og Ísold Uggadóttir.