Afhending á nýjum sjúkrabifreiðum til landsins fór fram í dag

14. ágúst 2020

Rauði krossinn á Íslandi hefur fest kaup á 25 nýjum sjúkrabifreiðum samkvæmt útboði sem staðfest var í lok árs 2019.

Formleg afhending á bifreiðunum er í dag, föstudaginn 14. ágúst 2020. Um er að ræða 25 bíla, en fyrstu fimm bílarnir voru afhentir föstudaginn 17. júlí og síðan þá hafa nýir bílar komið til landsins í hverri viku. Gert er ráð fyrir að þeir verði allir komnir til landsins nú í september. Fastus ehf. er seljandi bifreiðanna hér á landi.

Smíði sjúkrabíla kallar á mikinn undirbúning og góð samskipti á milli allra sem að ferlinu koma. Skipaður var vinnuhópur til undirbúnings útboðsins og eftir að samningur við seljanda var undirritaðu , tók hluti hópsins virkan þátt samskiptum við byggingaraðila í Póllandi, ásamt fulltrúa Rauða krossins á Íslandi. Pólski framleiðandinn B.A.U.S. AT sá um smíði og nauðsynlegar breytingar á bílunum en Askja, umboðsaðili Mercedes Benz á Íslandi, mun annast þjónustu við bílana eftir að þeir koma til landsins.

Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri, Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins, Sveinn Kristinsson formaður Rauða krossins og María Heimisdóttir forstjóri sjúkratrygginga

Um er að ræða nýjustu gerð af Mercedes Benz Sprinter en útlit þeirra er töluvert frábrugðið því sem almenningur þekkir. Útlitið hefur vakið töluverða athygli, en bílarnir eru gulir á lit með svokölluðu Battenburg mynstri sem gerir bílana sýnilegri í umferðinni. Góð reynsla hefur verið af slíkum merkingum hjá nágrannaþjóðum okkar. Bílarnir eru merktir Rauða krossinum á Íslandi auk bláu stjörnunnar / stjörnu lífsins, sem er alþjóðlegt merki sjúkraflutningamanna.

Nýir sjúkrabílar eru þegar komnir í notkun á Selfossi, Akranesi, Akureyri og í Reykjanesbæ og svo kemur röðin að slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu síðar í mánuðinum.

Rauði krossinn mun halda endurnýjun sjúkrabílaflotans áfram næstu tvö ár. Nú þegar er búið að auglýsa nýtt útboð á 25 bifreiðum til viðbótar sem eiga að afhentast í lok næsta árs með valrétt um afhendingu á 10 bílum til viðbótar.

Burðargeta nýju sjúkrabílanna er töluvert meiri en eldri bílanna, eykst úr 3.500 í 4.100 kg. sem bætir vinnuumhverfi í bílunum töluvert.r. Bílarnir eru sérlega vel útbúnir með ýmsar nýjungar sem auka aksturshæfni þeirra. Þar má nefna loftpúðafjöðrun sem gerir bílinn mýkri í akstri og einnig er hægt að hækka og lækka bifreiðina að aftan, sem þýðir að mun þægilegra er að keyra sjúkrabörum inn og út úr bílnum. Bifreiðarnar koma með CANBUS rafrænni stýringu fyrir lýsingu, hita, lofkælingu, loftpúða o.fl. sem hægt er að stjórna frá 5 mismunandi stöðum í bílnum.

Ný hönnun á innréttingum í bílnum hefur það markmið að auðvelda sjúkraflutningarmönnum sína vinnu. Hægt verður að nota bæði hefðbundnar sjúkrabörur og rafmagnsbörur og aukastóll bætist við í vinnurými bíla sem eru með hefðbundnar sjúkrabörur. 

Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri, Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins og Sveinn Kristinsson formaður Rauða krossins