• 12

Alþjóðadagur þeirra horfnu

30. ágúst 2018

Alþjóðadagur þeirra horfnu (International Day of the Disappeared) er í dag.

Á hverju ári týnast þúsundir farandfólks á leið sinni til Evrópu. Fjölskyldur tvístrast og enda í mismunandi heimshornum án þess að vita hvar ættingjar þeirra eru niðurkomnir og hvort þau eru örugg. Ýmis landsfélög Rauða krossins í Evrópu og Alþjóðaráð Rauða krossins tóku sig saman árið 2013 og komu á fót verkefninu Trace the Face – www.tracetheface.org til þess að aðstoða fólk við að finna ástvini sína að nýju. Einstaklingar sem hafa orðið viðskila við fjölskyldu sína geta birt mynd af sér á síðuna til þess að auglýsa leit sína að ættingjum sínum.

Það tekur oft tíma að finna horfna einstaklinga og sá tími getur reynst afar sársaukafullur.

Á árinu hefur að meðaltali ein fjölskylda á viku endurheimt samband við ættingja sína eftir að hafa birt mynd af sér á síðunni. Alls hefur Trace the Face sameinað 114 fjölskyldur.

Á þessum degi horfinna einstaklinga er viðeigandi að hvetja alla til þess að dreifa síðunni og aðstoða fólk við að finna ættingja sína að nýju. Um 4000 einstaklingar hafa birt myndirnar sínar á síðunni og vonast til þess að ná sambandi við fjölskyldu sína að nýju.