Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er í dag

8. mars 2019

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Rauði krossinn á Íslandi vinnur að því að efla og styrkja stöðu kvenna í verkefnum erlendis og hefur það verið megin stefið í starfinu mörg undanfarin ár. Félagið starfar eftir ákveðnum áherslum í sínum verkefnum þar sem konur og stúlkur í neyð eru í forgrunni. Tölfræði og samantektir á þessu sviði benda til þess að konur og stúlkur séu líklegri til að vera fátækar, síður líklegar til að ná að vinna sig út úr fátækt, hljóta menntun og búa við góða heilsu. Á þessu er einföld skýring sem kalla má „tímafátækt“ en konur verja að meðaltali tvöfalt meiri tíma í ólaunaða vinnu, svo sem að elda, þrífa og sjá um börn og foreldra. Þeim gefst því yfirleitt ekki tími til þess að mennta sig, afla sérþekkingar, sinna tekjuöflun eða sækja sér heilbrigðisþjónustu. Af þessari ástæðu leggur Rauði krossinn á Íslandi áherslu á valdeflingu stúlkna og kvenna í alþjóðlegu hjálparstarfi.

Rauði krossinn hefur í mörg ár stutt stúlkur til náms og veitt þeim fræðslu um eigin réttindi og þjálfun í lífsleikni í gegnum uppbyggingu ungliðastarfs Rauða krossins í Malaví. Þá hefur félagið stutt sérstakt átak Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) í því að efla viðbrögð hreyfingarinnar við kynferðislegu ofbeldi á átakasvæðum undanfarin ár.

Aðgerðir ICRC eru fjölþættar og markmið þeirra má gróflega flokka í eftirfarandi þætti:

1. Auka aðgengi fórnarlamba kynferðisofbeldis að heilbrigðisþjónustu.

2. Auka aðgengi fórnarlamba að annarri lífsnauðsynlegri þjónustu.

3. Auka forvarnir og draga úr líkum á kynferðisofbeldi. Þar með talið með því að vekja viðeigandi valdhafa, s.s. stjórnvöld og stríðandi fylkingar til vitundar um ákvæði alþjóðlegra mannúðarlaga, þ.m.t. viðurlög og lögbundna ábyrgð og skyldur þeirra á tímum vopnaðra átaka, í samræmi við Genfarsamningana og þá sérstaklega skyldur er varða virðingu og vernd til handa óbreyttum borgurum, með áherslu á kynferðislegt ofbeldi.

Rauði krossinn á Íslandi vinnur einnig að verkefni innan alþjóðlegu Rauða kross hreyfingarinnar sem miðar að því að auka jafnrétti í öllum verkefnum innan hreyfingarinnar, fjölgun kvenna í áhrifastöðum og að styðja landsfélög innan Evrópu í því að tefla fram konum.