• 2017-facebook-¨profile-image-not-a-target

Alþjóðlegur dagur mannúðar

19. ágúst

19. ágúst 2017

Í dag, 19. ágúst, er ekki aðeins Menningarnótt í Reykjavík heldur líka Alþjóðlegur dagur mannúðar (World Humanitarian Day).

Það sem af er ári hafa 29 manns, starfsfólk og sjálfboðaliðar, hjá landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim látist við störf sín. Þessir einstaklingar létust í Suður Afríku, Mið-Afríkulýðveldinu, Þýskalandi, Afganistan, Malí, Nígeríu, Mexíkó og Sýrlandi. 24 einstaklingar létust vegna átaka eða ofbeldis en 5 í slysum.

Það er mikilvægt að minna á á degi sem þessum að Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn eru ekki skotmörk.

Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn starfa í nánast öllum ríkjum heimsins. Hreyfingin er útbreiddasta og fjölmennasta mannúðarhreyfing heims, en tilgangurinn er að vernda líf og heilsu berskjaldaðra hópa og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi.

Rauði krossinn var stofnaður í kjölfar orrustu milli Austurríkismanna og Frakka á 19. öld í Solferino. Henry Dunant skipulagði hjálparstarf þar sem öllum var komið til hjálpar og ekki spurt um í hvaða liði hermennirnir voru. Fyrsti Genfarsamningurinn um vernd særðra og sjúkra hermanna var gerður eftir tillögur Dunants og samverkamanna hans, en Genfarsamningarnir eiga að tryggja fólki lágmarks mannréttindi á ófriðartímum. Þeim er sérstaklega ætlað að vernda réttindi þeirra sem ekki taka þátt í átökunum - óbreyttra borgara, hermanna sem hafa særst eða gefist upp og einnig lækna og hjúkrunarfólks sem sinnir líknarstarfi á átakasvæðum.

Í fyrsta Genfarsamningnum var sett fram sú einfalda og ótvíræða regla að þeir sem taka þátt í styrjöld verði að hjálpa öllum særðum hermönnum - líka andstæðingum sínum. Jafnframt var ákveðið að hjálparsveitirnar yrðu sérstaklega merktar rauðum krossi á hvítum grunni og skyldi það vera tákn friðhelgi þeirra.

Ekki má ráðast á sjúkrabíla eða sjúkrahús eða annað húsnæði þar sem særðum er hjúkrað. Rauður kross eða rauður hálfmáni á hvítum grunni eru tákn fyrir þá vernd sem fólk, tæki og byggingar njóta sem eru til hjálpar fórnarlömbunum.

Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn eru ekki og eiga ekki að vera skotmörk í neinum átökum.

#NotATarget

2017-facebook-cover-image-not-a-target