Árni endurkjörinn formaður á aðalfundi Rauða krossins í Reykjavík

14. mars 2017

 

Árni Gunnarsson var endurkjörinn formaður Rauða krossins í Reykjavík á aðalfundi deildarinnar 9. mars. Aðrir stjórnarmenn sem voru í framboði voru einnig endurkjörnir og á stjórnarfundi í kjölfar aðalfundar var Huld Ingimarsdóttir kjörin varaformaður og Hermann Guðmundsson gjaldkeri stjórnar.

Á aðalfundinum kynnti Árni starf deildarinnar á síðasta ári og Huld fór yfir afkomuna. Fram kom að afgangur frá rekstri, fyrir fjármunatekjur, hefði numið tæpri hálfri milljón króna eftir mikinn taprekstur undanfarinna ára.

Veruleg fjölgun hefur verið á skjólstæðingum deildarinnar meðal jaðarsettra hópa, sem talið er endurspegla traust þeirra í garð starfsmanna og sjálfboðaliða. Í máli Þóris Guðmundssonar forstöðumanns deildarinnar kom fram að framundan væri efling á stuðningi við flóttafólk og innflytjendur.

Á aðalfundinum voru veittar viðurkenningar til skyndihjálparmanns Reykjavíkur, sem er Andrés Guðmundsson, og til sjálfboðaliða fyrir störf þeirra. Viðurkenningar fengu Bergdís Kristjánsdóttir heimsóknavinur, Sesselja Þórðardóttir í fataverkefni, Halldóra Þ. Leifsdóttir í Konukotsmarkaði, Dagný Hrönn Bjarnadóttir í stuðningi við flóttafólk, Kjartan Bjarnason í Vin, Ísabella Björnsdóttir í Frú Ragnheiði og Jóhanna S. Jónsdóttir í Kvennadeild.

Þær breytingar urðu á stjórn að Belinda Karlsdóttir kom inn sem varamaður í stað Helgu Báru Bragadóttur, sem bauð sig ekki fram að nýju. Ingibjörg Gylfadóttir er nýr stjórnarmaður, kemur inn sem fulltrúi Kvennadeildar eftir að taka við formennsku þar af Oddrúnu Kristjánsdóttur fyrr í mánuðinum. 

Ragnar Þorvarðarson varaformaður var endurkjörinn í stjórn en gaf ekki kost á sér áfram í embætti varaformanns. 

Á fundinum hélt Halldóra Pálsdóttir forstöðumaður Vinjar erindi um athvarfið og Kári Auðar Svansson lýsti Vin frá sjónarmiði gests.

„Vin hefur verið mitt haldreipi,“ sagði Kári og lýsti góðum anda meðal gesta og starfsfólks.

Á myndinni má sjá Kára Auðar Svansson flytja erindi sitt.