Ársskýrsla Rauða krossins 2016

21. júlí 2017

Ársskýrsla Rauða krossins á Íslandi 2016 er komin út. Í henni má lesa um það helsta sem gerðist hjá félaginu árið 2016.

Félag eins og Rauði krossinn væri ekki til ef ekki væri fyrir mikilvægt framlag sjálfboðaliða. Á ósköp venjulegum fimmtudegi í október á síðasta ári voru 347 sjálfboðaliðar að störfum sem 609 manns nutu góðs af með beinum hætti. Heildarframlag þann dag voru 762,5 klukkustundir sem samsvarar um 4,5 mánuðum af fullri vinnu.

Stærstu verkefni Rauða krossins innanlands varða hælisleitendur og flóttafólk, en Rauði krossinn sinnir talsmannaþjónustu fyrir hælisleitendur á stjórnsýslustigi samkvæmt samningi við íslenska ríkið. Rauði krossinn sinnir einnig félagslegu hjálparstarfi fyrir hælisleitendur og leitast við að halda viðburði fyrir hælisleitendur sem mæta þörfum og áhugasviði sem flestra. Um 80 sjálfboðaliðar sinntu félagsstarfi fyrir hælisleitendur undir lok síðasta árs, þar af voru 25 afar virkir.
Lögfræðingar og verkefnastjórar í félagslegu starfi með hælisleitendum vinna saman í teymum sem hefur gefið góða raun og lögð er áhersla á heildræna nálgun hvað varðar þau réttindi og þá þjónustu sem hverjum hælisleitenda er nauðsynleg.

Deildir Rauða krossins um land allt bregðast við fjölda alvarlegra atburða, s.s. náttúruhamförum, samgönguslysum, húsbrunum og fleiru. Þá eru sjálfboðaliðar til taks til að aðstoða fólk með ýmsum hætti, svo sem með opnun fjöldahjálparstöðva, sálrænum stuðningi og skyndihjálp. Á árinu 2016 voru skráðar 75 neyðaraðgerðir hjá félaginu. Atburðum tengdum ferðaþjónustu og ferðamennsku fjölgar sífellt, svo sem rútuslysum.

Um 37% af heildarframlögum Rauða krossins fóru til innlendra verkefni, en aukning varð á framlögum til þeirra um rúmar 200 milljónir sem skýrist að stærstum hluta af aukinni aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur skv. samningi við íslenska ríkið.

Meðal innlendra verkefna má nefna Hjálparsímann 1717, skyndihjálp, neyðarvarnir og athvörf Rauða krossins svo sem Vin, Laut og Læk sem eru fræðslu- og batasetur fyrir fólk með geðraskanir. Þá var einstaklingsaðstoð veitt til fólks um allt land auk félagslegs stuðnings.

Um 22% af heildarframlögum til Rauða krossins er ráðstafað til alþjóðlegs hjálparstarfs. Stærstu framlögin fóru í verkefni tengd flóttafólki í Sýrlandi, Líbanon og löndum við Miðjarðarhaf og til verkefna í Hvíta-Rússlandi. Einnig fóru stór framlög til Malaví, Sómalíu, Úganda og Kákasus.