Ársskýrsla Rauða krossins í Reykjavík sýnir aukna aðsókn jaðarsettra hópa

Ársskýrsla Rauða krossins í Reykjavík komin út

9. mars 2017

Ársskýrsla Rauða krossins í Reykjavík sýnir aukna aðsókn jaðarsettra hópa

Í ársskýrslu Rauða krossins í Reykjavík, sem kemur út í dag, kemur fram að mikil fjölgun hafi verið á aðsókn í úrræði fyrir jaðarsetta hópa í borginni. Þannig voru heimsóknir í Frú Ragnheiði, bíl sem sjálfboðaliðar manna á kvöldin til aðstoðar fólki með fíknivanda, nærri þrefalt fleiri í fyrra en árið áður. Aldrei hafa fleiri konur gist í Konukoti á einu ári og 2016, alls 101 kona í rúmlega þrjú þúsund gistinætur.

Þá útvegaði Rauði krossinn þurfandi einstaklingum fatnað með afgreiðslu fatakorta fyrir samtals tæplega 30 milljónir króna. Fatakort getur fólk notað til að fá ókeypis fatnað í fataverslunum Rauða krossins. Áfallasjóður deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu veitti 44 einstaklingum og fjölskyldum kærkomna styrki, yfirleitt í kjölfar slysa eða sjúkdóma.

Á árinu voru 24 stuðningsfjölskyldur flóttafólki frá Sýrlandi innan handar við aðlögun að íslensku samfélagi. Fólkið kom til landsins í boði stjórnvalda. Á sama tíma veittu sjálfboðaliðar Rauða krossins í Reykjavík flóttafólki, sem fékk alþjóðlega vernd eftir hælismeðferð, brýna aðstoð við fyrstu skrefin á Íslandi. Mest þörfin reyndist vera fyrir hjálp við leit að leiguhúsnæði.

Um 150 einstaklingar með geðraskanir sóttu Vin, athvarf og batasetur Rauða krossins á Hverfisgötunni. Fjölskyldumiðstöðin, sem var lögð niður í upphafi árs, sinnti nærri 500 fjölskyldum, í flestum tilvikum vegna vanda í fjölskyldunni. Um 120 aldraðir og sjúkir  fengu heimsókn sjálfboðaliða og börn og ungmenni – flest af erlendum uppruna – fengu aðstoð við heimanámið, svo eitthvað sé nefnt af verkefnum Rauða krossins í Reykjavík.

Auk 24 fastra starfsmana eru alls um 800 sjálfboðaliðar eru í föstum verkefnum hjá Rauða krossinum í Reykjavík, sem er ein af 42 deildum Rauða krossins á Íslandi.

Aðalfundur deildarinnar er í dag, fimmtudaginn 9. mars, kl. 17:30 í húsi Rauða krossins að Efstaleiti 9.

Ársskýrsluna má lesa hér.