• IMG_4046

Bækur á arabísku og íslensku afhentar

15. nóvember 2017

Í dag var gleðilegur dagur í Efstaleitinu.

Ibby (International Board on Books for Young People) eru alþjóðleg samtök sem láta sig varða málefni læsis og barnabókmennta, en þau grundvalla starfsemi sína á þeirri trú að barnabækur geti byggt brýr og aukið skilning milli þjóða og menningarheima. Samtökin láta til sín taka á ýmsan hátt til að efla læsi og auka aðgengi barna að góðum bókum, til dæmis með stuðningi við læsisátök, uppbyggingu bókasafna og með því að vekja athygli á góðum bókum. Nú á undanförnum misserum hafa samtökin leitað leiða til að koma börnum á flótta til hjálpar hvað varðar bækur og menntun.

Íslandsdeild Ibby vill reyna að rétta út hönd til þeirra barna sem setjast að á Íslandi og bjóða þau velkomin. Við höfum útbúið fyrir þau fjársjóðskistur með bókum sem eru ýmist á málum sem þau skilja fyrir eða á nýja málinu þeirra, íslensku. Sérstaklega var reynt að finna bækur sem til eru bæði á íslensku og öðrum tungumálum. Bækurnar eru fengnar að gjöf frá forlögum bæði innan lands og utan sem öll tóku málaleitan okkar ákaflega vel. Kassarnir sem hýsa bækurnar eru fagurlega skreyttir af nemendum Teiknideildar Myndlistarskólans í Reykjavík. Bókakassarnir verða í umsjá Rauða kross-deilda nærri heimilum barnanna og munu vonandi styrkja tengingu þeirra bæði við móðurmál sitt og íslenskuna og veita þeim gleði og ánægju. 

 

IMG_4043

IMG_4034