• Nagasaki2

Bann við kjarnorkuvopnum

Afleiðingar kjarnorkuvopna eru ekki takmarkaðar við tíma og rúm

29. október 2018

Vegna afvopnunarráðstefnu NATO sem fram fer hér á landi vill Rauði krossinn á Íslandi nota tækifærið og fagna því langtímamarkmiði flestra ríkja og hernaðarbandalaga að skapa aðstæður í heiminum fyrir útrýmingu kjarnorkuvopna og lýsa yfir ánægju með mikilsverð skref sem stigin hafa verið síðustu áratugi í þá átt að fækka kjarnorkuvopnum. Á sama tíma sér hreyfingin sig knúna til að árétta að kjarnorkuvopn hafa stækkað og orðið fullkomnari og tilvist slíkra vopna er enn raunveruleg ógn fyrir mannkynið. Rætt hefur verið af sífellt meiri alvöru um takmarkaða notkun slíkra vopna í almennum hernaði, þrátt fyrir að notkun kjarnavopna brjóti í bága við meginreglur alþjóðlegra mannúðarlaga þar sem ómögulegt er að gera greinarmun á bardagamönnum og almennum borgurum sem og hernaðarlegum mannvirkjum og almennum mannvirkjum, s.s. skólum og sjúkrahúsum. 

Útbreiðsla kjarnorkuvopna og hernaðaruppbygging 

Þróun mála á alþjóðavettvangi undanfarin ár gefur tilefni til að hafa þungar áhyggjur af því að kjarnorkuvopn verði notuð á ný verði ekki gripið í taumana með alþjóðlegu átaki. Fækkun kjarnavopna dregur ekki ein og sér úr hættunni á að þau verði notuð og ríki sem eiga kjarnorkuvopn og bandamenn þeirra bera sérstaklega mikla ábyrgð. Kjarnorkuvopn hafa breiðst út, t.d. er vitað af áhuga hryðjuverkahópa á að koma sér upp slíkum vopnum og aukin umferð kafbáta á norðurslóðum sem geta borið langdrægar eldflaugar er mörgum áhyggjuefni. Hættan einskorðast þó ekki við vopnuð átök. Útbreiðsla kjarnorkuvopna eykur einnig hættuna á kjarnorkuslysum. Þrátt fyrir hættuna sem stafar af kjarnorkuvopnum stefna einstaka kjarnorkuríki að því að bæta smærri kjarnorkusprengjum við vopnabúrið þar sem þau eru talin vera skilvirkari og nýtast til að bregðast við annars konar ógn, t.d. tölvuárásum. Þröskuldurinn fyrir notkun kjarnorkuvopna er með öðrum orðum að lækka. Dæmi um smærri sprengjur eru sprengjurnar sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki árið 1945. Eftir því sem árin líða frá einhverjum hörmulegustu atburðum sögunnar þar sem kjarnorkuvopn komu við sögu, því fjær færist alþjóðasamfélagið frá þeirri staðreynd að kjarnorkuvopn ógna mannkyninu enn og ekki er tryggt að þau verði ekki notuð aftur. Því miður er ekki til nein skýr alþjóðleg áætlun né geta til fullnægjandi neyðaraðstoðar komi til notkunar slíkra vopna. Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) biðlar til ríkja, leiðtoga heims og almennra borgara að bregðast nú þegar við aukinni hættu á notkun kjarnorkuvopna. 

Afleiðingar kjarnorkuvopna eru ekki takmarkaðar við tíma og rúm 

Allt frá árinu 1945 hefur Rauði krossinn vakið athygli á afleiðingum notkunar kjarnorkuvopna og talað fyrir útrýmingu þeirra. Kjarnorkuvopn eru einu gereyðingarvopnin sem hafa ekki verið bönnuð með beinum hætti, þrátt fyrir að eyðileggjandi máttur þeirra sé meiri en allra annarra vopna. Rauði krossinn talar af reynslu. Enn leita mörg þúsund manns árlega til spítala Rauða krossins í Japan vegna afleiðinga þeirra tiltölulega litlu sprengja sem varpað var á landið fyrir 73 árum. Ljóst er að áhrif kjarnorkuvopna takmarkast ekki við tíma og rúm, heldur vara áhrifin til næstu kynslóða og því er fullkomlega óásættanlegt að hætta sé á að kjarnorkuvopn verði notuð aftur. 

Alþjóðlegt bann við kjarnorkuvopnum 

Árið 2011 kallaði Alþjóðaráð Rauða krossins eftir því að öll ríki heims gerðu með sér lagalega bindandi samkomulag á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga og samþykkta um algjört bann við kjarnorkuvopnum og að afnám og eyðing vopnanna yrði tryggð. Árið 2012 lýsti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna yfir áhyggjum af skelfilegum afleiðingum notkunar kjarnorkuvopna og samþykkti í kjölfarið ályktun sem bar yfirskriftina Að taka upp þráðinn, samningaviðræður um marghliða kjarnorkuafvopnun. Meirihluti ríkja heims auk fulltrúa frjálsra félagasamtaka sóttu í kjölfarið þrjár ráðstefnur um áhrif kjarnorkuvopna og kröfðust brýnna aðgerða. Samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum (2017) er niðurstaða þessarar vinnu. Rauði krossinn stendur heils hugar við bak samningsins og vonar að íslensk stjórnvöld bæði fullgildi hann og tali fyrir mikilvægi hans á alþjóðavettvangi og taki þar með afstöðu með því að notkun kjarnorkuvopna, hótun um notkun eða varsla slíkra vopna sé óásættanleg út frá mannúðar- og siðferðissjónarmiðum. Þegar þetta er skrifað hafa 19 ríki fullgilt samninginn en hann tekur gildi eftir að 50 ríki hafa fullgilt hann. Gildistaka samningsins mun hafa margvíslegar afleiðingar, m.a. gerir bann framleiðendum slíkra vopna erfiðara fyrir. Þá hefur reynslan sýnt að alþjóðlegir samningar skapa ný viðmið sem hafa áhrif á hegðun ríkja, bæði aðildarríkja og ríkja sem kjósa að standa fyrir utan. Það skiptir því miklu máli að Ísland láti ekki sitt eftir liggja heldur skrifi undir, fullgildi og tali fyrir samningnum á alþjóðavettvangi.

Fyrir hönd Rauða krossins,

Sveinn Kristinsson, formaður og Melkorka Mjöll Ólafsdóttir, stjórnarmaður