• Neydarsofnun-Jemen

„Börn í Jemen lifa í stöðugri ógn “

Neyðarsöfnun vegna vopnaðra átaka og yfirvofandi hungursneyðar í Jemen

21. nóvember 2018

Neyðarsöfnun vegna vopnaðra átaka og yfirvofandi hungursneyðar í Jemen

Þú getur stutt starf Rauða krossins í Jemen með 2900 kr. framlagi með því að senda SMS-ið HJALP í númerið 1900.

Elín Jakobína Oddsdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur, hefur verið sendifulltrúi fyrir Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) í mörg ár. Nýlega var hún við störf í Jemen og þekkir því ástandið í landinu af fyrstu hendi. Hún var m.a. við störf í hafnarborginni Hodeida, þar sem átökin og mannfallið hefur verið einna mest. Þar nýverið  stóðu harðar loftárásir yfir og hafa í dag þúsundir misst heimili sín. Elín segir þessar fjölskyldur lifa við hræðilegar aðstæður, eiga ekkert, aðeins fötin sem þau eru í og lifa á hrísgrjónum eða hveitivatnsblöndu, ef þau þá finna einhvern mat yfirhöfuð.Elin_jemen

Spítalar og heilbrigðiskerfi Jemen eru í lamasessi vegna þessara átaka í landinu. Þegar Elín vann í skurðteyminu í Jemen gerði hún margar skurðaðgerðir á fórnarlömbum átakanna, bæði börnum og fullorðnum. Þetta gátu verið aðgerðir á kviðarholi, útlimum, höfði eða aflimun hand- og/eða fótleggja. Slík aflimun er algeng á stöðum þar sem sprengjum er varpað og geta þá sérstaklega fætur skaðast illa.  

Í Hodeida, þar sem ég vann fyrr á þessu ári man ég eftir eftir strák, 13 ára, sem var á leið út í búð og misst báða fætur vegna sprengju sem féll nálægt honum, hann var tekinn til aðgerðar, einnig var fullorðinn maður sem þurfti að taka af fótlegg við mjöðm og gera stóra aðgerð á kvið. Báðir þessir einstaklingar lifðu af en þetta er því miður veruleikinn í Jemen. En skurðteymi Alþjóðaráðs Rauða krossins kemur með allt það sem þarf til að gera þessar aðgerðir, lyf, skurðáhöld og margt fleira sem er nauðsynlegt til að vel takist til og sjúklingarnir komist heilir af sjúkrahúsinu.“

Í Jemen hafa almennir borgarar verið dregnir inn í átökin og verða ítrekað fyrir árásum og er aðstoð hjálparstofnana og hjálparstarfsmanna því nauðsynleg. Alþjóðaráð Rauði Krossinn dreifir mat og drykkjarvatni til fólks, nauðsynlegum hlutum til heimilishalds og setur upp hreinlætisaðstöðu til að koma í veg fyrir að smitsjúkdómar, á við kóleru, blossi upp.

Það sem af er ári hefur Rauða krossins veitt 500.000 manns mataraðstoð, tryggt yfir tveimur  milljónum borgara aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Alþjóðaráð Rauða krossins styrkir starfsemi 15 sjúkrahúsa í Jemen þar sem yfir 14 þúsund særðra hafa fengið heilbrigðisaðstoð. Elín hvetur fólk til þess að leggja sitt af mörkum og senda sms-ið HJALP í 1900  og styrkja mikilvægt starf Rauða krossins í Jemen.  

Öfluga pólitíska viðleitni þarf til að enda stríðið í Jemen. Almenningur sem er fjarri þessum veruleika verður samdauna síendurteknum fréttum frá átakastöðum og hætta er á að þetta verði ekki fréttnæmt efni lengur. Það skiptir máli að gleyma ekki því fólki sem þjáist og deyr, sem er í sjálfheldu í þessum átökum og hefur enga möguleika á að komast í burtu. Börn í Jemen lifa í stöðugri ógn, án öryggis, matar, hafa ekki möguleika á skólagöngu og deyja úr sjúkdómum sem vel væri hægt að meðhöndla ef lyf væru við höndina. Átökin lita allt daglegt líf almennra borgara í Jemen og óhætt er að segja að tíminn sé að renna út fyrir fólk sem lifir í aðstæðum sem það ræður ekkert við. “

Aðstæður í Jemen eru gríðarlega slæmar. Skortur á mat, hreinu vatni og eldsneyti hefur mikil áhrif á daglegt lífs fyrir borgara landsins og þarf því mikill meirihluti þjóðarinnar á neyðaraðstoð að halda.

  • 80% þjóðarinnar, eða um 22 milljónir af 27 milljónum Jemena, þurfa á aðstoð að halda
  • 15,7 milljónir hafa ekki greiðan aðgang að vatni
  • 14,8 milljónir Jemena hafa ekki aðgang að sjúkrahúsum eða heilsugæslu
  • 2,9 milljónir Jemena hafa yfirgefið heimili sín og eru á flótta vegna átakanna í landinu
  • Milljónir íbúa Jemen fá eina máltíð á dag og vita ekki hvaðan eða hvenær næsta máltíð kemur

Áætlað er að 60% þjóðarinnar skorti mat eða um 17,8 milljónir einstaklinga. Ástandið í landinu hefur einnig leitt til þess að heilbrigðiskerfi hefur hrunið. Gríðarlegur skortur er á bólusetningum barna og fjöldi vannærðra barna er mikill. Hefur þetta í för með sér að útbreiðsla sjúkdóma meðal barna hefur stóraukist. Fréttir benda til þess að útbreiðsla ýmissa sjúkdóma, svosem mislinga og kóleru, hafi aukist mikið undanfarið.

Umfang þessara vandamála eru því gríðarleg og daglegt líf Jemena versnar með hverjum deginum. Ástandið mun ekki batna nema að alþjóðasamfélagið og almenningur bregðist við. Nýjustu tölur benda til þess að á hverjum degi deyji 100 börn í Jemen úr hungri. 

Hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða kross hreyfingarinnar í Jemen um 2900 kr. með því að senda SMS-ið HJALP í númerið 1900. Einnig má leggja inn á reikning 0342 - 26 -12, kt. 530269-2649. Sú upphæð dugar til þess að þrjú börn í Jemen fái mat í einn mánuð.