• Eftir-thinn-dag

Erfðagjöf til Rauða krossins

Rauði krossinn í Vestmannaeyjum erfði allar eigur hjóna eftir þeirra dag

17. maí 2017

Það var í upphafi ársins 2016 að stjórn Rauða krossins í Vestmannaeyjum fékk þær fréttir frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum að deildin hefði erft allar eigur Björns Jónssonar, Túngötu 18 í Vestmannaeyjum. Um var að ræða íbúð, bifreið, fjármuni og ýmsa lausamuni. Björn og konan hans Ásta Hildur Sigurðardóttir frá Vatnsdal í Vestmannaeyjum höfðu ákveðið að láta allar sínur eigur renna til Rauða krossins í Vestmannaeyjum.

 Ásta Hildur lést í nóvember 2014 en Björn í febrúar 2016. Hjónin áttu engin börn og vildu að allar eigur þeirra rynnu til góðra málefna. Björn var sjómaður alla sína tíð en Ásta Hildur vann í fiskvinnslu og einnig var hún annáluð hannyrðakona.

Rauða kross fólk í Vestmannaeyjum er afar þakklátt þeim kæru hjónum að leggja allt sitt í mikilvæg verkefni Rauða krossins og blessar minningu þessara yndislegu hjóna.

Rauði krossinn í Vestmannaeyjum hefur þegar látið fé renna í stórt verkefni Rauða krossins á Íslandi í Sómalíu og eins veitt styrki til þeirra sem minna mega sín. Rauði krossinn í Vestmannaeyjum hefur talið það vera í anda gjafarinnar og mun hún nýtast áfram til þeirra mikilvægu verkefna sem Rauði krossinn vinnur að.