• IMG_0591

Fékk fólk til að brosa og safnaði 230 þúsund krónum fyrir flóttabörn

Fór í heimsreisu og gerði ljósmyndabók

27. janúar 2017

Benedikt Benediktsson, nemi í rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík, tókst að safna um 230 þúsund krónum fyrir Tómstundasjóð flóttabarna hjá Rauða krossinum á Íslandi. Benedikt safnaði upphæðinni með því að selja ljósmyndabók sem hefur að geyma dýrmætar minningar frá heimsreisu sem hann lagði í fyrir réttu ári síðan. Benedikt var gleðin uppmáluð þegar hann skilaði afrakstrinum til framkvæmdastjóra Rauða krossins, Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, sem færði honum blómvönd og viðurkenningarskjal að launum.

 

Benedikt er ungur Reykvíkingur sem lagði land undir fót snemma á árinu 2016. Hann heimsótti fjórar heimsálfur og kynntist fólki um allan heim. Benedikt var fljótur að átta sig á því að bros er sameinandi afl, hvert sem hann steig niður fæti. Bros er eins á öllum tungumálum og oft það eina sem þarf til að búa til frjóan jarðveg frekari samskipta. 


Benedikt fékk fólk til að brosa með sér á ljósmyndum og auk þess hélt hann í hönd fólksins sem er með honum á myndunum. Vinir og kunningjar Benna gátu fylgst með á samfélagsmiðlinum Instagram, þar sem myndunum var safnað saman undir myllumerkinu #smilewithme. 

Þegar heim var komið sá Benedikt að hann var með eitthvað í höndunum sem gæti prýtt fallega bók. Hann ákvað því að leggja af stað í verkefni, að setja upp bók með bestu ljósmyndum heimsreisunnar og fara í söfnun fyrir prentun bókarinnar. Hann ákvað um leið að halda áfram að fá fólk til að brosa.

 Smilewithme

Á myndunum má sjá dæmi úr bókinni, Benna taka á móti viðurkenningu frá Rauða krossinum og sömuleiðis mynd sem Benni tók af Kristínu framkvæmdastjóra, í sama stíl og prýða myndirnar í bókinni. 

IMG_0599