Fimm sendifulltrúar á leið til Bangladess

24. október 2017

Fimm sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi eru nú á leið til Cox´s Bazar í Bangladess til að starfa í tjaldsjúkrahúsi sem komið hefur verið upp í flóttamannabúðum fyrir flóttafólk frá Myanmar. Þrír sendifulltrúar frá Íslandi hafa verið að störfum sl. mánuð að koma upp tjaldsjúkrahúsinu upp. Afar erfiðar aðstæður eru á svæðinu en meira en hálf milljón manna hafa flúið yfir landamærin til Bangladess. Einnig hafa mikil flóð haft áhrif á aðstæður á svæðinu.

Hjúkrunarfræðingarnir Björg Sigurjónsdóttir, Ellen S. Björnsdóttir, Hrönn Håkansson, Jóhanna Jónsdóttir og Margrét Kristjánsdóttir munu starfa með teymi á vegum norska og finnska Rauða krossins en félögin hafa opnað búðirnar eftir beiðni Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC).

Tjaldsjukrahus-Bangladesh-norski-Raudi-krossinn

Aðstæðurnar eru erfiðar, en Lilja Óskarsdóttir sem hefur verið að störfum sl. mánuð ásamt þeim Hildi Ey Sveinsdóttir og Aleksander Knezevic lýsir aðstæðum svona:

"Við hliðina á tjaldsjúkrahúsi Rauða krossins nærri Cox's Basar er verið að koma upp hvíldarbúðum fyrir fólk sem er að koma yfir landamærin frá Myanmar. Vegurinn frá landamærunum liggur meðfram sjúkrahúsinu og í dag horfði ég á endalausa röð af uppgefnu fólki sem gekk hægum skrefum framhjá. Það var mikið af börnum, þeir fullorðnu voru með aleiguna á höfðinu eða hangandi á stöng sem lá á öxlunum. Konur báru yngstu börnin. Flestir gengu berfættir. Ég táraðist þegar ég horfði á röðina líða rólega hjá, fólk sem ekkert á og hvergi á heima. Í hvíldarbúðunum var hlúð að fólkinu, sumir voru skinnlausir á fótunum með flakandi sár eftir langa göngu. Allir þjáðir af hungri og vökvaskorti. Tveir litlir drengir vonuðust til að finna ömmu sína. Bróðir þeirra og foreldrar höfðu verið drepin. Eftir einhverja hvíld og aðhlynningu heldur hópurinn áfram og sameinast hálfri milljón annarra sem flúið hafa Myanmar. Framtíðin er ekki björt, e.t.v. skýli úr bambus og plastpokum og matur frá hjálparsamtökum, en lítil von um vinnu, skóla eða heimili."

Þónokkurn tíma hefur tekið að koma tjaldsjúkrahúsunum upp, en í síðustu viku tókst það og er þar nú fullbúið sjúkrahús, eins vel búið og hægt er í slíkum aðstæðum.

Rauði krossinn á Íslandi sendir gjarnan sendifulltrúa á vettvang, en sjaldan hafa jafn margir farið í einu enda þörfin gríðarleg.

Mynd-Michael-Drost-Hansen-min