• 64e1729da0a9a42e660f6a70670076df

Fimmtán milljónir í hjálparstarf í Sýrlandi

16. mars 2016

Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að verja fimmtán milljónum króna til hjálparstarfs í Sýrlandi. Fjármagnið fer til Alþjóðaráðs Rauða krossins sem er eitt fárra hjálparsamtaka sem geta starfað innan Sýrlands og vinna hönd í hönd með sýrlenska Rauða hálfmánanum. 

Stríðsátökin í Sýrlandi hafa nú varað í fimm ár samfleytt. Kristín S. Hjámtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, segir í tilkynningu að ástandið í Sýrlandi sé svo slæmt að alþjóðasamfélagið verði að leggja alla áherslu á að finna laun á átökunum og það sem allra fyrst. 

„Enda þótt það hafi komið yfir milljón flóttamenn til Evrópu á síðasta ári viljum við með okkar framlagi minna á og leggja áherslu á að hjálpa flóttafólki innan Sýrlands. Þar hafa um níu milljónir karla, kvenna og barna þurft að flýja heimili sín vegna átakanna. Það er fólk sem vill ekki eða getur ekki flúið átökin og það er fólk sem þarfnast mikillar aðstoðar, oft til að halda lífi“, segir Kristín. 

Frá árinu 2012 hefur Rauði krossinn varið um 200 milljónum króna til hjálparstarfs í Sýrlandi og í aðstoð við sýrlenska flóttamenn í nágrannaríkjum Sýrlands og Grikklandi. Þá hefur utanríkisráðuneytið stutt við hjálparstarf samtakanna með mótframlagi sem hljóðar upp á 85 milljónir króna.