• _SOS8819

Fjölbreytt starf Rauða krossins um hátíðirnar

23. desember 2015

Sjálfboðaliðar Hjálparsíma Rauða krossins 1717 standa vaktina yfir jólin, allan sólarhringinn eins og venjulega. Því miður reynist hátíð ljóss og friðar mörgum erfið og það eru ekki allir sem finna fyrir gleðinni sem ætti að einkenna hátíð samveru og náungakærleika. Hjá Hjálparsíma Rauða krossins er hægt að fá ráðgjöf og sálrænan stuðning, sem og upplýsingar um samfélagsleg úrræði sem fólki stendur til boða. Einnig minnum við á netspjall á vefsíðunni, 1717.is

Konukot, athvarf Rauða krossins fyrir heimilislausar konur, verður opið allan sólarhringinn frá Þorláksmessu fram á annan í jólum. Hefðbundinn opnunartími er milli kl. 17 og 10, daginn eftir. Fyrirtæki og einstaklingar hafa lagt Rauða krossinum lið, meðal annars með rausnarlegum gjöfum. Vin, athvarf Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir er lokað á aðfanga og jóladag en á annan í jólum verður notaleg samvera í boði sjálfboðaliða milli kl. 14 og 17.

Fá jólapakka frá starfsmönnum Frú Ragnheiðar
Heilbrigðisaðstoð Rauða krossins í skaðaminnkunarbílnum Frú Ragnheiði verður veitt yfir jólin nema hvað bíllinn verður ekki á ferð aðfangadagskvöld. Margir skjólstæðingar verkefnisins eru heimilislausir og þeir fá jólapakka, sem starfsmenn og sjálfboðaliðar útbjuggu í aðdraganda jóla.
Ákveðnar voru úthlutanir úr Áfallasjóði Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu í fyrsta sinn í aðdraganda jóla. Nokkrir einstaklingar, sem hafa orðið fyrir fjárhagslegum áföllum vegna sjúkdóma og slysa fá stuðning úr sjóðnum.

Hafa afhent fimm hundruð fatakort
Um fimm hundruð manns hafa á undanförnum vikum fengið fatakort, sem gerir þeim kleift að kaupa föt í verslunum Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu.

Að þessu sinni eru allir sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi heima um jólin.

Rauði krossinn óskar öllum landsmönnum nær og fjær gleðilegrar hátíðar.