Fjölmennir íbúafundir á Hvammstanga og Blönduósi

28. febrúar 2019

Nýlega fóru fram vel sóttir íbúafundir á Hvammstanga og Blönduósi. Fundirnir voru fyrsta skrefið í undirbúningi íbúa sveitarfélaganna fyrir móttöku flóttafólks en fyrr á árinu var tilkynnt að samþykkt hafi verið að taka á móti sýrlenskum fjölskyldum í þessum sveitarfélögum.

Á fundunum voru fulltrúar félagsmálaráðuneytis, Rauða krossins og sveitarfélaga, sem áður hafa tekið á móti flóttamönnum, með kynningar á verkefnunum sem framundan eru. Í kjölfarið spruttu upp uppbyggilegar og fjörlegar umræður og á Blönduósi var sérstaklega talað um góða reynslu bæjarins af móttöku flóttafólks frá fyrrum Júgóslavíu. Tóku fulltrúar Rauða krossins undir þessi orð og stefnt er að því að hafa fljótlega annan fund um menningu og sögu Sýrlands fyrir íbúa sveitarfélaganna sem og væntanlega sjálfboðaliða. 

Verkefnin sem eru framundan eru afar spennandi og fjölbreytt og hlakkar Rauði krossinn til áframhaldandi samstarfs vegna verkefnins.