• P-ITA0947

Fjölskyldu Hasans var bjargað úr Miðjarðarhafi

Um 2000 manns hefur verið bjargað

26. ágúst 2016

„Ég var ofsóttur, fangelsaður og laminn. Það var ekkert annað í stöðunni en að flýja.“ Þetta segir Hasan Al-Baba, 27 ára Sýrlendingur sem var bjargað úr sjávarháska í síðustu viku. Það var áhöfn björgunarskipsins Responder sem kom Hasan og fjölskyldu hans til bjargar.

Hasan samdi um ferð fyrir sig og fjölskyldu sína frá Líbíu til Ítalíu. Þegar hann sá bátinn sem átti að fara með þau yfir Miðjarðarhafið neitaði hann hins vegar að stíga um borð. „Sömu menn og ég samdi við miðuðu þá byssu á mig, ég og fjölskylda mín fengjum kúlu í höfuðið – færum við ekki með bátnum.“

Báturinn var því næst fylltur af fólki, hátt í 30 manns. Hasan segir að „skipstjórinn“ hafi ekki haft nokkra reynslu en eina ráðgjöfin sem hann fékk fyrir brottför var að elta pólstjörnuna.

Ekki leið á löngu uns báturinn byrjaði að fyllast af vatni. Honum hvolfdi að lokum. Hasan og Aisha kona hans notuðu alla sína krafta til að halda börnum sínum tveimur á floti. Dóttir þeirra, Osaida, er fimm ára og stóð sig eins og hetja. Sonurinn Sika er aðeins 6 mánaða. En þeim tókst ætlunarverkið. Þau voru heppin. Ítalskur fiskveiðibátur kom auga á fólkið og hífði þau um borð og kallaði á hjálp. Hópurinn var upphaflega 28, nú voru 22 eftir. Responder, björgunarskip Rauða krossins, kom skömmu síðar og tók fólkið um borð.

Hasan vonast til að börnin komi til með að njóta frelsis og tækifæra sem hann hafði ekki sjálfur. Hann hefur séð fyrir sér sem hnefaleikakappi í Dubai og Sýrlandi. Hann vonast til að börnin fái að njóta íþrótta og tómstunda sem hann hefur ekki fengið tækifæri til að njóta síðan borgarastríðið í Sýrlandi braust út. Hann óskar þess heitast að Osaida takist að verða atvinnumaður í fótbolta og leika fyrir þýska stórliðið Bayern München. 

Rauði krossinn á Íslandi styður við björgunaraðgerðir ítalska Rauða krossins og Alþjóðasambands landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC).  Neyðarsöfnun er hafin og hægt er að leggja söfnuninni lið með því að hringja í söfnunarnúmer, leggja inn á söfnunarreikning eða nýta Aur-appið. 

Söfnunarnúmerin eru

904 1500 fyrir 1500 króna framlag

904 2500 fyrir 2500 króna framlag

904 5500 fyrir 5500 króna framlag

Reikningsnúmerið er 

0342-26-12, kt. 530269-2649

Aur-númerið er 123 788 1717