• AR-170139859

Flóttamenn frá Sýrlandi komu til landsins

31. janúar 2017

Mánudaginn 30. janúar komu fimm fjölskyldur frá Sýrlandi til Íslands, alls 22 manns. Forseti Íslands og verndari Rauða krossins á Íslandi, Guðni Th. Jóhannesson og kona hans Eliza Reid tóku á móti hópnum á Bessastöðum ásamt Þorsteini Víglundssyni, velferðarráðherra, Degi B. Eggertssyni borgarstjóra auk fulltrúa frá Rauða krossinum, Sveini Kristinssyni formanni Rauða krossins og Kristínu S. Hjálmtýsdóttur framkvæmdastjóra.
Þetta er þriðji hópur sýrlenskra flóttamanna sem koma til Íslands en í síðustu viku kom einnig hópur og munu þau setjast að á Akranesi, í Hveragerði og Árborg, á Akureyri sem og í Reykjavík.
Sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins hafa innréttað íbúðir fyrir fjölskyldurnar undanfarnar vikur auk þess sem stuðningsfjölskyldur munu aðstoða fjölskyldurnar við að koma sér fyrir í nýju landi og aðlagast íslensku samfélagi.

Myndina tók Eyþór fyrir Vísi.