• IMG_5619

Formaður Rauða krossins hélt ræðu á alþjóðaráðstefnu

14. desember 2015

 

Ræða Sveins Kristinssonar, formanns Rauða krossins á Íslandi, á 32. alþjóðaráðstefnu Rauða krossins í Genf 9. desember 2015. Ráðstefnuna sækja fulltrúar Rauða krossins og þau ríki sem eru aðilar að Genfarsamningunum frá 1949.

 

Frú fundarstjóri.

 

Ég ólst upp á afskekktum stað norðarlega á Íslandi. Þá var heimur minn friðsæll og helsta hættan sú að hungraður ísbjörn bærist á ísjaka til landsins norðan frá heimskautasvæðum.

Nú veit ég að sjálfsögðu að heimurinn er mun stærri og getur verið mun hættulegri.

Ein af þeim hættum sem við horfumst nú í augu við, er hlýnun jarðar sem getur í framtíðinni ítrekað valdið ófriði og hamförum.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur unnið sér keppnisrétt á Evrópumótinu í Frakklandi næsta sumar. Hvernig stendur á því að svo fámenn þjóð sem aðeins telur 330 þúsund íbúa nær svo góðum árangri.

Liðið hefur að vísu góðan sænskan þjálfara, en meginástæðan er sú að allir í liðinu berjast hver fyrir annan og enginn er stærri en liðsheildin. Einmitt á þann hátt eigum við að berjast gegn loftslagsbreytingum. Við sem búum á þessari jörð verðum að vera öll í sama liðinu. Jörðin er dómarinn í þessari viðureign. Munum við vinna eða munum við tapa? Það veltur á okkur og hvernig við bregðumst við í sameiningu.

Á sama tíma verðum við grípa til aðgerða í samræmi við grundvallarhugsjónir Rauða krossins sem aldrei hafa verið mikilvægari en nú. Við verðum að horfast í augu við að þörf er á því að festa í sessi virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og bæta úr ágöllum við innleiðingu og eftirfylgni þeirra laga.

Við fögnum þess vegna eindregið þeim ályktunum sem liggja fyrir á þessari ráðstefnu og ætlað er að undirstrika mikilvægi alþjóðlegra mannúðarlaga.

Ég vil einnig nota tækifærið og leggja áherslu á mikilvægi þess að taka skýra afstöðu gegn kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi. Þetta á ekki síst við á tímum átaka og hamfara.

Við sem hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans verðum að halda áfram vinnu okkar við að bæta lífsskilyrði þurfandi fólks. Höfum í huga að flóttamenn, fórnarlömb stríðsátaka og annað berskjaldað fólk er fólk eins og ég og þið. Þau eiga sínar vonir og þrár eins og við öll og mikilvægt er að komið sé fram við þau af virðingu. Rauði krossinn sem mannúðarhreyfing hefur skyldum að gegna við fólk sem hefur hrakist á flótta af ástæðum sem það sjálft gat ekki haft stjórn á. Við verðum að koma til hjálpar!

Takk fyrir.