Forsetahjónin heimsóttu farsóttarhús Rauða krossins

24. september 2021

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Jean Reid forsetafrú heimsóttu farsóttarhús Rauða krossins á Rauðarárstíg nú í byrjun september. Megintilgangur heimsóknar forsetahjónanna var að kynna sér starfsemi farsóttarhúsanna og hvernig heimsfaraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á verkefni Rauða krossins.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri, Silja Bára Ómarsdóttir varaformaður stjórnar Rauða krossins og Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður farsóttarhúsa, ásamt fleiri starfsmönnum félagsins tóku á móti forsetahjónunum og kynntu fyrir þeim starfsemina. Guðni og Eliza sýndu verkefnum hússins mikinn áhuga og gáfu sér góðan tíma til að fræðast um starfsemi Rauða krossins.

Í kjölfar heimsóknarinnar sendu forsetahjónin starfsfólki Rauða krossins hvatningarorð og hlýjar kveðjur. Forseti Íslands er verndari Rauða krossins og er áhugi forsetahjónanna og hvatningarorð mikilsmetin af sjálfboðaliðum og starfsfólki, sem hefur staðið vaktina í gegnum faraldurinn. Um 30 gestir dvöldu í húsinu þegar Guðni og Eliza heimsóttu farsóttarhúsið.

11 þúsund gestir en engin smit meðal starfsfólks og sjálfboðaliða

Rauði krossinn hefur rekið öll farsóttarhús á landinu frá upphafi faraldurs og sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins hafa alls sinnt um 11.000 gestum, þar af hafa um 4.500 gestir verið í einangrun. Þarfir gestanna hafa verið jafn ólíkar og gestirnir hafa verið margir. Þar hafa dvalið meðal annars fjölskyldur búsettar á Íslandi, hælisleitendur sem voru að koma til landsins eftir langt og erfitt ferðalag, ferðamenn sem þurftu að breyta ferðaplönum og máttu þola einangrun í farsóttarhúsi allan þann tíma sem var ætlaður til ferðalaga um landið og gestir sem glíma við vímuefnavanda og andleg veikindi. Ánægjulegt er að segja frá því að þrátt fyrir ólíkar þarfir og áskoranir hafa engin covid smit komið upp meðal starfsmanna eða sjálfboðaliða í farsóttarhúsum Rauða krossins frá upphafi faraldursins.

Í upphafi var eingöngu einn starfsmaður en 70 sjálfboðaliðar

Sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins hafa lagt sig fram nótt sem nýtan dag að sinna þörfum gestanna en fyrstu þrjá mánuðina var eingöngu einn launaður starfsmaður í farsóttarhúsum Rauða krossins en um 70 sjálfboðaliðar stóðu vaktina daga og nætur.

Allir starfsmenn og sjálfboðaliðar farsóttarhúsahúsanna hafa fengið sérstaka þjálfun vegna vinnu sinnar með fólki sem dvelur í sóttkví og einangrun. Sérstök áhersla er að veita gestunum sálrænan stuðning.

SOS_1702

Það er mikilvægt fyrir starfsmenn og sjálfboðaliða Rauða krossins að fá slíkan stuðning frá forseta Íslands. Rauði krossinn þakkar forsetahjónunum kærlega fyrir komuna og sýndan áhuga á verkefnum félagsins.

Á efstu myndinni frá vinstri eru: Björg Kjartansdóttir sviðstjóri hjá Rauða krossinum, Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins, Örvar Þorri Rafnsson neyðarvarnarfulltrúi, Eliza Reid forsetafrú, Guðni Th. Jóhannesson forseti, Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður farsóttarhúsa, Jón Brynjar Birgisson sviðstjóri hjá Rauða krossinum, Guðný Jóna Guðmarsdóttir starfsmaður í farsóttarhúsi, Bjarni Arason hótelstjóri, Védís Drótt Cortez starfsmaður í farsóttarhúsi og Silja Bára Ómarsdóttir varaformaður Rauða krossins.