• Land-Rover---Vestfirdir-3

Frábærar vinnustofur á Vestfjörðum

Rauði krossinn kynnti neyðarvarnir á Vestfjörðum

31. ágúst 2016

Um liðna helgi voru haldnar tvær vinnustofur, á Patreksfirði og Ísafirði, fyrir þá félaga Rauða krossins sem koma til með að kynna verkefnið 3 dagar á Vestfjörðum.  Mikil ánægja var með vinnustofurnar. Myndaðist þar frábært tækifæri til að hitta gott fólk sem býr yfir mikilli reynslu og þekkingu í þessum málaflokki. Kynningar í skólum hefjast í september á Vestfjörðum og hlökkum við til að hitta og uppfræða nemendur um neyðarvarnir og eiga við þá samtal um mikilvægi þeirra.

Verkefnið 3 dagar stuðlar að því að efla viðnámsþrótt Íslendinga gagnvart rofi á innviðum. Með því er átt við að hvert heimili sé undirbúið náttúruhamförum eða hvers kyns neyðarástandi með heimilisáætlun og viðlagakassa. Með heitinu 3 dagar vill Rauði krossinn undirstrika mikilvægi þess að einstaklingar og fjölskyldur geti verið sjálfum sér nægar í 3 daga, eigi sér stað rof á innviðum. 

Þess vegna ætlar Rauði krossinn að vera með fræðsluerindi um allt land á næstu tveimur árum og kynna verkefnið, fræða almenning um hvernig sé best að bera sig að og undirstrika mikilvægi góðs undirbúnings. Aðaláherslan verður lögð á skóla landsins og verkefnið kynnt fyrir börnum og unglingum á myndrænan og áhugaverðan hátt. 

Reynslan hefur sýnt aftur og aftur að það að vera vel undirbúin getur skipt sköpun þegar hvers kyns neyðarástand skapast. Að sama skapi minnkar góður undirbúningur álag á viðbraðgsaðila á borð við björgunarsveitir.


Vinnustofa---Patro

Á myndinni má sjá frá vinstri þau Hrefnu Hennýju Víkingur, hjúkrunarfræðing, Helgu Magnúsdóttur, formann Barðastrandarsýsludeildar, Valgeir Örn Kristjánsson, formaður Strandasýsludeildar og Helgi Páll Pálmason, meðstjórnandi Barðastrandasýsludeildar. Þau sóttu vinnustofuna á á Patreksfirði.