Fræðsludagskrá fyrir sjálfboðaliða

21. september 2017

Í haust förum við af stað með fræðsluröð fyrir sjálfboðaliða Rauða krossins. Markmiðið er að bjóða sjálfboðaliðum upp á áhugaverða fræðslu um málefni sem efla hæfni og þekkingu fólks í sjálfboðnu starfi og einkalífi. Fræðsluröðin er opin öllum sjálfboðaliðum Rauða krossins og hvetjum þig til að skrá þig á sem flesta viðburði.  

28.09.17. Streita í sjálfboðnu starfi - Hvernig drögum við úr streitu? 

Fyrsta fræðsla vetrarins fer fram fimmtudaginn 28. september þar sem sálfræðingurinn Elfa Dögg S. Leifsdóttir mun fjalla um streitu í sjálfboðnu starfi, helstu álags- og streituvalda,  algeng streitueinkenni eða varúðarbjöllur auk þess sem skoðaðar verða ýmsar aðferðir til að losa um spennu og streitu. Fræðslan fer fram í Efstaleiti 9 milli 17:00-18:30 og hér má skrá sig í Streita í sjálfboðnu starfi - Hvernig drögum við úr streitu? 

26.10.17. Hvað er skaðaminnkun? Hugmyndafræðin, nálganir og jaðarsettir hópar á Íslandi

Þann 26. október mun Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar, fjalla um hugmyndafræði skaðaminnkunar í vímuefnamálum, hvernig skaðaminnkandi nálgun er beitt í verkefnum Rauða krossins, og um málefni jaðarsettra hópa á Íslandi s.s. heimilislausra og fólks með fíknivanda. Fræðslan fer fram í Efstaleiti 9 milli 17:00-18:30 og hér má skrá sig í Hvað er skaðaminnkun? Hugmyndafræði, áherslur, og jaðarsettir hópar á Íslandi. 

30.11.17. Ferðin yfir Miðjarðarhafið: Hvað tekur við á Ísland? 

Síðasta fræðsla vetrarins fyrir jól verður í höndum Þórs Guðmundssonar sem segir frá björgunaraðgerðum Rauða krossins á Miðjarðarhafi. Hann og Jóhanna Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur voru í áhöfn björgunarskipsins Responder, sem kom að björgun 1.107 flóttamanna á sjóleiðinni frá Líbíu til Ítalíu síðla árs 2016. Þórir mun segja frá björgunaraðgerðunum, fjalla um málefni flóttamanna á Íslandi og tengja við verkefni Rauða krossins. Fræðslan fer fram í Efstaleiti 9 milli 17:00-18:30 og hér má skrá sig Ferðin yfir Miðjarðarhafið: Hvað tekur við á Ísland? 

Dagskrá fyrir veturinn 2018 verður auglýst síðar.