Framlag handverkshópa á Vestfjörðum

12. maí 2016

Rauði krossinn í Barðastrandarsýslu á margan góðan bakhjarlinn á svæðinu og þar á meðal eru bútasaumskonurnar „Spólurnar“ á Patreksfirði. Þær hafa unnið að því í vetur að sauma ungbarnateppi fyrir fataverkefnið „Föt sem framlag“ en það eru ungbarnapakkar sem fara til Hvíta- Rússlands. Konurnar hittast í Félagsheimilinu á Patreksfirði um helgar og svo er líka saumað heima.  Þær afhentu Rauða kross deildinni 35 vegleg ungbarnateppi og einnig sokka og húfur sem þær höfðu prjónað.

Handverkshópurinn á Tálknafirði hittist einu sinni í viku og sauma og prjóna föt og teppi í pakka Rauða krossins og hafa verið mjög afkastamiklar í vetur.

Eldri borgarar í Selinu á Patreksfirði hafa einnig lagt verkefninu lið með því að prjóna peysur, húfur, sokka o.fl. fallegt í pakkana.

Helga Gísladóttir, formaður Rauða kross deildarinnar í Barðastrandarsýslu, vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem leggja deildinni lið og þar með mannnúð í heiminum. Deildin hefur veitt öllum þessum sjálfboðaliðahópum viðurkenningu á aðalfundum deildarinnar undanfarin ár fyrir sitt framlag enda er það alveg ómetanlegt.

Á myndinni fyrir ofan eru: „Spólurnar" þær Guðný Ólafsdóttir, Ingibjörg Valgeirsdóttir, Anna Jensdóttir, Sólveig Ísafoldardóttir, Arnheiður Jónsdóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Sonja Ísafold og Rósa Ástvaldsdóttir.

Á myndinni fyrir neðan er Handverkshópurinn á Tálknafirði: Erla Einarsdóttir, Pálína Kristín Hermannsdóttir, Hansína, Kristjana Andrésdóttir, Berglind Eva Björgvinsdóttir og Erla.