• _DSC8363-Icelandic-Red-Cross-TH-Thorkelsson-20x30

Framlag og fjölskyldusameiningar í Suður-Súdan

10. janúar 2018

Þau Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins og Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs fóru í vettvangsferð til Suður-Súdan í desember ásamt Þorkeli Þorkelssyni ljósmyndara. Þau kynntu sér aðstæður þar í landi og verkefni Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC). 

Suður-Súdan er yngsta ríki heims en átök hafa geisað í landinu frá sjálfstæðismyndun þess árið 2011. 

Talið er að átökin hafi nú orðið um 300 þúsund einstaklingum að bana, auk þess sem rúmlega 2 milljónir einstaklinga hafi þurft að flýja heimili sín. Samhliða viðvarandi átökum býr almenningur við óregluleg úrkomutímabil og mikinn uppskerubrest. Við þessar aðstæður býr almenningur í Suður-Súdan við stigvaxandi fæðuóöryggi og stendur nú andspænis alvarlegum fæðuskorti og yfirvofandi hungursneyð. Vegna þessa þjáist mikill fjöldi fólks af alvarlegri næringarþörf og sjúkdómum, án þess að eiga völ né aðgang að lífsnauðsynlegri þjónustu og/eða læknismeðferð.

_DSC1498-Icelandic-Red-Cross-TH-Thorkelsson-20x30Hér eru þau Kristín og Atli Viðar við flugvél á vegum ICRC í Suður-Súdan. Flugvélar eru mikið nýttar til að koma fæðu og annarri lífsbjargandi aðstoð til fólks.

Rauði krossinn í Suður-Súdan, með stuðningi Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC), vinnur að því að bregðast við þeim fjölþætta mannúðarvanda sem blasir við Suður-Súdan. Meðal helstu verkefna Rauða kross hreyfingarinnar í Suður-Súdan er að auka fæðuöryggi, sameina fjölskyldur sem orðið hafa viðskila við ættingja sína, og veita lífsbjargandi aðstoð með því að tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Heilt á litið  er markmið Rauða kross hreyfingarinnar standa vörð um réttindi almennra borgara í Suður-Súdan og gera því kleift að búa áfram í heimalandi sínu í stað þess að leggja á flótta. Þau Kristín og Atli Viðar urðu einmitt vitni að því þegar fjölskyldur sameinuðust fyrir tilstuðlan ICRC eins og fjallað var um í viðtali við þau í Sunnudagsmogganum.

Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að verja 32 milljónum króna til mannúðaraðstoðar Rauða kross hreyfingarinnar vegna fæðuskorts og vopnaðra átaka  í Suður-Súdan. Á árinu 2017 úthlutaði Rauði krossinn á Íslandi því alls um 115 milljónum króna vegna ástandsins í Suður-Súdan; annars vegar til neyðaraðgerða í Suður-Súdan, og hins vegar í Úganda vegna flóttafólks sem lagt hefur á flótta frá Suður-Súdan. Framlag Rauða krossins á Íslandi felst í beinum fjárstuðningi til alþjóðahreyfingarinnar annars vegar og hins vegar atbeina fjölda sendifulltrúa til mannúðarverkefna á vettvangi.

 

26240235_10155666185993387_5649351679736062400_oOpna úr Morgunblaðinu 7. janúar sl. Myndir Þorkels Þorkelssonar prýddu umfjöllunina.

Með tímanum hefur stríðið í Suður-Súdan færst frá vígvöllum yfir í hið borgaralega líf, þar sem gerðar eru aðfarir að óbreyttum borgurum. Ítrekaðir stríðsglæpir eru framdir þar sem kynferðislegt ofbeldi og hópnauðganir eru daglegt brauð. Konur og stúlkur eru í auknum mæli sérstök skotmörk stríðandi fylkinga, þar sem kynferðis- og kynbundið ofbeldi er kerfisbundið notað sem vopn í átökunum. Samkvæmt Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) hafa til að mynda 70% kvenna sem búa á vernduðum svæðum UNMISS fyrir óbreytta borgara í Júba, höfuðborg Suður-Súdans, orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Að auki hafa 78% óbreyttra borgara í sömu búðum verið beitt valdi til þess að horfa á aðra borgara verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Vegna þessa þáði Rauði krossinn á Íslandi 15 milljóna króna styrk árið 2017 frá utanríkisráðuneytinu til baráttunnar gegn kynferðis- og kynbundnu ofbeldi í Suður-Súdan.

Fólksflutningar eru óhjákvæmileg birtingarmynd vopnaðra átaka. Í Suður-Súdan hafa rúmlega 2 milljónir einstaklinga þurft að flýja heimili sín, þar af meirihluti til veikburða nágrannalanda í Austur-Afríku. Sem dæmi hefur um ein milljón flóttafólks frá Suður-Súdan leitað skjóls í flóttamannabúðum í Úganda, þar sem mikill meirihluti flóttafólks eru konur, börn og fólk með sérþarfir. Á árinu sem leið studdi Rauði krossinn á Íslandi við flóttamannabúðir í Úganda með beinu fjárframlagi og faglegum stuðningi sendifulltrúa á sviði sálræns og sálfélagslegs stuðnings.

Hér má lesa stuttan úrdrátt úr viðtali við Kristínu um fjölskyldusameiningu í Suður-Súdan.

Rauði krossinn á Íslandi þakkar samstarfsaðilum fyrir framlög sín árið 2017. Þar ber helst að nefna utanríkisráðuneytið og Mannvini Rauða krossins sem leggja sitt af mörkum með mánaðarlegu framlagi til Rauða krossins á Íslandi. Takk.